Viðurkenning fyrir vel unnin störf

Ég skrapp á leik hjá stráknum í morgun, ... ég er auðvitað að tala um U14 hjá Gladesville Ryde Magic FC ... þeir voru að leika gegn Fraser Park.
Eftir vægast sagt dapurt gengi síðustu misserin var liðið komið í þá stöðu að þeir urðu að vinna leikinn til að halda lifandi þeim markmiðum sem sett voru í upphafi tímabils, það er að komast í úrslitakeppnina.

Til að gera langa sögu stutta, var aldrei "hætta" á að liðið ynni leikinn.  Sóknarleikur liðsins var í molum eins og hann hefur verið allt tímabilið ... þjálfarinn hefur bara ekki haft áhuga á því að æfa sóknarleik neitt sérstaklega.  Raunar ekki fyrr en á síðustu æfingu, þá allt í einu sá hann að nauðsynlegt væri að spá eitthvað pínulítið í þann þátt.
Kannski dálítið seint í rassinn gripið, þegar einungis 4 leikir eru eftir af mótinu ...

En úr því að ég er að tala um þjálfarann, sem er eins og glöggir lesendur hafa eflaust lesið um í færslu gærdagsins er líka fyrrum leiðbeinandi minn í háskólanum, þá er gaman að segja frá því að í gær þegar ég lét hann hafa "uppsagnarbréfið", þá tók hann því svo sem ekkert illa.
Það var ekki fyrr en ég var um það bil að yfirgefa skrifstofu hans að hann segir við mig: "Ég ætla að vona að þú komir ekki á leikinn á morgun ... það er lítilsvirðing við mig og við liðið að þú, fyrrum aðstoðarþjálfari, sért að koma á leiki, auk þess sem nærvera þín elur á sundrungu innan liðsins.  Það er andstætt öllum hefðum hér í Ástralíu að þú hagir þér með þessum hætti."

Ég kváði ... enda ekki annað hægt að mínu mati og benti honum góðfúslega á það að foreldrar drengjanna hefðu sérstaklega beðið mig um að koma á leikina, því nærvera mín hefði góð áhrif á liðið.  Ennfremur afþakkaði ég uppeldislegar ráðleggingar með öllu, og sagði að mér fyndist athugasemdir hans barnalegar og fáránlegar.
Eftir nokkur orðaskipti, rak hann mig út af skrifstofunni ...

... en viti menn eftir leikinn í dag, hópuðust foreldrarnir og strákarnir kringum mig.  Tilgangur var að afhenda mér þakklætisvott fyrir mín störf sem aðstoðarþjálfari.
Um var að ræða stórt "Thank you" kort og $200 (u.þ.b. 15.000 ÍSK) í reiðufé ... ég neita því ekki að ég varð rosalega snortinn og algjörlega orðlaus.  Satt best að segja veit ég ekki hvort ég verðskulda viðurkenningu sem þessa ...

... en það er ekki mitt að dæma það.  Þetta er það sem fólkinu finnst og það er frábært!!!

IMG_7764 by you.

Ég neita því ekki að mér fannst gaman að því að þegar þessi litla athöfn fór fram á bílastæðinu við Fraser Park, stóð þjálfi álengdar og horfði á ... sjálfsagt hugsað mér þegjandi þörfina ...

Allt þetta mál varðandi þennan blessaða mann, mál sem hefur tekið ótrúlega mikið af tíma mínum og þolinmæði er nú loks til lykta leitt.  Ég er laus við hann ... og það er gott!

Eftir á að hyggja hefði ég samt ekki viljað missa af þessu ... því að taka á svona máli er geysilega þroskandi.  Það er fyrirhafnarinnar virði.
Ég hef haft það að leiðarljósi í þessu öllu saman að vera alltaf heiðarlegur, bæði við sjálfan mig og aðra.  Og ég held að það hafi gert gæfumuninn.
"Andstæðingur" minn ákvað að leika öðruvísi "taktík", sem er nú er að koma í bakið á honum af fullum þunga ... sú taktík gekk út frá því að ætla að svínbeygja alla í kringum sig, stjórna öllu og ljúga þegar á þurfti að halda.

Fólk sér í gegnum slíkt ...
... og smám saman er að fjara undan honum.  Sem kannski má segja að sé leiðinlegt, því hann hefur áhuga á því sem hann er að fást við ... en ótti og minnimáttarkennd sem hafa birtingarmynd hroka, stjórnsemi og þrjósku, eru augljóslega að verða honum að falli ...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Frábært framtak hjá strákunum og foreldrum þeirra! Það fer ekkert á milli mála hvað þeim finnst um þetta allt saman  

Stjóri (IP-tala skráð) 11.8.2008 kl. 00:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband