Af íslenskum nöfnum í Sydney

Ég var víst búinn að lofa að gefa upp nafn telpunnar í dag ...

... nei, reyndar var ég búinn að lofa að gefa það upp í gær ...
Jæja, en allavegana ætla ég að gefa það upp núna í þessari færslu!

Blessuðu barninu hefur verið gefið nafnið Guðrún Helga Pálsdóttir Líndal ... hvorki meira né minna!  Guðrúnar-nafnið kemur náttúrulega beint frá föðurömmunni, sjálfri Guðrúnu Jónsdóttur arkitekt!!  Og Helgu-nafnið kemur frá móðurömmunni, hinni einu sönnu Steinunni Helgu!!  Pálsdóttir Líndal er svo eins og flestir væntanlega gera sér grein fyrir óhjákvæmilegur fylgifiskur þess að hún er dóttir Páls nokkurs Jakobs Líndals.

Ef blessað barnið heldur Sydneyjar-nafninu um ókomna tíð ... þá mun það væntanlega blasa við að þurfa signt og heilagt að útskýra af hverju hún sé kölluð Sydney.
Ég þekki það af eigin skinni að slíkar útskýringar geta stundum verið afskaplega þreytandi og stundum pirrandi ... ekki það að fólk hefur fullan rétt á því að spyrja mann sem er heitir Páll Jakob, af hverju hann sé kallaður Bobbi!!

Margir hafa í gegnum tíðina bent mér á að það sé ekki heil brú í því ... en þeir um það!!  Aðrir hafa reynt að tengja það Jakobs-nafninu.  "Já, já, nú skil ég ... það er auðvitað vegna þess að þú heitir Páll Jakob ... sko Kobbi verður Bobbi!!!!"
Já, já blessaður ... þetta er hinn mesti misskilingur ...

En úr því ég er kominn út í þessa sálma er alveg eins gott að ég bara upplýsi af hverju ég er kallaður Bobbi ...
Ég er kallaður Bobbi vegna þess að þegar ég fæddist, fannst föður mínum og alnafna, ég líta út eins og kuðungur!!  Og ... í stað þess að kalla mig Kuðung, þá kallaði hann mig Bobba (Guð blessi hann fyrir það!!),  en fyrir þá sem það ekki vita, þá er bobbi er annað orð yfir kuðung!

En það fylgja því einnig kostir að hafa sérkennilegt gælunafn ... því það gerir mann sérstakan ... maður verður svona "einn sinnar tegundar".  Það eru held ég ekki margir nafnar mínir kallaðir Bobbi, ég veit ekki um einn einasta!!  Samt hef ég hitt þrjá Bobba um ævina, einn þeirra hét Brynjólfur, en ég man ekki hvað hinir tveir hétu, en þeir hétu ekki Páll, svo mikið veit ég!
Og hvað eru margar Guðrúnar kallaðar Sydney?!?  Örugglega ekki fleiri en ein!!!

Það er gaman af því að segja fólki sem ekki talar íslensku, hvað barnið heitir ...
"Já, er hún kölluð Sydney!?  Enn sætt!!  En ... jú, segðu mér endilega íslenska nafnið!!", segir fólk eftirvæntingarfullt.
"Guðrún Helga", segi ég.
"Segðu þetta aftur!!!", segir fólkið.
"Guððð-rúúún Heee-lgaaaa", segi ég mjög hægt.
"Gugædsidfjglblahæs Helga", endurtekur fólkið, og raunverulega telur sig bera nafnið fram með nokkuð sannfærandi hætti!!
"Já, svona um það bil", segi ég og steinlýg því náttúrulega!
"Ég mun bara kalla hana Sydney", segir fólk og brosir.
"Ekkert mál!!", segi ég.

Þegar ég fór að ná í fæðingarvottorðið um daginn niður á Þjóðskrána, hafði snillingunum þar tekist að skrifa rangt nafn á vottorðið.  Barnið hét samkvæmt plagginu Gurdun Helga ... 
Ég lét leiðrétta það.  Þá sagði blessaður maðurinn sem leiðrétti að þetta væru ansi glæsileg nöfn ... Guðrún Helga Pálsdóttir Líndal og Sigurlaug Guðrún Gunnarsdóttir ...
Er nokkur furða þó menn, sem heita Tom Jones, Jim Smith og Greg Foster fari aðeins út af sporinu þegar, þeir þurfa að skrifa þessa stafasúpu??

Ég held samt að Páll Jakob Lindal, sé nokkuð viðráðanlegt fyrir þá ... þó það sé ekki möguleiki fyrir fólk hér að bera nafnið mitt fram með viðunandi hætti ...  Það eru "L-in" tvö í enda nafnsins sem er hinn mesti dragbítur!!  Til dæmis fannst tveimur félögum mínum hér í Sydney, ég segja "fuck", þegar ég sagði Páll!!!  Mér fannst það reyndar mjög fyndið ...

Aðalleiðbeinandi minn telur sig bera Páll fram jafnvel og íslenskur íslenskufræðingur myndi gera, en í mínum eyrum og allra þeirra sem kunna eitthvað í íslensku er framburður hans á nafninu mínu slíkur að mig langar mest til að löðrunga hann í hvert skipti!!! 

Hann kallar mig "Pagg"!!! 

