27.5.2008 | 12:44
Eftirstöðvar Eurovision
Þessa dagana glími ég við erfitt vandamál ... sem gæti kallast "eftirstöðvar Eurovision" og lýsir sér með þeim hætti að íslensk Eurovision-lög sækja grimmt á mig.
Það er ekki heilbrigt þegar maður syngur "Eitt lag enn" nánast út í hið óendanlega, svona á milli þess sem gripið er í valdar línur úr "Gleðibankanum" og "All out of luck" ...
... "syndir þínir sem þú aldrei drýgðir, sitj´ í bankanum (dudududu), óútleystur tékki í Gleðibankanuuuuummmm" ...
Lauga er búinn að segja við mig að hún brjálist ef ég hætti ekki að syngja "Gleðibankann" ... en af einhverjum ótrúlegum ástæðum, finnst henni lagið alveg tryllingslega leiðinlegt. "Hægt og hljótt" er líka á bannlistanum hjá henni.
Þessi bönn eru mjög sérstök fyrir hana, því yfirleitt er hún með eindæmum umburðarlynd og víðsýn!!
En það er ekki allt búið enn, því stundum skjóta upp kollinum glefsur úr "Open your heart" og "Þú og þeir" eða "Sókrates" eða hvað þetta lag heitir nú eiginlega ...
... "og John Wayne, og Mark Twain og þig og Michael Caine!!!" ...
Hin sívinsæla "Nína" er líka á efnisskránni hjá mér, sem og "Ég les í lófa þínum". Það er nú reyndar allt í lagi að hafa þessi tvö síðastnefndu á heilanum, enda snilldarlög bæði tvö ...
... það besta var að í gær, þegar ég hlustaði á Eika töffara Hauks á youtube.com, þá loksins heyrði hvað hann sagði ... ég verð að taka það sérstaklega fram að ég hef alltaf verið ótrúlega lélegur í að greina orðaskil í lagatextum, en það er nú annað mál ...
... "ég ætla að fara alla leið, með ást á móti sorg og neyð, ég fæ aldrei nóg, ég vil fara burt með þér og fljúga yfir lönd og sjó" ... þvílík snilld!!!
Í þessum Eurovision-vandræðum mínum, eru þó ljósir punktar, því hvorki "Sjúbídú" né "Nei eða já" hafa verið að plaga mig. Ég hef líka alveg látið vera að feta í fótspor Two Tricky sem fluttu lagið "Angel" eða "Birta", eins og það hét á íslensku. Ég hef einnig verið blessunarlega laus við nærveru Daníels Ágústs og hins yndislega lags Valgeirs Guðjónssonar, "Það sem enginn sér".
Ég man enn eftir Eurovision-kvöldinu árið 1989, þegar Ísland fékk "eggið" (0 stig) ... þá var ég staddur á hóteli í Kaupmannahöfn og hló mig máttlausan.
Það fór lítið fyrir þjóðrembunni það kvöldið ... fussss ... !!!
Athugasemdir
Ég skil vandræði þín því ég hef sjálf þjáðst af sambærilegum eftirköstum Eurovision undanfarna daga. Mín eru þó frábrugðin þínum að því leyti að í stað gömlu "góðu" íslensku laganna þá vakna ég með lög úr keppninni núna á heilanum, gjarnan nýtt lag í hvert skipti sem ég vakna, og því miður er lagaúrvalið alveg óháð gæðum þessara laga. Þetta getur skiljanlega verið ansi hvimleitt fyrir ólétta konu sem vaknar mörgum sinnum á nóttu, enda ekki hægt að slökkva á útvarpsstöð heilans og afskaplega erfitt að skipta um stöð. Ég hef þó prísað mig sæla með að hafa ekki enn þurft að upplifa þau ósköp að vakna með sigurlagið á heilanum, sem mér finnst með eindæmum leiðinlegt, og eins er ég bara nokkuð ánægð með að norska lagið fær hlutfallslega meiri spilun á þessari innri útvarpsstöð en önnur lög. Mér þykir það nefninlega bara alveg ágætt...
Helga Guðrún (IP-tala skráð) 27.5.2008 kl. 16:34
Þetta vandamál hljómar mjög alvarlegt!! Að þurfa að glíma við það á nóttunni líka er náttúrulega tekur náttúrulega steininn úr ...
Já, þau eru víða vandamálin ... :)
Páll Jakob Líndal, 28.5.2008 kl. 00:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.