Meiri markmið

Héðan frá Sydney er allt gott að frétta ... engin haustlægð hefur verið að gera okkur lífið leitt, með ausandi rigningu og roki.  Það er kannski ekki skrýtið þar sem á suðurhveli er að vora um þetta leyti árs.  September á suðurhveli er sambærilegur við mars á norðurhveli. 

Til dæmis er í dag alveg frábært veður ... það er logn, um 20°C hiti og skýjað ... meiriháttar!!

Hér hefur allt gengið nokkurn veginn samkvæmt áætlun og allir á kafi að sinna alls kyns verkefnum. 

Við Lauga, erum enn á fullu að vinna að markmiðssetningu.  Við skrifum á hverjum morgni niður 10 markmið, stór eða smá, sem okkur langar til að ná í framtíðinni.  Við skrifum þau án þess að rifja upp markmið dagsins áður.  Þetta ætlum við að gera í 30 daga og ef allt gengur að óskum ættu sömu markmiðin að koma upp aftur og aftur síðustu dagana og samkvæmt öllum "reglum" ættu þau markmið þá að vera hin raunverulegu markmið okkar.

Ennfremur erum við bæði að vinna í því að skrifa niður meira en 100 markmið sem okkur langar til að stefna að í lífinu.
Þetta er alveg ótrúlega skemmtilegt ... halla sér aftur í sófanum og hugsa um allt það sem mann langar til að gera.  Þegar öll þessi markmið verða komin niður, þá hefst vinnan ...

... og vinnan felst til að byrja með á því að spyrja spurningarinnar: "HVERNIG fer ég að því að ná þessum markmiðum mínum?"  Athugaðu lesandi góður ... hér er spurt: "HVERNIG?", ekki "hvort?"!!!

En með því að spyrja sig "HVERNIG" á að gera hlutina, setur maður sig í þá stöðu að þurfa raunverulega að gera eitthvað ... en einmitt það fælir flesta frá því að setja sér markmið ...

... hversu einkennilegt er það?

En ég er kominn á þá skoðun að ég mun aldrei ná fullkomnu jafnvægi í lífi mínu nema ég vinni að markmiðum mínum og skori sjálfan mig á hólm.  Ef ég geri það ekki mun alltaf (eðlilega?!?) vera misræmi milli hugsana minna og athafna. 
Til dæmis ef mig langar til að fara til Afríku í safarí, þá mun ekki duga mér að skreppa á Hellu og fá mér hamborgara ... það er nokkuð ljóst ...

Það er heldur ekki heillavænlegt fyrir mig að reyna að telja mér sjálfum trú um, án þess að athuga málið í þaula, að það sé ekki hægt að fara til Afríku í safarí.  Afsakanir eins og "ég á ekki pening", "ég hef ekki tíma" eða "það er bara hættulegt að fara í safarí", kalla bara á innri átök, því þær eru ekki sannleikurinn.  Sannleikurinn er að mig langar til Afríku í safarí.
Það reyna að drekkja þeim sannleika, er sambærilegt við að reyna að sökkva flotholti ... það er sama hvað reynt er, flotholtið mun alltaf leita upp á yfirborðið.  Því mun hugsunin eða löngunin fyrr eða síðar dúkka upp í kollinum á mér ... sannleikurinn mun sigra að lokum.

Við Lauga höfum tekið ákvörðun ... við ætlum ekki að standa uppi 85 ára, að því gefnu að við náum þeim aldri, og hugsa um allt sem við hefðum getað gert, og allt það sem gaman hefði verið að gera.

Við ætlum þess í stað að átta okkur á því hvað við raunverulega viljum, finna út úr því HVERNIG við náum því, og leggja svo á okkur vinnu til að uppfylla langanir okkar ...

... það er nefnilega svo skrýtið að við hörmum yfirleitt ekki það sem við höfum gert, heldur frekar það sem við höfum ekki gert.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband