Afleiðingar þjálfunardags nr. 1

Í síðustu færslu talaði ég fjálglega um að rólegu dagarnir í lífi dóttur minnar væru að baki ... flautað var til heljarmikilla þjálfunarbúða, í þeim tilgangi að herða barnið ...

... ég vara við slíku ...

... því sú litla kvittaði hressilega fyrir!!

Hún tók okkur í svo ærlega kennslustund núna um helgina að maður vissi vart hvort maður var að koma eða fara ... móðirin fékk þó óverðskuldað að kenna meira á því, en faðirinn sem þó skipulagði herlegheitin, það er þjálfurnarprógrammið!!

Og hver er staðan nú hér í Sydney klukkan rétt rúmlega 15:45?  Móðirin liggur gjörsamlega marflöt ... sjá mynd sem tekin var fyrir fáeinum andartökum!!

En faðirinn stendur náttúrulega uppréttur eins og karlmanni sæmir og þvær tuskur og hengir til þerris!!

En hvað hefur eiginlega verið að gerast?!?

Já, í stuttu máli má segja að Gutta viljað fá eitthvað gott að drekka á svona klukkutíma fresti, hún hefur svo gert allhressilega í brækurnar að strjúka verður milli herðablaðanna á henni með volgum klút, þegar takast á að þrífa hana með fullnægjandi hætti, þar að auki hefur hún gubbað út umtalsvert magn af klútum, bolum og teppum.  Og á milli þessa, gólar hún eins og stunginn grís, og harðneitar að sofa nema svona eina mínútu í einu!!  En ef henni er boðið upp á að liggja í sínu rúmi, þá neitar hún alfarið svo mikið sem lygna aftur augunum.  Hún virðir hringekjuna með höfrungnum, froskinum, kolkrabbanum og fjólubláa sæhestinum að vettungi, þó hún snúist eins og skopparakringla fyrir framan nefið á henni og gefur ekki fimmaura fyrir það sindrandi tónaflóð sem streymir frá spiladósinni sem hringekjan hangir í.

Það er því greinilegt að aðgerðir foreldrana um að herða upp ungann hafa komið beint í andlitið á þeim aftur!!  Stundum er slíkt kallað að skjóta sig í fótinn!!

Þrátt fyrir þetta allt saman ríkir sátt að mestu leyti enn og mun ég því birta myndir af dótturinni með þessari færslu ... en ef hún verður mjög "óþekk" marga daga í viðbót, er ég búinn að segja henni að hún fari í myndastraff!!!

Ég ætla að sjá hvaða svör hún hefur við þessu bragði mínu ... hahahahaha!!!! 

En svona gengu hlutirnir fyrir sig fyrir þjálfunardaginn ...

Og svona gengu þeir fyrir sig eftir þjálfunardaginn!!!

Já, það er óhætt að segja að það er vandasamt hlutverk að vera foreldri ... maður vill ákaflega vel, en hlutirnir eru túlkaðir með algjörlega öfugum hætti!!  :D


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hæ hæ,

 við erum nýkomin frá Thailandi eftir frábæra brúðkaupsferð og enn skemmtilegra brúðkaup. (Stebbi kvæntist og Steina var gefin manni).

Okkur langar að þakka ykkur fyrir kveðjuna sem kom mjög skemmtilega á óvart ! Eitthvað var um að fólk í salnum snökkti yfir þessari skemmtilegu viðbót við frábæra gesti sem fyrir voru. (Steina snökkti en Stebbi sat eins og steini runnið íslenskt karlmenni og felldi ekki tár en gladdist í karlmannshjarta sínu).

Til hamingju með Guðrúnu Helgu (frá Stebba), hún er svakatöff :)

Hafið það gott

Znorro & Tauto (IP-tala skráð) 30.6.2008 kl. 08:03

2 Smámynd: Páll Jakob Líndal

Kærar þakkir fyrir kveðjuna ... gott að heyra að allt gekk vel bæði brúðkaup og brúðkaupsferð!!

Og við erum súper ánægð með að fólk snökti af sorg yfir því að við værum ekki á staðnum!! :D Er það ekki annars rétt skilið hjá mér???

Páll Jakob Líndal, 1.7.2008 kl. 22:45

3 identicon

Mér finnst alveg ótrúlega gaman að grátmyndum af börnum, móðir mín er líka þeirrar skoðunar að það eigi líka að taka þannig myndir af börnum því það sýni bara hinar mörgu hliðar þeirra ;) svo ég hef reynt að leggja mig í líma við að setja einnig þannig myndir inn sjá nýjustu myndir famelíunnar undir brúðkaup stebba&steinu og gæsun steinu sem er albúm sem ber engan veginn nafn með rentu...hehehe en þar má sjá eina nokkuð góða fýlumynd af fúsa froski.

Annars leyfi ég mér að fullyrða að Guðrún Helga er jafn fríð sofandi sem grátandi

sigrunst (IP-tala skráð) 4.7.2008 kl. 09:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband