1.5.2008 | 22:49
1. maí, Yufang og Lama
Ég vil byrja þessa færslu mína á því að óska verkalýð heimsins, og þá sérstaklega þeim íslenska, til hamingju með daginn ...
Hér í Sydney varð ég nú ekkert sérlega var við að verkalýðurinn hópaðist saman og krefðist úrbóta ...
Allavegana ... dagurinn góður í dag. Ég hélt áfram að skrifa fyrirlesturinn og nú er hann farinn að taka á sig mynd. En hann á eftir að verða betri, svo mikið er ljóst.
Terry aðstoðarleiðbeinandi minn var alveg himinlifandi þegar ég sagði honum frá innihaldi fyrirlestursins, og hvernig ég ætla að byggja upp minn rökstuðning ... "This is terrific!!", sagði hann orðrétt!!
Í hádeginu skruppum við Lauga, ásamt hinni hollensku Karin, á tailenskan veitingastað í Newtown, þar sem hægt er að fá virkilega góða og stóra máltíð fyrir $6 eða svona 400 ÍSK. Við Lauga höfum nokkrum sinnum farið á þennan stað og maturinn er frábær! Ég man bara ekki hvað hann heitir í augnablikinu ... ekki það að það skipti neinu sérstöku máli ...
Klukkan fjögur var svo meiningin að fara að hlusta á fyrirlestur hjá Yufang, kínverskri stelpu sem er að stúdera áhrif birtu á vinnuframlag fólks, en því miður gaf ég mér ekki tíma þegar á hólminn var komið ... en hún hefur örugglega staðið sig vel. Þetta er mjög klár stelpa, sem síðastliðið haust var valin í móttökunefnd hér í Sydney þegar forseti Kína Hu Jintao kom ásamt fríðu föruneyti.
Það ku vera afskaplega mikill heiður fyrir Kínverja að hitta blessaðan forsetann, eða eins og hún sagði við mig þá: "Kínverjar eru svo margir að líkurnar á að hitta forsetann einhvern tímann á lífsleiðinni eru mjög litlar, ég er því mjög heppin ... ég fæ meira að segja að borða með honum!!!"
Kvöldinu varði ég svo í að skrifa pistil fyrir Sumarhúsið og garðinn ...
Hún Auður vinkona mín, ritstjóri Sumarhússins, sú sama og heldur stórsýninguna Sumarið (ártal) á hverju ári, bað mig í vetur, þegar ég var heima á Íslandi um að halda úti dálki í blaðinu, sem heitir Pælingar. Þar fæ ég að láta gamminn geisa um eitthvað sem mér finnst skemmtilegt og spennandi, ... og það er náttúrulega alveg rosalega gaman!
Næsta blað er að fara í prentun á allra næstu dögum, þannig að ég hef ekki mikinn tíma til að skrifa þessar pælingar ... og stefni á að klára þær á morgun ...
Á mbl.is sá ég svo frétt um að Dalai Lama er áhrifamesti einstaklingurinn að mati tímaritsins Time ... Já, ... Dalai Lama hefur skipað mjög sérstakan sess í hjarta mínu eftir að Múrenan og spúsan héldu til fundar við "His Holiness The 14th Dalai Lama of Tibet", þann 15. júní sl. Í stuttu máli minnir hinn sískríkjandi Lama mig helst á ausandi rigningu og veikindi hjá Laugu, en hún lagðist mjög eftirminnilega í rúmið eftir fundinn. Hér má lesa færsluna sem skrifuð var eftir fundinn.
Svo mörg voru þau orð í þetta skiptið ...
Athugasemdir
Ekki slæmt að fá "This is terrific" einkunn fyrir innihald og rökstuðning! Glæsilegt. Svo bíður maður bara spenntur eftir næstu pælingum frá Ástralíu í Sumarhúsinu og garðinum...
Stjóri (IP-tala skráð) 2.5.2008 kl. 02:25
Bobbi þú ert svo dásamlega energískur ég fæ bara aukinn kraft við að lesa af vel skipulögðum dögum þínum...sem samt hljóma svo dásamlega skemmtilegir.
kær kveðja
Sigrún
sigrún frænka (IP-tala skráð) 2.5.2008 kl. 08:59
Kærar þakkir fyrir góðar kveðjur ... og það er gott ef fólk fær kraft við lesa færslurnar ... þannig á það náttúrulega að vera!!!
Páll Jakob Líndal, 4.5.2008 kl. 03:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.