8.6.2008 | 15:01
Sydney í Sydney
Hún var óneitanlega skrýtin tilfinningin sem var innra með mér þegar ég vaknaði í morgun ... það er náttúrulega ekki á hverjum morgni sem maður vaknar upp í fyrsta skipti sem faðir.
Ef mér reiknast rétt til þá gerist það bara einu sinni í þessu jarðlífi, þannig að ... já, ... það er öðruvísi ... svo mikið er víst ...
Það var einhver svona spenna sem samt var ekki spenna, en var samt spenna ... ekki var það kitl, ekki óþægindi, myndi samt ekki kalla það vellíðan, en samt einhvers konar vellíðan ...
Allavegana, eins og nefnt var hér að ofan, var tilfinningin skrýtin ...
Mér tókst að klúðra málunum af miklu öryggi í morgun, því ég svaf yfir mig! Ég sem er vanur að vakna klukkan 7 á morgnanna, svaf eins og hrútur til klukkan 10 ... og missti því að heimsóknartímanum milli kl. 9 - 11. Klukkan 11 er feðrum nefnilega hent út af deildinni!! Og ástæða þess er að milli kl. 11 - 14 þurfa móðir og barn að hvílast!!!
Ég held að það sé kominn tími til að líta eitthvað aðeins yfir þessar reglur aftur ... og uppfæra þær til samræmis því að um þessar mundir er árið 2008 en ekki 1908 eða 1808!!
Og þar sem ég brenndi af og gerði í brækurnar svona strax í upphafi ferils míns sem föður, þá var meiningin að vera mættur við sjúkrahúsdyrnar kl. 14, þegar yfirvöldin myndu veita ólátabelgjunum aftur inngöngu í himnaríki.
Aftur tókst mér að klúðra málunum ... mætti alltof seint! Það skýrist af því að ég var hálfnaður niður á sjúkrahús þegar ég áttaði mig á því að ég hafði gleymt um það bil helmingnum af því sem ég hafði ætlað að taka með mér. Ég sneri því við og náði í það sem gleymdist.
Lauga var algjörlega uppgefin þegar ég loksins mætti. Hinn háæruverðugi afkomandi hafði þó látið nokkuð prúðmannlega allt frá því að ég hafði yfirgefið samkvæmið kvöldið áður. Hinsvegar hafði hóstakjöltur verið töluvert, ásamt slímlosun og uppsölum. Allt þetta hafði svo sannarlega haldið móðurinni við efnið. Maður sefur kannski ekkert rosalega vel eða mikið þegar höfuð erfingjans blánar upp með reglulegu millibili, vegna þess að það er slím í lungunum sem vill ekki fara upp!
Þessar miklu lýsingar voru nú ekki beint til að stútfylla mig af öryggi og ánægju með frammistöðu mína eða öllu heldur frammistöðuleysi þennan morguninn!! Hvað hafði ég eiginlega verið að spá??!?!
Jæja, ... en í framhaldinu ég tók hlutverk mitt mjög alvarlega, skipaði Laugu að fara að sofa og skipaði Sydney að hætta að hósta og æla og fara að sofa. Ég var nefnilega minnugur föðurlegra ráða sem Jón Þór stórfrændi, sendi mér í gær í formi smáskilaboða, en þar stóð að ég skyldi muna að það er karlmaðurinn sem ræður og ekkert múður!!
Svo kom ég mér vel fyrir í stólnum og datt alveg ofan í Halldór Laxness ... Brekkukotsannál ... stórkostlega bók ... á milli þess sem ég skaut augunum yfir á hinn tæplega hálfa metra langa afkomanda!! Sem minnir mig á það að ég fór ranglega með tölur á blogginu í gærkveldi, því barnunginn var 45,5 cm þegar hann kom í heiminn en ekki 44,5 cm. Sannarlega glapparskot þarna hjá mér ... það er nú ekki eins og blessað barnið sé svo stórt, að það megi við að draga af því heilan sentimetra ...
Upp úr klukkan 17 vöknuðu mæðgurnar svo aftur ... sú eldri á undan þeirri yngri ...
... og kl. 18.30 mættu fyrstu gestirnir í heimsókn, en það var aðalleiðbeinandi minn Gary Moore og Meloni kona hans. Meðferðis var stór blómvöndur og bangsi. Þau voru hjá okkur í nokkra stund ...
Klukkan 20 var mér svo skipað út af deildinni aftur ... sennilega því móðir og barn þurftu að fara að hvíla sig, eftir allan sirkusinn sem hafði fylgt mér!!
Tilfinningin í lok dags var allt önnur en sú sem var í morgun ... ég er kominn á þá skoðun, í fyrsta skipti á ævi minni að það sé gaman að eiga barn. Fram að þessu hef ég stórlega efast um það! Meira talið að fólk segði þetta bara, því það hefði engra annarra kosta völ!! Það þýðir nú lítið að eiga barn og finnast bara ömurlega leiðinlegt að eiga barn ...