Honum finnst sumsé "L-in" tvö í enda nafnsins hljóma eins og tvö "G"!!!  Ég veit ekki hvað ég er oft búinn að segja honum að kalla mig bara Paul.  En nei, nei ... því er ekki viðkomandi!!

Nóg af þessu!!

Af öðrum fréttum þessa dags er það helst að við þrenningin fórum í mikinn barnavagnaleiðangur, sem tók nú bara lungann úr deginum.  Fórum í Toys R Us í Moore Park og í aðra búð sem heitir Baby Things, sem er í húsi nr. 145a við Anzac Parade.  Í þeirri síðarnefndu keyptum við þennan líka forláta vagn ... ég man ekki hvað hann heitir í augnablikinu!!  En við foreldranefnurnar voru bara býsna ánægð með kaupin! 

... og ég þarf sjálfsagt ekki að nefna það að mér fannst rosalega gaman að skoða þessa barnavagna, ... og líkt og venjulega kom þessi áhugi mér algjörlega í opna skjöldu!!  Annars er ég aðeins farinn að venjast því að vera svona ólíkur sjálfum mér ... !!!

Verð ég ekki að henda inn nokkrum myndum svona upp á fjörið?!?


Það var smá baðstand í gær ... hér er verið að þvo kollinn, eins og glögglega sést!!


Það er hin fagra móðir dóttur minnar á leiðinni í barnavagnabúðina


Ég er þarna með angann litla í pokanum góða sem við keyptum um daginn, og hún sefur alveg eins og grjót þegar hún liggur í þessum útbúnaði!


Nærmynd af Sydney ... meiningin var að ná mynd af frábærri handauppstillingu, en hún þurfti endilega breyta henni hálfri sekúndu áður en smellt var af ... þetta er því afraksturinn!!


Lauga með vagninn góða rétt fyrir utan búðina, sem hann var keyptur í.


Í dag náði skammdegið hámarki, því hér í Ástralíu var stysti dagur ársins í dag ... hér er því hávetur en veðrið skartaði þó sínu fegursta!!  Nánast heiðskírt, hitinn eitthvað í kringum 16°C og svolítil gola.


Þessi mynd var tekin helst til að sýna hversu "stór" afkomandinn er ... kókflaskan hefur það hlutverk að gefa stærðarhlutföll til kynna.


Skal einhvern undra að stúlkan sé kölluð Sydney Houdini???  Ég var búinn að pakka henni svo rækilega inn í teppið nokkrum mínútum áður, að ég er viss um að sjálfur Harry Houdini hefði ekki getað losað sig ... en viti menn!!!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Til hamingju með nafnið mín kæra Guðrún Helga Pálsdóttir Líndal! Sannarlega fallegt og virðulegt nafn á glæsilega stúlku.

Gaman að þessu með framburðinn og gælunafnið. Bobbi er óneitanlega betra en Kuðungur...og samlíkingin einhver sú frumlegasta sem ég hef heyrt 

Stjóri (IP-tala skráð) 22.6.2008 kl. 02:28

2 identicon

Hjartanlega til hamingju með fallegt nafn!

Kv. Linda

Linda (IP-tala skráð) 22.6.2008 kl. 09:40

3 identicon

Afskaplega falleg nöfn á stúlkunni - og að sjálfsögðu trúi ég því náttúrulega ekki í eina mínútu að stúlkan heiti í höfuðið á ömmum sínum...
Myndirnar af ykkur með gullmolann eru ekkert smá sætar, þessi af Bobba með Guddu litlu og kókflöskuna er einstaklega skemmtileg, þarna tel ég víst að hann sé með tvennt af því þrennu sem hann heldur mest upp á í heiminum...

Helga Guðrún (IP-tala skráð) 22.6.2008 kl. 14:39

4 Smámynd: Páll Jakob Líndal

Afskaplega kærar þakkir fyrir góðar kveðjur ...

... og þess má geta að kókbindindið í Ástralíu er kolfallið ... (!!!), eins og sjá má á myndinni af okkur feðginum! 

Páll Jakob Líndal, 22.6.2008 kl. 23:59

5 identicon

Til hamingju Bobbi med born og buru. Vardandi nofnin og framburd tha hef eg thurft ad thola Sven nuna i nokkur ar. Folk neitar ad kalla mig Svenna. Svona er thetta bara.

Kv

Svenni Vinnie Vincent

Vinnie Vincent (IP-tala skráð) 23.6.2008 kl. 08:36

6 identicon

Innilega til hamingju með æðislegt nafn. Við erum þá orðnar tvær barnadæturnar sem fengum nafnið Guðrún, heldurðu að amma sé ekki sátt með það, öss Ég er allavegana mjög kát með nöfnuna. En annars verð ég að segja að þessi kengúrupokauppfinning er eiginlega alveg snilldarleg, alltaf sér maður eitthvað nýtt.
Bið að heilsa.

kv. ErnaGuðrún St.

ErnaGuðrún St (IP-tala skráð) 23.6.2008 kl. 23:44

7 Smámynd: Páll Jakob Líndal

Aftur kærar þakkir fyrir góðar kveðjur ...

... æðislega gaman að fá kveðjur!!

Páll Jakob Líndal, 26.6.2008 kl. 03:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband