50 cm markið er rofið!!

Já, góðir lesendur!!

Hér í Bourke Street gerðust hreint magnaðir hlutir í dag, þegar Guðrún Helga Sydney Houdini skaust, af lýtalausu öryggi, yfir 50 cm hæðarmörkin samkvæmt óopinberri mælingu foreldranna, sem gerð var í hádeginu.  Reyndist hæð hennar vera heilir 51 sentimetrar, frá trýni að rófubroddi, eins og það er gjarnan kallað í dýrafræðinni.

Það þýðir um 2 cm vöxt á einni viku!!

Það er því greinilegt að talsvert keppnisskap hefur gert vart við sig á unganum, því hann ætlar greinilega að ná fullri líkamlegri stærð sem fyrst!!
Átið er líka yfirgengilegt ... því eins og ég rakti í síðustu færslu líður oft ekki nema ein klukkustund á milli matmálstíma.

Fyrstu fötin úreltust líka í dag ... sem þýðir að Gunna er orðin of stór í þau!  Þessi föt voru keypt fyrir um hálfum mánuði, þegar fataúrvalið var af skornum skammti.

En það eru líka einu fötin sem við höfum keypt ...

... því fjölskylda Guddu hefur brugðist af slíkum krafti að allar fatahirslur eru orðnar yfirfullar.  Nú síðast kom sending frá ömmu Guðrúnu, Toppu frænku, Bínu frænku, Nikka frænda, Sigrúnu frænku, Fúfú frænda, Steinu frænku, Stebba frænda, Snorra frænda og Trausta frænda.  Það fyrir utan kom Fjóla frænka í Sydney, með heila "gommu" af fötum frá systur sinni, auk þess sem hún og Neil frændi, gáfu Gunnsu glæsilegan Kanadabol og smekk. 

Þetta er náttúrulega allt saman alveg æðislegt!!  Og sendum við þrenningin okkar allra bestu þakkir fyrir ... við erum í sjöunda himni!!

Ég nefndi í síðustu færslu, að ég myndi setja dótturina í myndabann ef hún hagaði sér ekki skikkanlega ... Og viti menn!!  Stelpuskottið hefur verið eins og ljós síðan!!

Reyndar höfum við foreldrarnir gert uppgötvanir sem kannski skýra breytt hátterni að einhverju leyti.  Við höfum áttað okkur á því að Guðrún er selskapsmanneskja ... og vill hafa eitthvað að gerast í kringum sig.  Að liggja aðgerðarlaus í vöggu í steindauðu umhverfi, er henni ekki að skapi!  Annars er merkilegt hvað fólki hættir til að halda að börn vilji helst vera í umhverfi þar sem ekki heyrist eitt einasta múkk og ekkert er að gerast!!  Hver nennir því eiginlega!??!

Í öðru lagi höfum við ákveðið að nota taubleyjur í stað pappírsbleyja ...

Ó mæ goood ... nú er ég að skrifa um hlut sem ég var búinn að lofa mér að skrifa aldrei um á þessari bloggsíðu ...

... Góðir lesendur ... Páll Jakob Líndal er að tala um bleyjur!!!

...

... ok ... við ætlum að nota tau í stað pappírs.  Hér í Sydney er nefnilega bleyjuþjónusta, sem lætur mann fá 70 bleyjur á viku.  Innifalið í verði er að komið er með bleyjurnar og náð er í þær eftir viku um leið og nýr skammtur er afhentur.
Ég lofaði móður minni fyrir margt löngu að nota taubleyjur í stað pappírsbleyja ... og nú hef ég staðið við það!!!
Nú kemur í ljós hvort er betra, pappír eða tau!!

Í þriðja lagi höfum við gert nauðsynlegar lagfæringar á rúmi fröken hátignar, sem gerir dvöl hennar í vöggunni mun betri en áður!!!

Fyrir utan allt þetta endalausa barna- og bleyjutal ... má segja að það sé margt að gerast hér í Sydney þessa dagana ... það er dramatík í háum gæðaflokki!!
Ég segi ekki meira að sinni ... en það er eins og Lauga sagði við mig í gær: "Þú virðist vera gæddur þeim hæfileikum að það er aldrei lognmolla í kringum þig!!!"

Skyldi vera eitthvað til í því??

Tvær myndir fyrir þá sem hafa áhuga!


Fyrir myndastraffið ...


Eftir myndastraffið ... í stað þess að gráta úr augun og öskra úr sér lungun, brá einkadóttirin á leik, þegar hún kastaði upp á bringu föðursins og lagði svo höfuðið umsvifalaust ofan í herlegheitin, eins og sjá má á þessa ágætu mynd!!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það vantar greinilega ekkert upp á metnaðinn hjá þeirri litlu. Með þessu framhaldi verður hún 103 cm í lok árs sem þykir nokkuð gott fyrir tæplega 7 mánaða gamalt barn. Gaman að sjá að menn eru að mýkjast þarna suðurfrá og farnir að skrifa um bleyjur af miklum móð...en einnig gott að vita að hæfileikinn til að hreyfa við logninu er enn til staðar     

Stjóri (IP-tala skráð) 1.7.2008 kl. 02:47

2 identicon

Sú er aldeilis að flýta sér að stækka!! Hún verður búin að ná frænda sínum áður en maður veit af með þessu áframhaldi. En vonandi er mesti vaxtakippurinn yfirstaðinn að þessu sinni svona mömmunar vegna. Og þá er bara að láta sig hlakka til næsta vaxtakipps í kringum 6 vikna aldurinn :O)
Varðandi lognmolluna; ertu nokkuð staddur á landinu núna Bobbi minn, það er nefninlega hífandi rok úti...

Helga Guðrún (IP-tala skráð) 1.7.2008 kl. 18:31

3 Smámynd: Páll Jakob Líndal

Já, hún Gunna mín hefur tekið að sér það metnaðarfulla verkefni að vera "einslæðingur" á meðgöngu, fæðast ekki nema 45,5 cm og vera búin að ná fullri lengd og þyngd á mettíma. 

Vöxturinn er slíkur að maður sér hana hér um bil vaxa ... sem er náttúrulega bara æðislegt!

En til að svara þessu varðandi lognmolluna ... ég er ekki á Íslandi, því miður!! :D  Væri samt til í að fá að anda að mér íslensku sumarlofti!!

Páll Jakob Líndal, 1.7.2008 kl. 22:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband