11.4.2008 | 07:22
Andhverfu-ofsóknarbrjálæði
Það er alveg stórmerkileg bók, sem ég er, þessa dagana að grípa í ... þetta er bók sem margir hafa sjálfsagt heyrt um.
Þetta er bókin "Hámarksárangur" og er eftir Brian Tracy.
Fyrir um 10 árum keypti ég mér þessa bók og byrjaði að lesa hana, en gafst fljótlega upp, því mér fannst ekkert vit vera í henni. Um jólin síðustu, þegar ég var á Íslandi rak ég augun í bókina uppi í hillu og ákvað að kippa henni með mér til Sydney.
Hvort það er vísbending um vitsmunalega framför eða afturför, þá er allt annað upp á teningnum núna, þegar ég les hana, því skoðanir mínar og þankagangur ríma ótrúlega vel við hugmyndir Tracys. Þetta steinliggur allt saman.
En það er líka margt í bókinni sem er nýtt fyrir mér ... til dæmis það þegar Tracy nefnir mann, sem ég man ekki hvað heitir í augnablikinu, enda skiptir það engu máli, sem hefur komið sér upp "andhverfu-ofsóknarbrjálæði" ... ég skrifa það aftur "andhverfu-ofsóknarbrjálæði"!!
Hvernig er hægt að koma sér upp "andhverfu-ofsóknarbrjálæði"??
Hvað er "andhverfu-ofsóknarbrjálæði" fyrir það fyrsta??
Flestir vita hvað ofsóknarbrjálæði er ... en það er þegar einhver heldur að allur heimurinn sé leynt og ljóst að vinna gegn sér.
Andhverft ofsóknarbrjálæði er andstæða þess ... eða það að einhver heldur að heimurinn sé leynt og ljóst að vinna með sér.
"Andhverfu-ofsóknarbrjálæði" er því algjör snilld og síðustu vikur hef ég verið alveg brjálæðislega "stökk" í því og unnið hart að koma mér upp einu slíku!
Og niðurstaðan er að ég hef verið ótrúlega jákvæður og tek öllu sem hendir mig fagnandi ... þetta er bara spurning um afstöðu, hugarfar eða hvað maður á eiginlega að kalla það.
Til dæmis, þegar dekkið á hjólinu mínu sprakk um daginn, þurfti ég að ganga 8 km til að koma því heim og ég varð himinlifandi!!
Í stað þess að hugsa: "Dauði og djöfull, helvítis dekkið sprungið ... er þetta ekki alveg týpískt og ég úti helvítis rassgati. Andskotinn, ég hef sko engan tíma fyrir þetta ... ég er óheppnasti maður í heimi o.s.frv. ..." þá hugsaði ég "rosalega er ég heppinn að geta gengið, og það fá að ganga núna er algjörlega það besta sem hefði getað komið fyrir núna!! Þvílík heppni!!" Svo rölti ég bara heim með hjólið "undir hendinni", skoðaði mannlífið, hugsaði um doktorsverkefnið mitt, svaraði nokkrum spurningum í huganum sem ég hef ekki haft tíma til að hugsa um og fleira og fleira ...
Þannig að ef þú ert í stuði, þá ættirðu að prófa "andhverfu-ofsóknarbrjálæði"... þetta er skemmtilegt og kostar ekki krónu!!!
Athugasemdir
Andhverfu-ofsóknarbrjálæði... bara snilld!!!
Helga Guðrún (IP-tala skráð) 11.4.2008 kl. 19:36
já Bobbi það verður ekki annað sagt um þig en að þú sért höfuðsnillingur
Sigrún (IP-tala skráð) 15.4.2008 kl. 22:15
Ég laut höfði í eina mínútu eftir að hafa lesið síðari athugasemdina ... kærar þakkir!!
Páll Jakob Líndal, 16.4.2008 kl. 02:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.