Jarðskjálftinn í Sichuan

Í gær reið svakalegur jarðskjálfti yfir Kína, 7,9 stig á Richter og gríðarlegur fjöldi fólks liggur í valnum og þúsundir eru týndar, gafnar undir rústum ...

... þegar ég sá þessa frétt í gær, þá satt að segja kippti ég mér ekkert sérstaklega upp við þessi tíðindi, því eins og Andrés oddviti í Djúpavogshrepps sagði í góðri færslu á blogginu sínu um daginn, það er ekki sama hvar menn deyja.  Fréttaflutningur er slíkur að hörmungar og blóðsúthellingar í fjarlægum löndum eru daglegt brauð og maður hálfpartinn gleymir því að bak við þessa ógæfu er fólk af holdi og blóði, rétt eins og ég sjálfur, fjölskylda mín og vinir.

Vinir??  Sagði ég vinir??  Já, ég gerði það ... en það var ekki fyrr en í dag(!) að ég áttaði mig á því að ég á vini frá Sichuan-héraði í Kína!!  Og meira að segja deilir einn slíkur með mér skrifstofu í skólanum!!  Það hefur verið reynt að ná tali af honum en hann hefur ekkert svarað ... en ég þykist vita fyrir víst að hann sjálfur er hér í Sydney núna.  Hins vegar eru kona hans og barn í Sichuan.  Foreldrar, ömmur og afar, frændur og frænkur ... allt þetta fólk er í Sichuan ... og býr rétt hjá upptökum skjálftans!!  Hugsaðu þér, lesandi góður, skelfinguna sem hefur gripið um sig hjá þessum vini mínum, þegar hann heyrði tíðindin.  Á sumum svæðum hrundu allt að 80% bygginganna ... 

Mér finnst það stundum alveg ótrúlegt hvað maður er sjálfhverfur ... hvað maður lætur sig hlutina litlu varða ... alveg þar til þeir snerta mann með beinum hætti.  Maður er kaldur eins og ís ... rétt tímir að gefa einhverja hungurlús í bauk til styktar fólki sem er við dauðans dyr og telur sig þar með hafa kvittað sig út.  Ég var mig ekki lítið góður þegar ég gaukaði nokkrum krónum til UNICEF til hjálpar fórnarlömbum fellibyljarins í Búrma ... ég forðaðist að hugsa um það meira, því ég sá eftir peningnum!!

Hugsunarháttur minn er stundum yfirþyrmandi og óhugnarlegur ...

Ekki það að ég ætli að fara að taka vandamál heimsins inn á mig, það er ekki á færi nokkurs manns að gera það og er beinlínis ekki hollt.  En það má á milli sjá!!!  Það er langur vegur frá því að vera nánast sama og yfir í taka allt inn á sig og geta ekki á sér heilum tekið ... sumt fólk gerir það af heilum hug ... ég hinsvegar ... þykist sýna samúð, það er holur hjómur í þessu hjá mér! 

En hvað sem því líður, þá er svo mikið víst að ég þarf taka mig allsvakalega saman í andlitinu ... mér finnst þetta ekki ná nokkurri átt, hvernig ég haga mér!!!

Og takið hvað hefur gerst hérna ... sjálfhverfan tók aftur völdin, færslan átti að vera um jarðskjálftann í Sichuan, heiti færslunnar er "Jarðskjálftinn í Sichuan", meirihluti hennar er hins vegar um sjálfan mig!!  Ég er með allt niður um mig ... á langt í land!!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband