19.4.2008 | 16:02
Doktor, teppi, afmæli
Þessa dags 19. apríl 2008 verður sérstaklega minnst fyrir þrennt ...
Þetta er dagurinn sem ég gat óskað Halldóri vini mínum til hamingju með útskriftina. Hann lauk í gær doktorsprófi frá Háskóla Íslands, en tók ekki við símatali frá Ástralíu þann daginn, heldur beið með það þar til í dag.
En hvað sem því líður, þá getur hann með réttu kallast Dr. Dóri og það er ekki lítill áfangi.
Ég sendi honum hér með opinberlegar hamingjuóskir með árangurinn: Til hamingju, Dr. Dóri!!
Í dag voru ermarnar líka brettar upp heima fyrir, því við Lauga röltuðum út í Coles og leigðum þar teppahreinsivél, alveg eldhressa.
Við vörðum stórum hluta dagsins í að hreinsa teppin í íbúðinni, og það verður að segjast eins og er að ekki var nú vanþörf á því. Sjaldan hefur maður séð jafn grútskítugt vatn og það sem safnast fyrir í affallstanki vélarinnar.
Og það sem betra var ... árangurinn var eins og í auglýsingunum, sem auglýsa hreinsiefni og þvottalög. Maður renndi bara eina ferð yfir og dökkbrúni liturinn varð ljósbrúnn ... hreint ótrúlegt!
Við höldum að loftið í íbúðinni sé líka allt annað en áður, en getum ekki verið alveg viss, því við erum bæði með stíflaðar nasir, ... svona létta útgáfu af kvefi ... sennilega það besta sem hefði mögulega getað hent okkur, geri ég ráð fyrir. Í það minnsta minnir það mann á hversu ánægður maður getur verið að vera ekki alltaf með stíflaðar nasir!
Í þriðja lagi fórum við í afmælisveislu til James, vinar okkar í kvöld. Það var þrítugsafmæli hjá honum og sæmilega margt um manninn ... í það minnsta var góðmennt hjá honum.
Við vorum alltént mjög ánægð með veisluna.
Mig langar til að velta einni spurningu upp í lokin ... og hún er svona:
Ef maður er kona og heitir Leilei og er gift manni sem heitir Lei, er það þá hrein snilld að skíra barnið sitt Leih eða ber það vott um óendanlega gelt ímyndunarafl?
Athugasemdir
Mikið væri nú gaman að geta droppað inn í kaffi til ykkar og séð "nýju" íbúðina ykkar og deilt með ykkur afgöngum af brownies úr veislu Dr. Dóra.
Varðandi nafnaspurninguna þá er nú alltaf gott að hafa reglu á hlutunum. Þau ættu amk að muna nafnið á barninu.
Helga Guðrún (IP-tala skráð) 22.4.2008 kl. 19:26
Tek undir að gaman væri að fá ykkur í heimsókn, og ekki slæmt að fá nokkrar Dr. Dóra-brownies í kaupbæti.
Annars finnst okkur hérna megin að þið getið vel bara hoppað upp í flugvél fljótlega og heimsótt okkur ... það er alltaf rjúkandi á könnunni, það er ekki málið.
Vissulega athyglisverður punktur varðandi nafngiftina á barninu, ég hafði aldrei hugsað út í praktísku hliðina ... auðvitað hafa þau bara skírt barnið sitt Leih til að muna nafnið auðveldlega!! Og það er náttúrulega hrein snilld!!!
Páll Jakob Líndal, 23.4.2008 kl. 00:13
Kærar þakkir fyrir hamingjuóskirnar! Ykkar var náttúrulega sárt saknað á þessum merkisdegi en maður fær víst ekki alltaf allt sem maður vill. En það var frábært að fá Drottninguna sjálfa (GJ) í heimsókn um kvöldið!
Það er aldrei að vita nema við kíkjum í kaffi við tækifæri og kippum þá nokkrum brownies með okkur.
Leilei+Lei = Leih. Þetta finnst mér bera vott um að hugsa rækilega út fyrir rammann...hvaðan kemur h-ið?
Dr. Dóri (IP-tala skráð) 23.4.2008 kl. 04:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.