13.6.2008 | 13:53
Svona gengur þetta nú fyrir sig ...
Nú um stundir er ástandið einhvern veginn á þessa leið. Barnunginn sefur svefni hinna réttlátu, sæll, mettur og glaður með aðra hönd undir kinn, móðirin er í heitri sturtu, gjörsamlega búin á því andlega og líkamlega og faðirinn er einhvers staðar þarna á milli.
Þetta eru búnir að vera merkilegir dagar síðan ég bloggaði síðast ...
... á miðvikudaginn komu þær mæðgur heim af sjúkrahúsinu. Það sem helst bar til tíðinda í þeirri ferð var að hin sallarólega spúsa mín sýndi indverskum leigubílstjóra heldur betur klærnar, þegar hann var að segja henni að setja barnið í barnastólinn í leigubílnum. Mislíkaði henni talsmáti bílstjórans svo, að hún klauf hann í herðar niður með orðunum einum.
Þegar heim var komið blasti alvaran við, eða minnsta kosti hinn ískaldi raunveruleiki. Nú var búið að fjarlægja bómullina ... engar hjúkkur, ljósmæður eða læknar til að grípa inn í ...
... ég verð að viðurkenna að ég var fremur andstuttur af streitu, þegar við komum heim ... mér fannst röðin vera komin að mér að standa mig í stykkinu.
Hin tæplega hálfa metra langa hnáta var mjög fljótlega eftir heimkomuna, háttuð niður í rúm og látin sofa úr sér ferðaþreytuna. En á meðan reyndi ég að ná einhverjum áttum. Lauga var saliróleg yfir þessu öllu.
Fyrsta nóttin var fremur tíðindalaus nema hvað maddama Sydney þurfti tvisvar á aðstoð að halda ... það mátti nú ekki minna vera!!
Gærdagurinn leið við svo mikil rólegheit að ég hef sjaldan orðið vitni að öðru eins. Sjálfur var ég alveg eins og tuska ... gat ekki einbeitt mér að neinu og hélst þar af leiðandi ekki við nokkurn skapaðan hlut. Allan daginn stóð til að fara út að hlaupa og hreyfa á sér spikið, en klukkan 22.30 hætti ég að hugsa um það. Mæðgurnar léku hins vegar við hvurn sinn fingur, ýmist sofandi eða vakandi. Ekki slæmt það!!
Önnur nóttin var ívið meira krefjandi en sú fyrsta, því einkaerfinginn vildi fá bæði meiri og betri þjónustu, en áður. Vaknaði fjórum sinnum og lét heldur ófriðlega á köflum. Móðirin hafði hins vegar ráð undir rifi hverju og gat öllu svarað með snjöllum mótspilum. En slík varnarbarátta kostaði þó þrek og í dag hefur aðkomandinn sótt stíft og móðirin varist fimlega.
Niðurstaðan nú er eins og lýst var í upphafi ... sæll, mettur og glaður barnungi en gjörsamlega uppgefin móðir.
Faðirinn er svo einhvers staðar þarna á milli ... sýður tuskur, þvær þvott, fer út í búð og eldar, sinnir litla stýrinu við og við og passar að allt gangi svona nokkurn veginn snurðulaust fyrir sig.
Best að hætta þessu blessaða röfli ... hér eru nokkrar myndir ...
Spúsan og fröken Sydney komnar heim heilu á höldnu
Telpan komin undir sæng og teppi stuttu eftir heimkomuna
Maður man sem betur fer ekki frá þeim tíma, sem maður sjálfur var í þessari mjög svo afleiddu stöðu. Nýbúið að kasta upp og höfuðið fast í einhverju sem helst mætti líkja við glussatjakk.
Þessi undirhaka á mér er algjör skandall!!! Ég skil þetta bara ekki!!! Maður hjólar að lágmarki 70 - 80 km í hverri viku og svo er þetta niðurstaðan!!
Hér eru sumir alveg svakalega hressir!!
Jon, sem er einn af hinum þremur vitru frændum, mætti í heimsókn ásamt þeim hinum tveimur vitru frændunum, þeim James og Rich
Svo mættu Rosa og Nick og kíktu á Sydney ... það fer nú bara vel á með þeim frænkunum!!
Athugasemdir
Ótrúlega gaman að fylgjast með ykkur í orðum og myndum.
Keep up the good work!!!
Anna Klara (IP-tala skráð) 14.6.2008 kl. 11:36
Velkomin heim með ungann, það verður að segjast eins og er, hún er algjör dúlla!
Helga Guðrún (IP-tala skráð) 14.6.2008 kl. 23:27
Hæ elsku Lauga og Bobbi! Innilega til hamingju með þessa glæsilegu stúlku, hlakka til að sjá ykkur öll um jólin! Úff alltof langt þangað til en maður verður þá bara að skoða myndir á meðan
Hafið það ofsa ofsa gott, kos & kram
Ólína og Beggi biður að heilsa!
Ólína (IP-tala skráð) 15.6.2008 kl. 13:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.