10.12.2008 | 10:37
Komin til Íslands og myndband
Þá erum við mætt til Íslands ... komum reyndar fyrir tæpri viku, en samkvæmt óformlegum athugunum mínum þá tekur það mann um eina viku að komast í gírinn eftir að hafa þvælst um yfir hálfan hnöttinn ...
Dóttirin er reyndar enn í einhverju öðru tímabelti, þar sem hún kýs helst að vakna upp úr klukkan hálffjögur á nóttunni, nema ef hún ákveður að sofa út til klukkan fimm.
Annars er hún alveg fjallhress og búin að jafna sig fullkomlega eftir hitaskotið í Hong Kong, sem varð til að kyrrsetja hana þar í nokkra daga, eins og áður hefur komið fram.
Næsta sunnudag, þann 14. desember, verður henni veitt innganga í kirkju Krists með formlegum hætti, þegar Sr. Bjarni mun koma í heimsókn á Bergstaðastrætið og ausa hana vígðu vatni.
Það er nú samt ekki laust við að maður leiði hugann að því hvort þetta sé rétt ákvörðun, sérstaklega ef litið er til baráttu Helga Hóseassonar síðastliðna áratugi. Sé horft til þeirrar baráttu má glögglega sjá að afskírn er ekkert einfalt mál ...
Sjálfur var ég ekki skírður fyrr en daginn fyrir fermingu mína, eða þann 19. apríl 1987. Það var föður mínum heitnum mikið hjartansmál að ég fengi að ákveða trú mína sjálfur, en að eigin sögn hafði hann verið "neyddur" sem barn, líkt og Helgi Hóseasson, inn í kirkju Krists.
Ömmu minni heitinni fannst þó þessi réttindabarátta föður míns alveg út í hött og alla mína barnæsku hvatti hún mig eindregið að láta skíra mig, á milli þess sem hún lét þau orð falla að "mikið lifandis skelfing væri nú leiðinlegt að ég skyldi ekki vera skírður í nafni Guðs föðurs, sonar og heilags anda".
Það er engum blöðum um það að fletta að ég skil sjónarmið beggja ákaflega vel og sannarlega finnst mér ekkert sjálfgefið að börn séu skírð, þó svo við skötuhjónin höfum tekið þessa ákvörðun fyrir hönd dótturinnar ...
... við verðum þá bara að svara fyrir það síðar ... axla ábyrgð!!
En nóg um þetta ... hér er myndband ... það síðasta frá Sydney í bili að minnsta kosti ... dóttirin og ævintýri hennar í aðalhlutverki, eins og svo oft áður ... njótið vel ...
Athugasemdir
Hún er alveg yndisleg þessi dama! Ég rakst aðeins á hana og Laugu á Laugarveginum á miðvikudaginn, það hefði nú ekki verið leiðinlegt að rekast á þig líka...ár og dagar síðan ég sá þig síðast!
Helga S (IP-tala skráð) 13.12.2008 kl. 00:33
Já, ég frétti af þessum hittingi ... hefði verið mjög til í að vera með í honum!! :D
Páll Jakob Líndal, 13.12.2008 kl. 18:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.