Ýmislegt

Hún er kölluð Gunna og er dóttir okkar.  "Léttfætt" lipurtá með ginið opið allan daginn og heimtar stöðugt áfyllingu.  Já, hún Guðrún sísvanga vex eins og gorkúla þessa dagana ... ekki það að hún hefur svo sem verið að vaxa af töluverðu "afli" síðan hún kom í þennan heim aðeins 45,5 cm að lengd.

Samkvæmt síðustu mælingu, sem fór fram á mánudaginn er barnið nú 57 cm, og hefur því vaxið um 11,5 cm á 9 vikum.  Ef heldur áfram sem horfir, verður stúlkan búin að ná 180 cm í júní 2010, svona um það leyti sem hún verður 2ja ára ... það er að segja ef útreikningar mínir eru réttir, sem er náttúrulega alls ekkert víst.
En sé þetta rétt, verður Gunna sí talsvert hærri en Robert Wadlow, hæsti maður sem mælst hefur frá því mælingar hófust.  Robbi Wa, eins og hann var gjarnan kallaður reyndist ekki nema 140 cm, þegar hann var fjögurra ára, og náði ekki 180 cm fyrr en um 7 ára aldur.
22ja ára, skömmu fyrir andlát sitt, var hann orðinn 272 cm hæð, sem verður að teljast talsverð líkamshæð.  Ég man vel eftir myndinni af Robba Wa í Heimsmetabók Guinness, útgáfunni frá 1980 eða 1981 sem ég las spjaldana á milli á námsárum mínum í Austurbæjarskóla.  Það var útgáfan þar sem stór mynd af Skúla Óskarssyni var á fyrstu blaðsíðu, enda maðurinn nýbúinn að setja heimsmet í réttstöðulyftu.  Talsvert afrek það ... !!!

Það er þó rétt að taka það fram að undirrituðum er það ALLS EKKERT metnaðarmál, og raunar er hann harðlega andsnúinn þeim hugmyndum að fröken Gunna sí fari í einhverja vaxtarkeppni við Robba Wa og kraftakeppni við Skúla Óskarsson.

Annars er feikilega gaman að segja frá því, úr því Skúla Óskarsson ber á góma, að hér í Bourke Street eru teknir margir "Skúlar Óskarssynir" á hverjum degi.
Af einhverjum ástæðum sem ekki er svo gott að átta sig á, hefur sú æfing að láta barnið setjast upp úr liggjandi stöðu fengið heitið "Skúli Óskarsson".  Ef Gunna sí vill bæta um betur eftir að sitjandi stöðu hefur verið náð, og krefst þess að fá aðstoð til að standa upp, þá kallast það "Skóli Óskarsson standandi".

En nóg um þetta ...

Síðustu dagar hafa liðið svo hratt að mér finnst eins og ég hangi í þotuhreyfli sem er í noktun.  Maður æðir bara áfram, þó ekki stjórnlaust, með vindinn í andlitið.
Rannsóknin mín hefur verið að taka breytingum, þar sem ég hef verið að kynna mér önnur forrit til að búa til sýndarveruleikann minn ... ég man ekki hvort ég var búinn að nefna þetta fyrr hér á síðunni ... en hvað um það, sagan er svo skemmtileg að það er allt í lagi að segja hana aftur.

Ég er að taka í þjónustu mína forritið Google SketchUp, sem hægt er að fá ókeypis á netinu ef áhugi er fyrir slíku.  Í Google SketchUp er hægt er draga upp myndir af öllum mögulegu, með tiltölulega einföldum hætti, en áhrifaríkum.
Ennfremur er ég að kynna mér mikið og stórt forrit sem heitir því höfðinglega nafni 3Ds Max og er geysiöflugt þrívíddarforrit.  Margar velþekktar teiknimyndir hafa verið búnar til í þessu forriti og ég held að ég ljúgi ekki miklu ef ég segi að Toy Story hafi að talsverðu leyti verið búin til í þessu forriti.  Í dag skrapp ég út á bókasafn og náði mér í kennslubók í 3Ds Max, samtals 1230 bls, auk geisladisks!!
Aðrir möguleikar eru einnig fyrir hendi, eins og Virtools og Stradacafé.

Með öðrum orðum, PJL er að verða eitthvert "bloddí" tölvunörd ... !!!

Á fimmtudagskvöldið fór ég á fyrirlestur, sem fjallaði um Council House 2 eða CH2 í Melbourne.  Í Melbourne hafa yfirvöld sett metnaðarfulla vinnu í gang, sem miðar að því að draga úr losun gróðurhúsaloftegunda og er endurhönnun og lagfæringar á húsum í miðborginni einn af þeim þáttum sem litið er til.
CH2 er opinber bygging sem hönnuð var með umhverfissjónarmið og sjálfbærni í huga.  Þannig er byggingin ekki einungis sparineytin á vatn og orku, heldur var lagt upp með að hafa vinnuskilyrði, þannig að þau ýttu undir vellíðan og ykju afköst, sem er eitthvað sem kalla mætti "sálfræðilega sjálfbærni".  Klárlega eru hugmyndir og hönnun sem þessi, framtíðin.
Þetta var mjög merkilegt að sjá og gaman að það skuli einhvers staðar finnast yfirvöld sem eru til í svona "prójekt" ...

Og að lokum er rétt að nefna það að við Lauga erum búin að kaupa okkur ferð til Cairns, sem er borg í norðurhluta Ástralíu.  Tilgangur ferðarinnar er að fara út á hið geysimagnaða Great Barrier Reef, stærsta kóralrif veraldar og er talið eitt af náttúruundrum veraldar.  Það verður vafalaust geysilega gaman að fara þangað!

Nóg í bili og engar myndir að þessu sinni ...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Engar myndir?? Bobbi minn; minna mas, meiri myndir! Það er naumast að sú stutta lengist hjá ykkur, það er greinilega ágætis nyt í kúnni á heimilinu, ég segi nú ekki annað! Baulandi fjósakveðjur frá bejunni á klakanum.

Helga Guðrún (IP-tala skráð) 17.8.2008 kl. 14:36

2 identicon

gangi þér vel bobbi með sýndarveruleikann og forritin þú ert á réttri leið. Dáist að eljuseminni og dugnaðinum

Sigrún Steingríms (IP-tala skráð) 18.8.2008 kl. 23:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband