10.5.2008 | 12:32
Micromanagement ...
Vááá ... hvað það var gott að ljúka við uppkastið af EDRA-fyrirlestrinum seint í gærkvöldi, senda það í yfirlestur, fara heim og spjalla við Laugu til klukkan 2.30 í nótt, fara svo að sofa og vakna í morgun áhyggjulaus!!
Við Lauga ætluðum að fara í ferjusiglingu um Sydney-höfnina í dag, en aldrei þessu vant var ég svo assgoti latur að ég lét tækifærið renna úr höndunum á okkur ...
Þess í stað ræddum við Lauga um alveg rosalega áhugaverða hluti eins og "micromanagement", "double bind" og kaupmála milli hjóna.
Því miður veit ég ekkert hvað "micromanagement", er kallað á íslensku, en þetta er alveg ótrúlega merkilegur stjórnunarstíll sem mjög margir nota. Fórnarlömb hans er þó miklu fleiri.
Í mjög stuttu máli kallast það "micromanagement" þegar stjórnendur anda ofan í hálsmálið á starfmönnum sínum daginn út og inn, eru mjög smámunasamir og ósveigjanlegir, tregir til breytinga og telja að þeir viti allt mest og best ... sem sagt mjög óþolandi fyrir þá sem fyrir því verða ...
Ástæða þess að við vorum að tala um þetta er að ég hef upp á síðkastið verið fórnarlamb svona stjórnunarhátta ... og það í tengslum við þessa fótboltaþjálfun sem ég er að fást við ... já, góðir lesendur í stað þess að fá reynslu í að þjálfa fótbolta, þá er ég að fá miklu meiri reynslu í að takast á við erfiðan yfirmann.
Ég hef litið á þetta sem stórkostlegt tækifæri til að bæta samskiptatækni mína og í dag var lukkan með mér þegar ég loksins fann út fyrirbærið "micromanagement". Skyndilega opnast Sesam og spilin lágu á borðinu beint fyrir framan mig. Það er bara svo æðislegt þegar svoleiðis hendir mann ... þegar svona "Eureka!" á sér stað.
Við Lauga fórum því seinni partinn niður í bókaverslunina Borders, sem er í Sky Garden-mollinu við Pitt Street og ég keypti mér æðislega bók, sem heitir "My Way or the Highway - The Micromanagement Survival Guide". Málið er nefnilega að ég ætla að nýta mér tækifærið út í ystu æsar, og fá eins mikla reynslu í samskiptum og ég get, út úr þessum núningi sem er á milli mín og þjálfarans. Það er hægt að lesa um "micromanagement" hér.
Og svona til að loka færslunni ... þá er "double bind" merkilegt hugtak sem komið er frá mannfræðingnum Gregory Bateson, og fjallar um aðstæður í samskiptum, þar sem skilaboð eru mjög óræð og mótsagnakennd. Þetta hugtak er talið tengjast "mircomanagement" í sumum tilfellum.
En ég ætla svo sem ekkert að fara neitt meira út í það ... en hægt er að lesa meira hérna.
Ég ætla svo einhvern tímann seinna að skrifa um kaupmála ...
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.