15.9.2008 | 00:00
Dagbók Guðrúnar
Dóttirin er frekar "irriteruð" þessa dagana, og messar duglega yfir gestum og gangandi. Félagarnir fjórir sem hanga í óróanum eru til dæmis skammaðir dægrin löng og vinirnir þrír sem eru hluti af skrifstofustól dömunnar fá líka að kenna á því.
Það besta í þessu er að pirringurinn virtist byrja um svipað leyti og frökenin fór að "fatta" hendurnar á sér. Þegar hún fór að skilja að augun, munnurinn og hendurnar voru allt hlutar af henni sjálfri. Það sem helst fer í taugarnar á þeirri stuttu er að geta ekki samræmt vilja sinn og athafnir, þannig að hendur geri það sem hana langar til, það er að taka hluti, færa þá upp að munninum svo hægt sé að sleikja þá af mikilli áfergju.
Stundum heppnast það, iðulega þó í mjög stuttan tíma í senn og svekkelsið verður gríðarlegt þegar allt fer svo í vitleysu. Þá er hluturinn sem var verið að sleikja er allt í einu staddur víðsfjarri munninum, fastur í litlum hægri eða vinstri lófa sem neitar að hlýða.
Hérna er dæmi um þegar samræming vilja og athafna virðist vera að ganga upp ... einbeitingin gríðarleg!!
Önnur mynd af góðri samræmingu ...
Hér er samræmingin hinsvegar ekki alveg jafngóð, Úrið alltaf í óþægilegri fjarlægð frá munninum ... pirringur braust út stuttu eftir myndatöku!!
Önnur mynd af slæmu samræmi ... kastið var tekið, stuttu eftir myndatöku ...
Svo er einnig gaman að sjá hvernig sú smáa er farin að "spenna" greipar í tíma og ótíma. Hún situr oft í mjög svo fræðimannslegum stellingum þar sem hendurnar hvíla á bringunni. Oftar en ekki hverfur þó fræðimannsbragurinn eins og dögg fyrir sólu þegar höndunum er troðið upp í ginið og þær sognar og sleiktar eins og morgundagurinn sé enginn.
Í fræðimannsstellingum ...
Snuðið virðist hafa hrapað hratt niður vinsældarlistann. Fyrir fáeinum dögum skein sólin vart ef snuðið var ekki innan seilingar, en nú er öldin önnur ... ungfrúin verður að því er virðist sármóðguð ef henni er boðið upp á snuð, ygglir sig og brettir. Takist að koma snuðinu upp í hana, skyrpir hún því umsvifalaust út úr sér, helst niður á gólf.
Þá á enn eftir að nefna nýjasta æðið, sem virðist vera að kollkeyra allt sem áður hefur gerst í hinu rúmlega 3ja mánaða lífi dömunnar. Það er fá að sitja upprétt. Eftir að montmyndir voru birtar af henni af 3ja mánaða afmælisdaginn fyrir um rúmri viku, hefur hún krafist þess að fá að sitja upprétt í tíma og ótíma. Málið er bara að hún getur það ekki ein og óstudd, en henni er alveg sama ... finnst ekkert nema sjálfsagt að hafa manninn með sér við þá iðju, einhvern sem getur haldið við hana og stutt svo hún rúlli ekki út til hliðar eða detti fram fyrir sig.
(Því miður hefur farist fyrir að taka myndir af þessu nýjasta uppátæki en slíkar myndir munu koma við fyrsta tækifæri.)
Svo mikið vill hún fá að sitja upprétt, að foreldrum hennar lýst nú ekki alltaf á blikuna, mögulega gæti öll þessi seta verið óholl fyrir aðeins 3ja mánaða gamla hryggjarsúlu ... nú einfaldlega brestur þekkinguna.
En er ekki sagt að börn beri sig alltaf rétt að, það er að segja eins og náttúran "vill" að mannskepnan beri sig að? Þau anda rétt, þau beygja sig rétt og svo framvegis ... ef svo er þá hlýtur þessi seta að vera í lagi ... þetta er jú vilji dótturinnar, eins og glögglega ætti að hafa komið fram hér að ofan.
Að lokum ... tvær kvartanir hafa borist síðunni ...
1. "Stúlkan brosir aldrei á myndunum" ... hér að neðan er bætt úr því ...
2. "Engar myndir af þeim mæðgum saman á mynd, en fullt af myndum af ykkur feðginum" ... ósanngjörn athugasemd að mati síðuhaldara, þar sem hann telur sig bara býsna gott myndefni og ætti það að duga þeim sem síðuna sækja. En ok ... hér er einn af þeim mæðgum ...
Athugasemdir
Guðrún Helga hvað?! kóalabjörn pálsdóttir líndal og hananú! en krúttleg er hún.
Stefán JR (IP-tala skráð) 16.9.2008 kl. 04:36
Ah... hendurnar góðu. Hún og Bjarni Jóhann gætu örugglega rætt þetta vandamál löngum stundum Hún dafnar geinilega vel hjá ykkur - algjör snúlla! Get varla beðið eftir að fá að knúsa hana hressilega í des!
Þangað til fær hún bara knúskveðjur frá okkur mæðginunum - og mamma og pabbi líka.
Helga Guðrún (IP-tala skráð) 16.9.2008 kl. 13:27
æh hvað þið eruð dásamlegar :*
knús frá steinu
steina vala (IP-tala skráð) 16.9.2008 kl. 17:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.