18.10.2008 | 02:39
Afmæli og pælingar
Þá er nú komin helgi ... og við blasir að skella sér á Manly-ströndina í Norður-Sydney í afmæli til Steve, grill og eitthvað fleira. Raunar hafði Steve skipulagt mun viðameiri dagskrá í tilfefni þess að hann varð þrítugur á miðvikudaginn. Það var kajak-sigling og fjör austur í Penrith ...
... því miður sáum við Lauga okkur ekki fært að mæta í þá gleði, af tveimur ástæðum ...
1. Dóttirin er helst til ung að standa í því volki sem kajaksiglingar geta haft í för með sér.
2. Fjárhagsstaðan nú um stundir leyfir ekki slíka skemmtun, og kom í veg fyrir að annað okkar gæti tekið þátt í gleðinni. Súrt ... en svona er þetta nú bara ...
Annars er gott að vita að niðurstaða er að fást í þessi blessuðu sjóðamál bankanna. Ekki það að mér finnist niðurstaðan í augnablikinu vera eitthvað frábær. En þó finnst mér betra að vita að það stendur til að láta sparifjáreigendur fá eitthvað til baka af innstæðum sínum, þó það sé algjörlega á huldu hversu háar upphæðir verði endurgreiddar.
Ég reikna með að fá hámark um 25% til baka í fyrstu lotu, það er þegar lausaféi bankanna verður deilt niður. Kannski er þessi tala mín tóm della ... ég hef ekki hugmynd um það. Auðvitað geta þetta aldrei orðið annað en getgátur, en ég byggi hugmynd mína á tilkynningu Landsbankans eða Landsvaka frá í gær, um að 30.000.000.000 kr. væru í peningamarkaðssjóðunum núna. Mogginn sagði hins vegar að þar væru 0 kr.!!
---Það er mjög athyglisvert að sjá hvernig Lauga tekur á málunum, þessa dagana ... hún lifir svo sannarlega eftir hugmyndum William Clement Stone, þeim sama og var haldinn "andhverfuofsóknarbrjálæðinu". Henni finnst þessir tímar spennandi, og segir það mjög merkilegt að fá að upplifa það að tapa margra ára sparnaði og sitja slipp og snauð eftir, það er að segja ef horft er á veraldlega hluti.
"Jákvæðni er ekkert merkileg fyrr en á móti blæs" segir hún þegar ég er að kvarta yfir ástandinu. "Ég hef ákveðið að taka ekki þátt í þessari kreppu ... þó svo spariféð hafi gufað upp."
Það er nákvæmlega rétt ...
"Þetta er hugsunarháttur sigurvegarans" ... en Lauga en snögg til svara "Nei, þetta er hugsunarháttur Sigurlaugar!!" ...
Hér í Bourke Street er gráðugum útrásarmönnum og mistækum stjórnmálamönnum fyrirgefið ... ekki þeirra vegna heldur okkar sjálfra vegna ...
... uppbyggingarferlið er hafið ...
Við erum farin í afmæli til Steve!!
Athugasemdir
Hæ hæ! Rétt renndi í gegnum síðustu færslur og myndir. Greinilegt að þið hafið það gott og gaman í Sidney. Litla snúllan er náttúrulega alger DÚLLA. Ég fékk mér gönguferð með stelpurnar og litla prins í leikskólann núna í hádeginu. Hér er vetrarveður...skítakuldi og smá snjókoma. Velkominn vetur :-) Rosalega gaman að sjá myndir af litlu dömunni. Bestu kveðjur héðan af Frónu, Eyja.
Eyja (IP-tala skráð) 20.10.2008 kl. 13:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.