20.12.2008 | 00:05
Um Landsbankann
Hingað til hef ég haldið mig frá því vera að ræða mikið "ástandið" hér á blogginu mínu, enda nógir um að blogga um það ...
Hins vegar get ég ekki leynt því að ég varð næstum því pirraður þegar ég renndi í gegnum bréf, dagsett 10. desember sl., undirritað af S. Elínu Sigfúsdóttur, bankastjóra Landsbankans. Í bréfinu, sem er opið bréf til hlutdeildarskírteinishafa í Peningamarkaðssjóði Landsbankans ISK, fer Elín yfir víðan völl í málefnum þessa sjóðs og biðst "innilegrar velvirðingar á því tjóni sem hlutdeildarskírteinishafa hafa orðið fyrir", sem hafi verið "mikið áfall fyrir okkur [Landsbankann og Landsvaka hf.] og augljóslega ekki í samræmi við þær væntingar sem lagt var upp með".
Ég verð einhvern veginn að segja fyrir mig að mig langar bara ekkert til að fá einhverja afsökunarbeiðni frá bankastjóra sem á efalaust stóran skerf í því hvernig allt fór. Bankastjóra sem í stað þess að axla ábyrgð, lætur fall bankans líta út sem eitthvert slys, og reynir svo að skýra út í löngu máli af hverju bankinn getur ekki greitt til baka nema brot af því sem viðskiptavinir hans áttu inni hjá honum. Ég vil bara að þeir sem báru ábyrgð á þessum gjörningi komi sér út úr bankanum sem fyrst ... haldi kjafti og skammist sín!
Ég sagði það fyrir löngu síðan á þessu bloggi mínu að ég fyrirgæfi misvitrum fjárglæframönnum að þeir hafa nú sett landið á höfuðið. Það geta allir gert mistök, það geta allir misst sig út í einhverja vitleysu og svo fram eftir götunum.
En til að slík fyrirgefning haldi vatni, vill maður líka sjá að fólk viðurkenni mistök sín, stígi til hliðar og taki sín mál til alvarlegrar athugunar, sem í minni orðabók kallast "að axla ábyrgð" ... því miður sýnist mér bankastjóri Landsbankans og margir fleiri reyndar, hafi tekið algjörlega annan pól í þá hæð.
Þá finnst mér ógeðfellt að sjá hvernig Elín reynir að hvítþvo æðri og æðstu stjórnendur Landsbankans, með því að reyna að varpa ábyrgðinni nánast alfarið yfir á það starfsfólk bankans sem á bein samskipti við viðskiptavini bankans. Í bréfinu segir Elín að starfsfólk bankans "hafi ekki öllum tilvikum gert rétta grein fyrir áhættu við fjárfestingar í Peningamarkaðssjóðnum" en sú "framsetning er ekki rétt og á ekki stoð í þeim gögnum sem lögð voru fyrir starfsfólk til að styðjast við í markaðssetningu sjóðanna".
Það vita það allir sem vilja vita að stjórendur bankans lögðu á það mikla áherslu að viðskiptavinir hans fjárfestu í umræddum sjóðum ... og segja má að "nánast allt hafi verið leyfilegt" í þeim efnum.
Ennfremur segir í bréfi Elínar: " ... er í raun engin fjárfesting áhættulaus og sjóðinn átti ekki að markaðssetja sem áhættulausan, enda var það aldrei gert í auglýsingum eða kynningarefni".
Í þessu samhengi er fróðlegt að glugga í Fréttabréf Verðbréfa- og lífeyrisþjónustu Landsbankans 1. tbl. 2008 sem ber heitið "Öruggir fjárfestingarkostir á óvissutímum". Í stuttu "paragrafi", undir yfirskriftinni "Peningabréf, örugg og jöfn ávöxtun", má þó segja að farið sé ansi nærri því að segja sjóðinn áhættulausan, en þar segir: "Peningabréf Landsbankans eru kjörinn kostur til skammtímaávöxtunar. Margir fjárfestar hafa einnig valið þann kost að leita skjóls með langtímafjárfestingar sínar í Peningabréfum. Þau eru mjög öruggur kostur og gefa góða ávöxtun þegar stýrivextir eru háir þar sem þeir ráða miklu um ávöxtun á peningamarkaði".
Þessum pistli mínum um Landsbankann ætla ég að ljúka á jóla- og áramótakveðju bankans til viðskiptavina sinna. Hið fyrra var sent viðskiptavinum í lok árs 2007 en hið síðara í lok árs 2008. Munurinn er nokkuð sláandi. Ég verð að segja fyrir mig að síðara bréfið höfðar meira til mín en hið fyrra en sjón er sögu ríkari ...
"Kæri Vörðufélagi"
Það er alltaf sérstök stund að taka upp dagatal næsta árs og fletta í gegnum það. Maður fær endanlega staðfestingu á því að tíminn líði, það komi annað ár og maður verði ári eldri.
Hugmyndin að baki dagatalinu að þessu sinni er tengsl Íslands við umheiminn og hvernig heimar eru nátengdir og skyldir þrátt fyrir að vera ólíkir á yfirborðinu. Hugmyndin á uppruna sinn í þeirri víðfeðmu starfsemi sem Landsbankinn hefur í 17 löndum í þremur heimsálfum. Áræðni sína og styrk á Landsbankinn að þakka rúmlega 120 ára sögu bankans hér á Íslandi.
Landsbankinn er og verður banki allra landsmanna.
Með kveðju, starfsfólk Landsbankans"
"Kæri Vörðufélagi
Dagatal Landsbankans fyrir árið 2009 skartar myndum af íslenskri náttúru eftir ljósmyndarann Pál Stefánsson. Náttúra Íslands myndar umgjörð um daglegt líf okkar. Hún er hvort tveggja í senn, stórbrotinn heimur þar sem náttúruöflin minna oft rækilega á sig og fínleg, viðkvæm veröld sem bregður upp hverfulum myndum. Landið ögrar okkur á stundum en við sækjum líka til þess innblástur og hvatningu. Myndir Páls minna okkur á hver hrífandi íslensk náttúra er. Samspil litanna er töfrandi, drættirnir kröftugir og blæbrigðin hárfín.
Við vonum að dagatalið komi sér vel.
Bestu kveðjur, starfsfólk Landsbankans"
Athugasemdir
Sæll gamli vinur,
Fínir pistlar hjá þér. Beittir og kröftugir, eins og spilamennska þín með Gróttunni var einnatt hér um árið.
Kv.
RB
Skagarósin (IP-tala skráð) 22.12.2008 kl. 22:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.