... en eftir daginn í dag, hef ég áttað mig á því að þetta er ekki bara eitthvert blaður út í loftið ... það er alveg stórmerkilegt að eiga barn!!
Jæja, ... það er komið nóg af bulli ... hér eru nokkrar myndir, til að fóðra hungraða ættingja og vini ...
Þarna er allt svo sannarlega með kyrrum kjörum og allir lúta heraga!!
Drengurinn í næsta herbergi gólaði eins og óður, og hvað gerði Sydney? Já, aðeins tæplega sólarhringsgömul hafði hún vit á því að leggja höndina fyrir eyrað ... geri aðrir betur!!!
Ég er bara velta því fyrir mér hvort það gangi hreinlega í erfðir að sofa með hendurnar í þessari stöðu?!?!
Gary og Meloni dást að hinum nýborna Íslendingi
Athugasemdir
Sæll Páll minn. Enn og aftur til hamingju með litlu stúlkuna. Flottar myndir og stórskemmtileg frásögn. Þannig á víst þetta að vera eins og þú lýstir, hehehe. Vonandi hefurðu fengið netpóstinn frá mér. Afi gamli á ská biður rosalega vel að heilsa nýbökuðum foreldrum og að sjálfsögðu skáafabarninu. Með bestu kveðju.
Bumba, 8.6.2008 kl. 15:15
Hæ foreldar! Innilega til hamingju með dótturina :) Hún er algjör rúsina!!
Benný (IP-tala skráð) 8.6.2008 kl. 16:29
Til hamingju aftur! Frábærar myndir af glæsilegum mæðgum og skemmtileg lýsing á tilfinningarússíbananum.
Merkilegt þetta með agann þarna á sjúkrahúsinu. Ég hefði haldið að faðirinn myndi frekar létta undir með móðurinni, amk í flestum tilfellum, en sinn er víst siðurinn í landi hverju.
Stjóri (IP-tala skráð) 9.6.2008 kl. 02:39
Elsku Lauga og Palli
Ég óska ykkur innilega til hamingju með gullmolann ykkar. Hún er yndislega falleg. Og já Palli minn það er yndislegt að eiga börn(þó að það geti verið erfitt inn á milli sérstaklega þegar þau eru unglingar). Þau halda manni ungum og við efnið það er sko alveg á tæru. Ég verð nú að fara að heyra í þér. Verð að redda mér skype. Þið verðið án efa yndislegir foreldrar.
Þóra (IP-tala skráð) 9.6.2008 kl. 10:49
Halló elsku Bobbi og Lauga, þetta eru svo sætar myndir, enda með eindæmum sætar mæðgur. Innilega til hamingju öll sömul. Hlakka til að sjá ykkur. Gangi ykkur allt í haginn, svo verður þetta víst bara skemmtilegra og skemmtilegra Bobbi eftir því sem krílin eldast og fara að geta gert meira. Tvíburarnir hans Einars bróður sem fæddust í nóvember taka framförum á hverjum degi og það er ekkert smá gaman að fylgjast með :)
Sá ég svo glitta í eittthvert glæsilegt merki í peysunni hans Gary eða.....?
Ástarkveðja ykkar Iðunn.
Iðunn frænka (IP-tala skráð) 9.6.2008 kl. 15:51
Hæ, allir saman ... kærar þakkir fyrir kveðjurnar ... þær eru æðislegar!!!
Þetta eru rosalega spennandi tímar, það er óhætt að segja ... !!!
Og svona til að svara Iðunni frænku ...
Ég gat ekki varið mig, maðurinn mætti bara þarna í Man Utd jakka eins og ekkert væri sjálfsagðara ... ég þakka bara Guði fyrir að mér er ekki jafnilla við Man Utd og fyrir nokkrum árum. Þá hefði ég klárlega fleygt karlinum út eða að minnsta kosti rekið hann úr jakkanum!! :D
Páll Jakob Líndal, 9.6.2008 kl. 23:01
Erum við að tala um að það þurfi að senda Syndney Liverpool treyju með hraðpósti???
jökk nauts það er sko ekki dömulegt... þú neyðist víst engu síður til þess að læra smá fótbolta ef þú ætlar að fá að leika við frændasúpuna...
knús frá okkur allra til fallegustu litlu frænku okkar
Sigrun, Nikki og Fúfú (IP-tala skráð) 12.6.2008 kl. 00:28
Best væri að fá Liverpool-búninginn eins fljótt og auðið er ... better is safe than sorry!!
Fótboltaæfingar munu svo hefjast strax í næstu viku, það verður byrjað létt en svo í þarnæstu viku mun prógrammið þyngjast verulega ... við erum náttúrulega að tala um að frændurnir hafa ... tja ... sá yngsti hefur meira en 1,5 árs forskot, þannig að uppbyggingin verður að vera hröð hér í Sydney!!
Fyrsti leikurinn milli frændsystkinanna verður 14. desember nk. kl. 14 í garðinum á Bergstaðastræti!!!
Páll Jakob Líndal, 12.6.2008 kl. 11:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.