15.11.2008 | 23:39
Pökkun hafin
Í dag hófst pökkun ... já, nú skal Ástralía yfirgefin eftir nokkra daga. Og það er rosalega skrýtið!
Ég man það eins og það hefði gerst í gær, þegar við Lauga vorum að undirbúa Ástralíuveruna í upphafi síðasta árs. Mér fannst eins og við myndum varla koma aftur til Íslands ...
... en upphaflega planið hljóðaði upp á þriggja ára útlegð!
En nú hafa forsendur breyst ... og satt að segja finnst mér ágætt á margan hátt að kveðja Sydney nú. Þar ræður mestu að þessi blessaði skóli stendur engan veginn undir nafni, sem einn af 50 eða 30 eða "hvað það nú er" bestu skólum heims. Allavegana ekki arkitektadeild skólans ...
Það nýjasta í þeim málum er að nýi leiðbeinandinn minn forðast það í lengstu lög að ræða nokkurn skapan hlut við mig. Af hverju það gerðist, hef ég enga hugmynd um, því okkar síðasti fundur var á mjög léttum og skemmtilegum nótum, en þá sýndi ég honum sýndarveruleikann sem ég var búinn að búa til og hann varð alveg heillaður.
Hann sagði að ég væri að gera frábæra hluti, sagðist endilega vilja nota sér þessa vinnu mína og var hinn lukkulegasti. "Svo hittumst við aftur á morgun og ræðum málin", sagði hann þegar við kvöddumst ...
Síðan þá eru liðnar næstum 4 vikur og hefur hann ekki svarað einum einasta tölvupósti sem ég hef sent honum. Og ég er alveg hættur að nenna að spá í hvað snýr upp eða niður á honum ...
Það má því kannski segja að ég hafi farið úr öskunni í eldinn, þegar ég sagði skilið við prófessor Gary Moore í ágúst og skipti yfir í þennan.
Og þó ... það sem er allavegana gott við nýja leiðbeinandann er að hann er þá bara ekkert að skipta sér að því sem ég er að gera, ólíkt prófessor Moore, sem gerði lítið annað en að tefja framgang minn og beina mér endalaust í aðrar áttir en ég hafði áhuga á að fara ...
Ég bind þó talsverðar vonir við Terry Hartig, sem verður leiðbeinandi minn í Svíþjóð. Þetta er heimsþekktur gaur innan umhverfissálfræðinnar og hafa mín viðskipti við hann verið góð, allt til þessa.
Alltént, það sem ég segja vildi í þessu bloggi ... pökkun er hafin, ef litið á aðstæður út frá "skólamálum" er ég meira en sáttur við að fara frá Sydney, en sé horft frá sjónarhorni annarra mála, svo sem hvað snertir vini og bara það að vera hér í Ástralíu, er alveg ljóst að maður á eftir að sakna margs!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.