8.7.2008 | 15:01
Bandamaðurinn Sigga
Ég neita því ekki að upphaflega var skrýtið að koma hingað til Sydney, þar sem ég þekkti nánast engann. Mér fannst það skrýtið að upplifa það að gegnumsneitt væri fólki alveg nákvæmlega sama um örlög mín. Til dæmis, ef ég yrði keyrður í klessu úti á götu, þá væri öllum sama um það. Auðvitað fyndist nærstöddu fólki kannski óþæginlegt að horfa upp á atburðinn per se, en hann myndi sennilega ekki kollvarpa lífi þess.
Satt að segja fannst mér það meira en skrýtið að uppgötva þessa staðreynd, það var eiginlega bara óþægilegt ... og ég hugsaði um það hversu miskunnarlaust fólk væri.
En svo rann upp fyrir mér ljós ... og ég sneri þessari hugsun á hvolf ...
... og hugsaði hversu ótrúlegt það er í raun að einhverjum skuli þykja vænt um mann. Að það sé til fólk sem raunverulega þykir vænt um mann.
Ég hugsaði til fjölskyldu og vina heima á Íslandi ... fólksins sem þykir vænt um mig ... algjörlega óumbeðið ber það hag minn fyrir brjósti sér!
Þetta eru bandamenn mínir, þetta er baklandið!!
Er það ekki í raun alveg stórmerkilegt?!? Mér finnst það!! Bandamannahópurinn skyldi aldrei vanmetinn, sannast sagna ætti maður að þakka fyrir hann á svona klukkutíma fresti.
Hversu mikils virði eru elskandi foreldrar? Systkin? Frænkur og frændur? Góðir vinir?
Hversu mikinn fé myndi maður vilja fá í skiptum fyrir bandamenn sína?
Allt heimsins gull og gersemar myndu ekki duga ... slíkt er verðmæti þeirra!!
Þess vegna er það mjög sárt þegar höggvið er skarð í bandamannahópinn ... þegar þeim fækkar sem eru manni velviljaðir, þeim sem þykir vænt um mann ...
... en slíkt gerðist í dag, þegar einn helsti bandamaður minn, og einn helsti bandamaður fjölskyldu minnar síðastliðin 50 ár, Sigríður Guðmannsdóttir lést á Landakotsspítala í morgun.
Fráfall Siggu kom ekki á óvart ... hún barðist hetjulega við lífshættulegan sjúkdóm í mörg ár en á síðustu vikum, hefur verið ljóst hvert stefndi.
Samt vonaði ég og vonaði að þetta myndi lagast ... hún myndi ná yfirhöndinni á nýjan leik ...
... vonin er sterkt afl, en stundum ekki nógu sterkt afl því vonin um að Sigga sigri þennan vágest er úti nú.
Mig langar til að þakka Siggu kærlega fyrir samfylgdina, þakka henni fyrir allt það sem hún hefur gert fyrir mig og fjölskyldu mína. Mig langar til að þakka henni fyrir vera til staðar þegar á reyndi ... þakka henni fyrir að vera bandamaður!! Hennar á eftir að verða sárt saknað.
Að síðustu langar mig til að þakka henni fyrir að hafa birst mér í draumi fyrir fáeinum dögum, þar sem hún kom inn í herbergi, þar sem ég sat. Hún gekk til mín.
"Ég er komin til að kveðja þig", sagði hún.
"Nú? Strax?" svaraði ég.
Hún beygði sig og kyssti mig á kinnina.
"Vertu sæll, Bobbi minn, við sjáumst síðar", sagði hún að lokum. Því næst gekk hún út úr herberginu og lokaði á eftir sér ...
Blessuð sé minning, Siggu.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.