Úti á lífinu!!

Áfram höldum við hjónaleysin vinnu okkar við að kynna barnunganum það sem er handan stofuveggjanna hér í Bourke Street.
Þessa helgina fékk Guðrún Helga Sydney Houdini nokkuð stóran skammt af "stöffi" sem hún getur melt frameftir vikunni.

Í gærkvöldi fór hún til dæmis í fyrsta skipti út að borða ... því við hittum Fjólu, Neil og Saritu á indverska staðnum sem er eiginlega alveg við þröskuldinn hjá okkur.  Bara að fara yfir götuna, nokkur skref, beygja fyrir hornið og þá er maður kominn.
Alveg fantagóður matur ... ég held að við höfum bara öll fengið okkur eitthvað sem ber heitið "Thali", og er eitthvað gums sem bragðast bara fjári vel.

 IMG_7786 by you.
Þarna eru allir á indverska staðnum ...

IMG_7785 by you.
Sarita og Sydney

Í dag var stefnan í fyrstu sett á Centennial Park, sem er geysimikill garður í nágrenni við okkur.  Sambærilegt við indverska staðinn, þarf maður bara að ganga nokkur skref, beygja svo, ganga aðeins lengra, fara yfir götu og svo aðeins lengra og aftur yfir götu og þá er maður kominn ... ekki slæmt það.
En við hættum við þetta plan og ákváðum frekar að sigla til Parramatta, sem er í vesturhluta borgarinnar og tekur um eina klukkustund að sigla þangað frá Circular Quay.  Þess má geta fyrir fróðleiksfúsa lesendur að Parramatta var sá staður sem bjargaði Englendingum þegar þeir fyrst komu í Sydney árið 1788.
Þegar Arthur Philip fyrsti landstjóri Ástralíu og hans fylgdarlið hafði áttað sig á því eftir tiltölulega stutta veru, að ófrjór jarðvegur og skortur á fersku vatni yrði sennilega hinni nýstofunuðu fanganýlendu að aldurtila, var ákveðið að sigla vestur eftir Sydney höfninni (eða Port Jackson, eins og hún heitir reyndar) og upp eftir Parramatta-ánni sem rennur í höfnina vestanverða.  Og þeim og væntanlega áströlsku þjóðinni allri, til happs fundu þeir ferskvatn og frjóan jarðveg í Parramatta.  Þannig var það nú ...

Við ætluðum sumsé að fara til Parramatta, en þegar við vorum að labba niður á Circular Quay byrjaði að rigna ... sem var náttúrulega alveg æðislegt!!
Inni á thailenskum veitingastað, var plan B dregið upp ...

IMG_7788 by you.
Á thailenska veitingastaðnum

Plan B hljóðaði upp á að fara á Museum of Contemporary Art (MCA), sem einmitt er við títtnefndan Circular Quay.

IMG_7810

Einkadótturinni voru því í dag kynntir leyndardómar nútímalistarinnar ...

IMG_7789 by you.

... áhugi hennar var reyndar í stjarnfræðilegu lágmarki, því hún svaf meira og minna allan tímann á safninu, dauðþreytt eftir að hafa þurft að fylgjast með bílum, strætisvögum, háum húsum, gangandi vegfarendum og þvíumlíku, á leiðinni á áfangastað.
Já, hún fékk tækifæri til að fylgjast með þessu öllu í fyrsta skipti í dag, því hún gjörsamlega harðneitaði að liggja í vagninum.  Slíkt kom bara alls ekki til greina að hennar hálfu og var hún á handleggjunum á okkur í meira og minna 8 klukkutíma, ýmist sofandi eða vakandi.

IMG_7797 by you.

En það má dóttirin eiga að í dag gerði hún tilkall til þess að vera útnefnd þægasta barn í veröldinni ... það heyrðist varla bofs í henni ...

IMG_7813 by you.

Á heimleiðinni var komið við í minjagripavöruverslun og á Starbucks.  Já, og ekki má gleyma bókabúðinni sem við kíktum í.  Merkilegt nokk ... í þessari búð er hægt að fá allt Tinna-safnið og allt Ástríks-safnið á alveg sæmilegum kjörum.  Ég var næstum því búinn að draga upp veskið og snara út fyrir þessum stórkostu bókmenntaverkum, sem karl faðir minn kallaði aldrei annað en "vitleysisbókmenntir" hér á árum áður.  En ég tímdi því ekki ... ekki í dag allavegana ...

Þegar heim var komið var haldið áfram að vera menningarlegur ... eins og sést á eftirfarandi mynd ... engar "vitleysisbókmenntir" hér á ferðinni!!!

IMG_7819 by you.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigríður Gunnarsdóttir

Komið þið sæl, þarna í fjarskanum!

Innilega til hamingju með Guðrúnu Helgu, hún er algjört krútt! Hitti ömmu hennar í gær og hún benti mér á síðuna, svo ég gæti séð myndir af frænku minni.

Bestu kveðjur af Króknum,

Sigga G

Sigríður Gunnarsdóttir, 11.8.2008 kl. 09:43

2 identicon

Hún er nú meira gáfnaljósið sú stutta. ELSKA lestrarmyndina! Þvílíkt sem hún er alltaf stillt og góð þegar við hittum hana! Hlökkum til næsta hittings!

Fjóla (IP-tala skráð) 12.8.2008 kl. 23:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband