17.5.2008 | 13:53
Laugardagurinn 17. maí
Hefur einhver sem les þessa síðu smakkað Inca Kola - the Golden kola?
Þetta er alveg stórmerkilegur drykkur ... gulur á lit, eins og sjá má á myndinni hér að ofan. Á uppruna sinn að rekja til Perú, en þar er hann feykivinsæll!!
Satt að segja er ég ekki að skilja æðið fyrir þessum drykk, því hann bragðast eins og slæm "mixtúra" ...
Við Lauga fórum ásamt Rósu og Nick á perúskan veitingastað í kvöld ... alveg prýðilegur matur þar ... mjög mikið öðruvísi, en góður enga að síður.
Þessi "dinner" var í framhaldi af ferð okkar á "bowling"-stað, nánar tiltekið AMF Bowling Club í Randvick.
Alltaf stuð að "bowla" ... ég byrjaði feikilega vel, setti niður 5 fellur í röð eða eitthvað álíka. Var kominn með 100 stig eftir 5 umferðir. Þá fór heldur að halla undan fæti en ég vann þó leikinn með 135 stigum, sem þýðir að ég fékk 35 stig í seinni 5 umferðunum.
Merkilegt hvað maður er alltaf góður í að "bowla" alveg þangað til maður ætlar að fara að vanda sig ... þá fer allt í handaskol og raunveruleg geta kemur í ljós!!
Annars vaknaði ég fyrir 7 í morgun, og tók að undirbúa mig fyrir leik dagsins, sem var gegn Blacktown Spartans. Ég var mættur niður á "Central" rétt fyrir 8 til að taka lestina til Blacktown, sem tekur um eina klukkustund.
Blásið var til leiks kl. 10.15 ... og þvílíkur leikur ...
Sjaldan hef ég séð aðra eins misnotkun á dauðafærum eins og hjá þessu blessu Blacktown-liði, þeir bókstaflega óðu í færum ...
Mínir menn komust þó yfir 1-0 þvert gegn gangi leiksins, en Blacktown komu loks blöðrunni í netið 5 mínútum síðar. Svo í síðari hálfleik ... hvert færið á fætur öðru rann út í sandinn hjá Blacktown ... þeim tókst að brenna af á marklínu ... ótrúlegt. Loks kom þó að því að þeir skoruðu.
En þá kom að þætti Millsy, en hann er einn liðsmanna minna ... sá lét sig ekki muna um að skora tvö mörk fyrir okkur á 3 mínútna kafla og við unnum leikinn 3-2. Þetta eru sennilega ósanngjörnustu úrslit sem ég hef nokkurn tímann séð ... en það er ekkert spurt að því!! Hér eru mörkin í dag ef einhver hefur áhuga á þeim.
Þegar ég kom heim, var Dísa í heimsókn hjá Laugu, en Dísa er íslensk stelpa(!), sem hefur dvalist hér í Sydney síðan í nóvember. Hún er að fara heim á morgun og verður að eigin sögn mætt á eyjuna fögru í norðri um miðjan dag á mánudaginn.
Hún var sum sé að láta sjá sig áður en hún hverfur á braut. Við skruppum á Wood & Stone og fengum okkur pasta af því tilefni ... það verður því einum Íslendingnum færra hér í Sydney á morgun ...
Annars er ekki laust við að maður öfundi hana svolítið núna að vera að fara heim í íslenska sumarið. Ég neita því ekki að ég sakna þess alveg rosalega ... birtan, fuglarnir, íslenska náttúran, kyrrðin upp í Borgarfirði ...
Í mínum huga hér í Ástralíu er alltaf gott veður á Íslandi á sumrin!!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.