7.10.2009 | 18:51
Pælingar I
Eins og alltaf eru margar pælingar í gangi í hausnum á mér ...
... ég er tala um pælingar, sem eru annars eðlis en þær sem fjalla um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, IceSave eða það hvort ríkisstjórnin er að standa sig eða ekki ... hef satt að segja lítið nennt að pæla í því, frá því ég tók þátt í Búsáhaldabyltingunni.
Eitt af því sem ég er að pæla mikið í eru uppeldismál ...
... og ein pælingin er, hversu miklu máli skiptir það fyrir börn að hafa rútínu á hlutunum?
Fara að sofa á sama tíma, borða á sama tíma, sitja á sama stað við matarborðið, láta sama tíma líða milli máltíða, koma upp einhverju "ritúali" þegar fara á að sofa o.s.frv.
Hversu miklu máli skiptir þetta í raun? Af hverju þarf tilveran hjá börnum að vera nelgd niður? Í þágu hvers er það? Barnsins, segja sjálfsagt flestir ...
Sjálfur hef ég oft heyrt að þetta hafi með öryggi barnsins að gera ... að geta gengið að hlutum vísum ... tjaaaaaa ...
En er það í þágu barnsins? Ég veit það hreinlega ekki sjálfur ... og ég er hreint ekki viss um það, í sannleika sagt.
Hvers vegna ætti það að vera börnum í óhag að upplifa eitthvað af þeirri "dýnamík" sem lífið hefur upp á að bjóða? Í raun er tilveran andstæða rútínu, því heimurinn er síbreytilegur. Hvað tapast við að leyfa ekki barninu að upplifa þennan breytileika?
Sveigjanleiki kannski? Öryggi þegar barnið eldist og áttar sig á að tilveran er mun flóknari en leit út í fyrstu? Í þessu samhengi finnst mér mjög fróðlegt að spá í hvað margir fullorðnir eru afskaplega óöruggir og þjakaðir af minnimáttarkennd ... er eitthvað samhengi þarna á milli?
Allir sem hafa einhvern tímann lesið kenningar Darwins, vita að sveigjanleiki er lífsnauðsynlegur, þeir sem hafa snefil af slíku eru mun líklegri að komast af en hinir ... að kenna börnum sveigjanlega hlýtur þá að vera af hinu góða ... eða hvað??
Í öllum þeim fjölda bóka sem ég hef lesið um hvatningarsálfræði, er fólk hvatt til að vera sveigjanlegt þegar þörf er á. Annað er bara ávísun á vesen ... þrjóskupúkar og þráhundar eru sjaldnast efstir á vinsældarlistanum, hvorki hjá sjálfum sér né öðrum ...
Ég spyr aftur ... er rútína svona mikilvæg börnum, eins og af er látið? Eða er það hagur foreldranna sem öllu ræður? Raunar held ég að það sé tilfellið í mörgum tilvikum, svona ef ég á að vera alveg hreinskilinn ...
Athugasemdir
Ég held að það fari bara algjörlega eftir því hvernig týpa barnið er. Sum börn þrífast betur í rútínu og önnur ekki. En klárlega er gott að hafa einhvern fastan punkt í annars sveigjanlegri tilverunni :) Góða skemmtun á KISS júhú!!!
Þóra (IP-tala skráð) 13.10.2009 kl. 20:10
Jú, þetta er svo sannarlega sjónarmið hjá þér ... ég þarf að pæla aðeins meira í þessu ;)
Páll Jakob Líndal, 13.10.2009 kl. 22:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.