10.6.2008 | 14:55
Enn meira tal um föðurhlutverkið
Hlutirnir í hausnum á mér halda áfram að taka á sig vægast sagt undarlegar myndir ...
Sko ... fyrir viku hefði ég aldrei trúað því að ég ætti eftir að hafa gaman af því að góna á smábarn. Mér hafa yfirleitt leiðst 0 ára smábörn, en undanskil þar litlu frændur mína Nikkson og Steinusyni, sem hafa náð innfyrir hjá mér. En svona almennt séð, þá hef ég bara ekki verið svona smábarnakarl, svona "gúllígúllí"-karl. Ég hef meira gefið mig út fyrir að vera raunverulegt karlmenni með haka og skóflu í hönd, frekar en einhver mjúkur metrógaur!!! En í sannleika sagt held ég að bakvið grímuna hafi bara verið feiminn náungi, sem var hræddur við börn ...
Það er kannski ekkert normalt að vera feiminn, hvað þá hræddur við lítil börn sem vita ekki einu sinni hvað þau heita ... en svona er eða öllu heldur var þetta bara.
Í kvöld baðaði ég smábarn í fyrsta skipti ... og viti menn, ... það var alveg meiriháttar upplifun!! Alveg ótrúleg!! Að sjá hvað unganum þótti gott að fara í bað var með hreinum ólíkindum, ég segi það bara! Mig langaði bara til að baða einkadótturina í alla nótt og hefði örugglega gert það ef hjúkkan hefði ekki hnippt í mig. Aldrei nokkurn tímann hefði ég trúað þessu upp á mig ... ég er að tala um Pál Jakob Líndal!! Þetta er algjört rugl!!
Og svo til að kóróna allt saman, þá finnst mér rosalega gaman að skipta á barninu. Ef mér hefði verið sagt það fyrir viku að það yrði staðreyndin, hefði ég gengið í höfnina. Hvernig í veröldinni getur maður sem á af einhverju undarlegum ástæðum, erfitt með að kaupa klósettpappír úti í búð haft gaman að því að skipta á gegnsósa bleyjum?!?
Æi, kannski er ég bara að blanda saman algjörlega óskyldum hlutum ... en þetta er alltént afskaplega undarlegt!
Fyrir fæðingu afkomandans og raunar í nokkra klukkutíma eftir hana, var ég hreinlega ekki viss um að barnið myndi snerta eina einustu taug í mér. Satt best að segja hafði ég dálitlar áhyggjur af því. Fannst það einhvern veginn ekki sanngjart hlutskipti að sitja uppi með barn sem manni væri alveg sama um ... þannig lagað, og maður myndi bara sinna því að skyldurækni, frekar en áhuga. Það þarf nú ekkert að ræða um hvort það væri gott fyrir blessað barnið, að eiga áhugalausan föður ... slíkt hefur aldrei talist sérlega heillavænlegt fyrir börn!
Dóri vinur minn, sagði að ég þyrfti ekki að hafa neinar áhyggjur af þessu, föðurtilfinningin myndi blossa upp, eins og olíu væri hellt á eld. Samt var ég ekki viss um hvort ég ætti að taka mark á honum ... mér fannst ekki óhugsandi að ég væri undantekningin sem sannaði regluna!?!
Núna á fjórða degi hef ég endanlega sannfærst og er óendanlega sannfærður um að ... Dóri sagði satt!!! Blessaður karlinn!!
Ég hef tekið hlutverk mitt sérlega alvarlega ... í gær söng ég íslenska þjóðsönginn yfir dótturina. Mér fannst það við hæfi að það væri fyrsta lagið sem sungið væri fyrir hana utan legs. Þjóðsöngnum var svo fylgt eftir með The International Rock and Roll Anthem "Rock and Roll all Nite", eftir þá félaga Simmons og Stanley. Í dag las ég fyrir hana í fyrsta skipti og varð Nóbelskáldið fyrir valinu ... Brekkukotsannáll 7. kapítuli ... ekki dónalegt það!
Hér eru nokkrar myndir ...
Móðirin, blómvöndurinn, bleiki bangsinn og barnið
Karin, hollenska vinkona okkar, leit við hjá okkur og kynntist Sydney ágætlega. Þetta var kveðjuheimsókn Karinar, sem hélt áleiðis til heim til Hollands í dag ... hennar verður sárt saknað
Baðferðin ógurlega ... þarna sjá traustar hendur hjúkrunarfræðingsins, sem ég man ekki hvað heitir, til þess að allt fari eftir settum reglum
Hér aftur á móti, reyna fremur ótraustar hendur að fylgja settum reglum
Þetta er svo niðurstaðan ... búið að baða!!!
Athugasemdir
Já, manni líður óneitanlega svolítið eins og að maður hafi fengið inngöngu í klúbb innvígðra - allt í einu skilur maður svo margt sem fólk hefur sagt um það að eiga börn. Þetta er merkilegt ævintýri sem maður er að leggja upp í...
Helga Guðrún (IP-tala skráð) 10.6.2008 kl. 17:44
Innilega til hamingju með prinsessuna. Þvílík fegurð :) Fréttirnar greinilega lengi að berast því ég bara hafði ekki hugmynd um að prinsessan væri komin og var að enda við að kommenta á síðuna hjá móðurinni :)
Vá!! Hvað þetta er frábært. Ég er svo glöð f. ykkar hönd. Stelpur eru bestar... þekki það manna best;)
Til hamingju með þetta kæru vinir. Það verður gaman að fá að fylgjast með nýja lífinu ykkar. Þetta er alveg nýtt ferðalag sem tekur alla ævi :)
hamingjuóskir
Gunnsa og co
Gunnhildur (IP-tala skráð) 11.6.2008 kl. 00:02
Svakalega eru myndirnar skemmtilegar :)
Dagrún (IP-tala skráð) 11.6.2008 kl. 21:07
Palli Palli Palli þú ert meistari.
Þóra (IP-tala skráð) 11.6.2008 kl. 22:03
Kærar þakkir fyrir kveðjurnar ... eins og ég hef áður ritað einhvers staðar, þá eru þær alveg æðislegar!!
Páll Jakob Líndal, 14.6.2008 kl. 00:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.