6.9.2008 | 23:45
Ræðulist
Á fimmtudaginn og föstudaginn tók ég þátt í mjög skemmtilegu og krefjandi námskeiði, sem bar heitið "High Impact Presentations" og er haldið á vegum Dale Carnegie hér í Sydney.
Námskeiðið, eins og enska heitið gefur til kynna, var ræðunámskeið, en ræðulist er eitthvað sem hefur alltaf heillað mig. Hver kann ekki að meta góðar og velfluttar ræður?
Þegar kemur að því að matreiða upplýsingar ofan í fólk eða sannfæra það um af hverju þetta sé betra en hitt, er mjög mikilvægt að kunna einhverjar aðferðir sem prófaðar og aðlagaðar hafa verið áratugum saman. Það eru nefnilega 96 ár síðan Dale Carnegie hélt sitt fyrsta ræðunámskeið og síðan þá hafa námskeiðin verið í stöðugri þróun.
Fyrirkomulagið er þannig að hver þátttakandi heldur 7 ræður blaðalaust á tveimur dögum og til að geta sem best áttað sig á styrkleikum og veikleikum sínum er þær allar teknar upp á video. Eftir hverja ræðu er farið afsíðis og horft á flutninginn ásamt þjálfara, reynt að rýna í hvað er gott og hvað mætti bæta.
Fyrir mig var þetta námskeið tími uppgötvana, því margt af því sem ég hélt að væru veikleikar mínir reyndust vera styrkleikar. Sem dæmi hélt ég að ég iðaði of mikið þegar ég héldi ræðu, væri of ákafur og talaði of hratt. Ekkert af þessu reyndist vera vandamál. Raunar sögðu báðir þjálfararnir að þetta væru styrkleikar mínir. Það sem ég sá aftur á móti á videoinu var að ég má bæta í litróf raddarinnar meðan ég tala og nota brosið meira. Þeir hlutir hélt ég fyrirfram að væru í pottþéttu lagi ...
Það var samdóma álit allra sem voru á námskeiðinu að þeim fannst þeir betri ræðumenn en þeir áttu von á. Videoið sýndi svart á hvítu að menn voru ekki eins asnalegir, slappir og hallærislegir, og þeir héldu.
Svo virðist nefnilega vera að upplifun okkar á eigin ræðum, er algjörlega allt önnur en þeirra sem hlusta. Ef maður er maður sjálfur, talar hæfilega hratt og skýrt, og spilar sig öruggan, þá kemur maður nær undantekningarlaust vel út sem ræðumaður og fólki líður vel að hlusta.
Hinsvegar er talsvert mikið erfiðara að vera góður ræðumaður, ræðumaður sem lætur viðfangsefnið lifna við og er dálítið skemmtilegur, án þess þó að reyta af sér brandara í tíma og ótíma.
Það var góður punktur hjá þjálfaranum þegar hann fór yfir hvernig færni fólks þroskast. Það eru þrjú stig sem þarf að komast í gegnum áður en hægt er að ná fjórða og efsta stiginu. Stigin eru eftirfarandi:
1. Unconscious imcompetence: Maður getur ekki gert hlutina og veit ekki af því.
2. Conscious imcompetence: Maður getur ekki gert hlutina og maður áttar sig á vanmætti sínum gagnvart viðfangsefninu.
3. Conscious competence: Maður getur gert hlutina og veit að ef maður passar sig að gera allt rétt þá verður allt í lagi.
4. Unconscious competence: Maður getur gert hlutina og gerir þá meira og minna óaðvitandi.
Mér finnst forvitnilegt að setja þetta í samhengi við sönginn, sem ég stundaði af miklum móð fyrir nokkrum árum.
Fyrsta stigið var þannig að ég mætti í fyrsta söngtímann og hélt að ég væri rosalega góður, af því einhver hafði sagt: "Mikið hefur þú kraftmikla rödd". Ég með öðrum orðum vissi ekki að ég kynni ekkert. Þetta stig er oft mjög varasamt ...
Annað stigið rann mjög fljótlega upp fyrir mér. Ég áttaði mig á því að ég kynni ekkert að syngja.
Upp á þriðja stig komst ég nú varla og þó, kannski í algjörum undantekningar tilfellum, þá kannski tókst að gera allt rétt og það sem maður gerði var í lagi.
Fjórða stigið hef ég aldrei séð ... því miður!
Jæja, nóg af kjaftæði um þetta ...
Til staðfestingar á því að ég fór á námskeiðið ... !!!
Dóttirin hefur það bara skínandi gott þessa dagana, að minnsta kosti ef marka má atferli hennar. Annars lærði ég það í sálfræðinni að það getur verið varasamt að nota samanburðarfræði til að geta sér til um ástæður hegðunar.
Til dæmis ... ef köttur kemur að lokuðum dyrum og tekur við að reyna að stökkva upp á hurðarhúninn, myndu flestir telja að hann væri að reyna að opna dyrnar ... en hvernig getum við verið 100% viss um það?? Kötturinn getur ekki talað og þó hann gæti það, er þá víst að hann myndi segja satt???
Ok, ... allavegana tel ég að dótturinni líði vel, framfarirnar eru ógurlegar þessa dagana, þar sem hún brosir margfalt það sem hún brosti fyrir nokkrum dögum. Hún er líka að verða mun pattaralegri en áður og andlitið er orðið býsna kringuleitt.
Svo verður náttúrulega að geta þess að henni barst stór og mikill pakki frá móðursysturinni og frændum í Grundarfirði. Glæsilegur vetrargalli, sem henni verður smellt í þegar komið verður heim til Íslands í desember. Einnig var frábær bangsi í pakkanum, sem hægt er festa á úlnliðinn eins og úr og hefur hann frá sér hljóð þegar hann er hristur ... hefur bangsinn hlotið hið frumlega nafn "Úrið".
Þá er ótalinn fiskurinn "Medel", sem var keyptur í gær. Medel er fiskur fullur af vatni og ætlast er til að fröken Sydney nagi hann, þegar áhugi er á slíku. Það var ótrúlegt að sjá hversu gríðarlega athygli Medel fékk hjá frökeninni, augun ætluðu bókstaflega út úr hausnum!
Sydney og Medel
Að lokum má nefna að Guðrún Helga Sydney Houdini, er að daðra við það sem vel mætti kalla hámark viðkvæmninnar.
Má ekki vel segja að hámark viðkvæmninnar sé að gefa frá sér hljóð, helst hátt og snjallt og krossbregða svo við allan hávaðann??
Hér eru nokkrar fleiri myndir ... lesendur hafa víst beðið óþreyjufullir eftir slíku, er marka má tölvupóst sem borist hefur hingað til Sydney.
Hendur og fætur eru að uppgötvast þessa dagana ...
Lifi byltingin ... eða eitthvað?!?
Fröken Guðrún á leið út í göngutúr ...
Fremur lítil stemmning í gangi ...
Í göngutúr ...
Mikil þreyta eftir göngutúr!
Mikil spenna í "geimstöðinni"!!!
... en á meðan sat móðirin og las bók frammi í eldhúsi ...
Eftir vinnuna í "geimstöðinni", var haldið niður á "skrifstofu", þar sem frökenin lagði sig!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.