Helgin

Þá er þessi helgin yfirstaðin ... en hún var nú bara býsna fróðleg, skal ég segja ykkur ...

Hún byrjaði með leik gegn Stanmore á laugardagsmorguninn.  Undanfari þess leiks var heldur dramatískur hjá mér, því á leiðinni þangað sprakk enn einu sinni á hjólinu hjá mér!!  Og varð ég því að ganga um 4 km leið til að komast á áfangastað, sem er í sjálfu sér ekki mikið mál ef maður hefði haft nægan tíma milli handa.  Því var ekki til að dreifa í þetta skiptið.

Og til að bæta gráu ofan á svart, þá kom ég við á bensínstöð til að dæla í dekkið, bara til að sjá hvort ég gæti ekki nuddast eitthvað pínulítið áleiðis á reiðskjótanum, til að spara svolítinn tíma.  Sú ráðstöfun tókst nú ekki betur en það að þegar ég var hér um bil kominn á áfangastað, áttaði ég mig á því að ég hafði gleymt kortabókinni á stöðinni.  Þá var um tvennt að ræða, að láta bókina um lönd og leið, taka "sjensinn" á því að villast og þurfa svo að splæsa í aðra kortabók eða fara til baka og ná í bókina.  Ég valdi síðari kostinn og þar bættust við 3 km.

Ég, með öðrum orðum, mætti á svæðið 25 mínútum fyrir leik ... og yfirþjálfarinn var ekkert sérlega hrifinn.

Leikurinn tapaðist 3 - 0.  Annar leikurinn í röð sem tapast 3 - 0 og liðið hefur aðeins fengið 4 sig úr síðustu 5 leikjum.

Greinilega er eitthvað mikið að ... og til að bregðast við því skrifaði ég þjálfaranum þriggja blaðsíðna skýrslu um hvað ég teldi að væri að og hvernig ég teldi að ætti að bregðast við því.  Ég fékk fjórar línur til baka þegar sem hann sagðist hafa aðra sýn á málið en ég ...

... það sem er svo undarlegt við þennan þjálfara er að hann telur alls ekki að liðið þurfi að spila fótbolta á æfingum!!  Hann telur líka algjörlegan óþarfa að æfa skot á mark og það hvernig á að klára upplögð marktækifæri.  Hornspyrnur og aukaspyrnur eru heldur aldrei æfðar!

Hann virðist aftur á móti hafa mikla trú á því að halda langa töflufundi þar sem allt er útskýrt í þaula ... hann vill bara að æfa liðið og allar "stragedíur" bóklega ...
Þessir löngu töflufundir bitna svo á þreki og úthaldi liðsins ... 40 mínútna töflufundur, auk 20 mínútna útskýringa úti á velli, á 2 klukkutíma æfingu, er ekki vænlegt til árangurs að mínu viti.

Ég er búinn að sprikla eins og fiskur í neti að reyna að benda honum að fótbolti gengur ekki svona fyrir sig, og þar sem hann ber alltaf fyrir sig að við séum að misskilja hvorn annan, þá var skýrslan á laugardaginn hugsuð til þess að hann vissi nákvæmlega um hvað ég er að tala.  Það er nefnilega ekkert grín að rökræða við innfædda á þeirra eigin tungumáli, sérstaklega þegar þeir vilja ekki skilja mann ...

Jæja, en nóg um þetta ...

Á laugardagskvöldið fórum við Lauga á prýðilega tónleika í St. Andrew´s Cathedral, sem er niður í bæ og hlustum þar á Sydney University Musical Society flytja Mozart Requiem og tvær óratoríur eftir Handel.  Þetta voru fyrstu tónleikarnir sem við förum á hérna í Sydney, þar sem klassísk tónlist er á boðstólnum.  Það var mjög gott að upplifa það aftur, maður hefur aðeins saknað þess, en miðar í óperuna hérna eru náttúrulega bara grín, slíkt er verðlagið!!
Þar er enginn nemendaafsláttur gefinn ef maður er erlendur nemandi ... hversu gáfulegt er það nú eiginlega??? Og engir hræódýrir miðar eru í boði, þar sem maður getur staðið einhvers staðar upp í rjáfri og fylgst með ... nei nei ...

Váá ... þetta er nú meira kvartið í mér!!! 

Í gær fórum við á World Press Photo Exhibition á State Library, og sáum helstu fréttaljósmyndir síðasta árs.  Mér fannst myndin af Benazir Bhutto nokkrum sekúndum áður en hún var myrt, vera ótrúlega sterk.  Hún veifandi til fólksins og allir í sjönunda himni, og svo bara "búmm" ...

Við fórum á kaffihús á eftir.

Um kvöldið hittum við Nick og Rósu.  Skruppum á Wood & Stone og fengum okkur pizzu, mjög gaman að því.  Þau voru fjallhress að handa.  Nick nýkominn frá því að horfa á leik Ástralíu og Íraks í fótbolta, sem Ástralir unnu 1 - 0.  Rósa var aftur á móti að koma úr atvinnuviðtali ...

Svona eru athafnir mannanna misjafnar!!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég trúi því varla að þú hafir ekki farið í óperuna! Hvað kosta eiginlega miðarnir???

Dagrún (IP-tala skráð) 2.6.2008 kl. 11:07

2 Smámynd: Páll Jakob Líndal

Já, þetta er ótrúlegt ... en þegar ég hef tékkað á miðaverði í óperuna hafa ódýrustu miðarnir verið á kringum $100 á mann, þannig að maður er að tala um $200 pakka (kringum 15.000 ÍSK), sem er verð sem ég er ekki almennilega að ráða við í augnablikinu ... :/

Núna er ég náttúrulega að tala um miðaverð á alvöru "hardcore" óperur en ekki eitthvað "söngleikjabull" :)

Páll Jakob Líndal, 3.6.2008 kl. 04:13

3 identicon

Greyið strákarnir hljóta að vera að drepast úr leiðindum á þessum æfingum. Töflufundir og fyrirlestrar um strategíur er ekki beint til að efla áhuga 14 ára peyja á fótbolta! Þriggja blaðsíðna skýrslan hefur örugglega verið áhugaverð lesning

Stjóri (IP-tala skráð) 5.6.2008 kl. 04:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband