17.8.2008 | 23:49
Í Moss Vale
Um helgina var heldur betur brugðið undir sig betri fætinum, því í fyrsta skipti frá því við komum til baka frá Íslandi, það er um miðjan febrúar, fórum við út úr bænum.
Það sem gerðist var að Nick og Rosa buðu til veislu á "óðalssetri" móður Nicks, sem er í Moss Vale, rúmlega 130 km frá miðborg Sydney.
Allt var í þeirra boði, gisting, matur, drykkir og skemmtun ...
Og í stuttu máli var þessi ferð frábær ...
Húsið var alveg æðislegt, rúmgott, gamalt og glæsilegt með ekki minna en 7 rúmgóðum herbergjum og arinn í nánast hverju herbergi. Til dæmis fengum við Lauga svo stór svefnherbergi, að bara það var örugglega stærra heldur en öll íbúðin okkar í Bourke Street og svo þegar farið var að sofa voru hlerar settir fyrir gluggana ... klárlega í fyrsta skipti sem ég sé svona gluggahlera notaða af einhverri alvöru.
Mamma Nicks, Favne, hefur í mörg ár verið að dunda sér við að lagfæra húsið og lofa framkvæmdirnar mjög góðu og að sjálfsögðu var hún á staðnum líka.
Stór lóð var umhverfis húsið og á henni mátti hitta fyrir asnann "Íó" og hestinn "Stumpfy", sem njóta félagsskapar hvors annars í girðingu skammt frá húsinu.
Þar var einnig hundurinn "Missy", fjórar mjög svo gæfar hænur og tveir kettir, sem ég man ekki hvað heita.
Hænsnakofinn í garðinum í fallegri síðdegisbirtu
Íó og Stumpfy
Við Lauga mættum ásamt Nick og Rosu fyrripart laugardagsins, og nutum herlegheitanna, borðuðum gómsæta kjötsúpu og vorum kynnt fyrir "heimafólki".
Þegar degi tók að halla, var farið að undirbúa bálköst, sem kveikja átti í, síðar um kvöldið undir fullu tungli og að því verki loknu, tóku fleiri gestir að renna í hlað.
Neil, Fjóla og James mættu á blæjubjöllu þess síðastnefnda og Damian og konan hans, sem ég man ekki hvað heitir heiðruðu samkvæmið með nærveru sinni.
Og skömmu áður en kveikt var upp, komu systir Rosu, Jessica og maðurinn hennar, en svo skemmtilega vill til að þau eiga einmitt heima skammt frá Moss Vale.
Ég hef ekki verið viðstaddur svona óopinbera brennu í mörg herrans ár eða síðan brenndar voru nokkrar trjágreinar á Grjóteyri fyrir um 7 eða 8 árum minnir mig. Bálið í Moss Vale var því kærkomið, enda alltaf alveg ótrúlega gaman og notalegt að horfa á svona "bonfire".
Svo var borðað og drukkið og hlegið og spjallað fram eftir kvöldi og eitthvað inn í nóttina, en það verður að segjast eins og er að sumir gestanna urðu hreinlega uppgefnir af því að draga að sér svo mikið ferskt loft á svo stuttum tíma, og skriðu þeir því inn í rúm nokkuð snemma.
Sunnudagsmorguninn var alveg æðislegur. Að vakna í þögninni, fara út kalt en frískt morgunloftið, sjá hélaðar rúðurnar í bílunum glitra í sólarupprásinni og taka hlerana frá gluggunum, koma inn aftur hitta Favne og þiggja tebolla, rölta inn í herbergi aftur til að spjalla við mæðgurnar var meiriháttar.
Boðið var upp á egg og beikon, ristað brauð, sultu, te og djús í morgunmat, sem borin var fram undir heiðum morgunhiminum.
Mér fannst vera svona páskastemmning í Moss Vale þennan morguninn. Gott veður, lauflaus tré, sinugult gras, pínusvalt morgunloft og útsprungnar páskaliljur, er eitthvað sem minnir mig mjög á páska og á að það er vor í loft hér í Ástralíu.
Eftir morgunmatinn fóru fyrstu gestirnir að tygja sig til heimferðar, en aðrir nutu áfram verunnar á þessum frábæra stað fram eftir degi.
Athugasemdir
Vá... hljómar æðislega! Eggin eru ekkert smá girnileg, rauðan er eitthvað svo fallega rauð! Þetta hefur örugglega verið ekkert smá gaman hjá ykkur.
Helga Guðrún (IP-tala skráð) 18.8.2008 kl. 15:19
Góð ferðasaga og greinilega góð helgi í alla staði svooo gaman hjá ykkur allt fer þetta svo í minningabankann góða sem stækkar bara og stækkar
Sigrún Steingríms (IP-tala skráð) 18.8.2008 kl. 23:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.