21.5.2008 | 13:27
Tekið við viðurkenningu
Jæja, þar kom að því ... loksins ...
Já, loksins, fær maður viðurkenningu fyrir vel unnin störf ...
Í kvöld tók ég á móti Jean & Andrew Wong Research Scholarship, veittur er til afburðanemenda á sviði rannsókna í Faculty of Architecture, Design & Planning í University of Sydney.
Hófið var haldið í þeirri álmu aðalbyggingarinnar háskólans sem heitir MacLaurin Hall og hófst stundvíslega upp úr kl. 5.30 í kvöld.
Um klukkutíma tók að úthluta öllum þeim styrkjum og viðurkenningum sem í boði voru, þannig að maður baðaði sig heldur stutt í sviðsljósinu að þessu sinni. En ég er sáttur ... fékk ágæta summu í vasann eða 7.000 dollara. Sannarlega betra en ekkert á þessum víðsjárverðu tímum í íslenskum efnahagsmálum.
Lauga mætti að sjálfsögðu líka ... með myndavélina í farteskinu ...
Og nú ætla ég bara að láta ljós mitt skína og birta myndasúpu, já ... eða fjórar myndir frá þessu öllu saman ...
Hugsið ykkur hvað tæknin er ótrúleg ... þetta var bara að gerast fyrir nokkrum klukkutímum og nú eru myndirnar af athöfninni komnar til Íslands ... já, þetta er alveg ótrúlegt ...
Mættur til leiks í MacLaurin Hall
Og þarna er maður uppstilltur fyrir myndatöku ásamt þeim Richard Hyde prófessor og hinum nepalska Amit Bhattarai, en við deildum styrknum á milli okkar
Sáttur með viðurkenninguna
Kominn heim og búinn að lesa á skjalið
Ég hef aldrei fengið viðurkenningu fyrir námsárangur fyrr, þannig að það er ný og skemmtileg reynsla, sem má vel venjast.
En ég verð þó að nefna það hér að ég hef fengið verðlaun eða viðurkenningu, sem ég held að fáir geti leikið eftir ... en það var fyrir að vera langafabarn langafa míns ... (!)
Já, góðir hálsar ... þegar ég útskrifaðist úr Menntaskólanum á Akureyri árið 1994, með ömurlegum vitnisburði, móður minni til sárra vonbrigða, átti ég síst af öllu von á að vera leystur út með gjöf á útskriftardeginum.
En kraftaverkin gerast, því þegar Tryggvi Gíslason skólameistari afhenti mér einkunnarspjaldið, rétti hann mér líka innpakkaða í sellófan með rauðri slaufu, "Sögu Menntaskólans á Akureyri 1880 - 1980" í þremur bindum, með þeim orðum að ég væri barnabarnabarn Stefáns Stefánssonar fyrrum skólameistara og ætti þetta því skilið. Ég er ekki frá því að það hafi farið kliður um þéttsetna Íþróttahöllina í kjölfarið ...
Ég var nærri dottinn niður af sviðinu af undrun ... var samt alveg sáttur og tók við gjöfinni ...
Stuttu síðar var stórvinur minn Steinþór Heiðarsson kallaður upp á svið og Tryggvi tilkynnti að hann væri dúx skólans þetta árið. Stúdentseinkunn hans var minnsta kosti þremur heilum hærri en mín ... og hvað fékk Steini?
Jú, hann fékk "Sögu Menntaskólans á Akureyri 1880 - 1980" í þremur bindum!!! En fékk hann líka gull- eða silfuruglu, sem er heiðursmerki skólans ...
... ég er ennþá 14 árum síðar að velta fyrir mér af hverju ég fékk ekki líka uglu ... !!!
Athugasemdir
Til hamingju með styrkinn!! (Og svona eins og til að undirstrika það allt vill svo skemmtilega til að verið er að spila Kiss í útvarpinu einmitt þegar ég skrifa þetta. Hvað væri betur við hæfi?)
Helga Guðrún (IP-tala skráð) 21.5.2008 kl. 15:26
Til hamingju með þetta. Spái því að þetta sé fyrsta viðurkenningin af mörgum. Þú ert nefnilega óvitlaust, merkilegt nokk.
Frex (IP-tala skráð) 22.5.2008 kl. 08:09
Til hamingju með þetta, glæsilegt. Passaðu þig nú að eyða þessu ekki í tóma vitleysu!
Stjóri (IP-tala skráð) 23.5.2008 kl. 02:54
Jaaaa ... það er ekki hægt annað en að þakka fyrir góðar kveðjur!!
Ég veit að Frexinn er spámannlega vaxinn og ef hann segir að maður fái fleiri verðlaun er næsta víst að maður verður sveipaður verðlaunum í bak og fyrir í framtíðinni ... Takk kærlega fyrir spána!!!
Peningunum verður ekki eytt í vitleysu ... það er allt komið inn á bók nú þegar og hafi ég einhvern tímann verið nirfill, þá slæ ég allt út núna ... þverneitaði Laugu um ís, eftir athöfnina á miðvikudaginn á þeim forsendum að ís væri seldur á okurverði í þessu landi og ég tæki ekki þátt í svoleiðis vitleysu!!!
Að KISS spili í útvarpinu á sama tíma og Helga skrifar athugasemd á bloggið mitt til að óska mér til hamingju með styrkinn, styður þær hugmyndir mínar að heimurinn snúist leynt og ljóst um mig og að gera mér til hæfis með einhverjum hætti ... samanber hugmyndir um andhverfu-ofsóknarbrjálæði sem ég fjallaði um, um daginn hér á síðunni ...
En aftur kærar þakkir fyrir hamingjuóskirnar!!!
Páll Jakob Líndal, 23.5.2008 kl. 08:48
Sæll Bobbi minn.
Innilega til hamingju með þennan árangur, stórglæsilegt.
Einnig bað hún amma mín mig að skrifa hérna nokkrar línur til ykkar í sambandi við eyrnalokkana sem Lauga er að búa til, Amma gaf mér slíka í sumargjöf.
En já ég verð bara að segja að ég er mjög sátt með þá, og lauga mín, æðislega vel gert hjá þér.
Svo er komin lokaniðurstaða á þessa blessuðu ástralíuferð hjá mér.. hehe..
Ég er ekki að fara neitt. Buddan hálf tóm og svona og ég tók þá ákvörðun að klára stúdentinn alveg fyrst og ekkert vesen. Stutt í stúdentinn, þannig það er stutt í það að maður hafi hellings tíma í að ferðast og gera eitthvað skemmtilegt.
Bestu kveðjur..
ErnaGuðrún St.
ErnaGuðrún St. (IP-tala skráð) 23.5.2008 kl. 21:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.