Melbourne - Dagur 2

Eftir dásamlegan svefn, vöknuðum við upp úr kl. 9.00.  Það var mjög erfitt að koma sér fram úr þennan morguninn, því sængurfötin voru svo mjúk og rúmdýnan svo þægileg.  En það hafðist samt fyrir rest.

Bev frænka beið okkar þolinmóð, tilbúin til að taka til morgunverðinn, sem í þetta skiptið samanstóð af ristuðu brauði, tei, ávöxtum, skinku og soðnum eggjum.  Alveg frábært.
Stuttu eftir að borðhaldið hófst, birtist barnabarn hennar, sem mér reynist fullkomlega ómögulegt að muna hvað heitir.  Eftir að hafa meðtekið gestina frá Íslandi, tók sú stutta til óspillra málanna, sagði sögur, brandara, sýndi töfrabrögð og fór í feluleik.

Upp úr 11-leytinu bjuggum við Lauga okkur undir að kveðja þetta fimm stjörnu hótel, því næstu nótt skyldi varið á City Centre Hostelinu á Little Collins Street.  Bev frænka keyrði okkur á brautarstöðina og leysti okkur út með gjöfum, bangsa handa afkomandanum og páskakanínum úr súkkulaði.

IMG_4895
Lauga og Bev frænka

Dagskráin þennan daginn hjá okkur Laugu var fremur einföld í sniðum.  Einfaldlega að fara niður í Albert Park og vera þar þangað til um kvöldið.
Ástæða þess var auðskiljanleg.  Við áttum miða á Formúlu 1 kappaksturinn, sem þar átti að fara fram, og að honum loknum voru tónleikar með KISS.


Þarna er ég og dagskrá dagsins

Það var alveg myljandi hiti þegar við stigum út úr sporvagninum við Albert Park skömmu fyrir eitt-leytið, og sól skein í heiði.  Hvaðanæva dreif fólk að ... ekki nokkur spurning að hér var um stóratburð á ræða.  Enda kom síðar á daginn að yfir 100.000 manns voru á svæðinu.

Strax eftir að miðarnir okkar höfðu verið klipptir, tókum við að leita að sölubás, þar sem vænta mátti að eyrnatappar væru til sölu.  Það gekk greiðlega, en í beinu framhaldi var ekki komist hjá því að finna sölubás með drykkjarvöru.  Ekki fannst hann nú en þess í stað kranar, þar sem hægt var að nálgast frítt vatn.  Í næsta nágrenni var einnig hægt að komast í úðaviftur, en í þeim var mögulegt að fá framan í sig góðan blástur og mjög fíngerðan úða.  Alveg geysilega svalandi.


Lauga og úðaviftan

Við ákváðum að finna okkur heppilegan stað til að horfa á kappaksturinn og gengum því yfir þveran garðinn, sem er umtalsverð vegalengd, verð ég að segja.  Hitinn og sólskinið var þrúgandi.  Undir hverju tréi og hverjum vegg sat fólk í skjóli fyrir sólinni.  Þorstinn leitaði á mann í hverju skrefi.  Vatnsbirgðirnar voru fljótar að hverfa, en nú voru góð ráð dýr því enginn krani og enginn sölubás var í sjónmáli. 


Lauga í sjóðheitum Albert Park að skrælna úr þorsta

Loks komum við að veitingatjaldi, þar sem boðið var upp á drykki á "sanngjörnu" verði ... $5 eða um 360 kr. fyrir hálfan lítra af Sprite.  En hvað var hægt að gera í stöðunni, kverkarnar voru að skrælna.  Maður hefði glaður borgað $20 ef óskað hefði verið eftir því.

Hin ólétta Lauga fann sér stað undir vegg og andaði léttar.  Hún opnaði bakpokann og hugðist bjóða upp á súkkulaði, þar á meðal páskakanínurnar frá Bev.  Það reyndist þrautin þyngri að gæða sér á þeim, því þær höfðu skipt um fasastig, það er úr föstu efni yfir í fljótandi.  Lauga stakk þeim bara aftur í töskuna.  Þær skyldu borðaðar síðar.
Eftir þessar tilfæringar fór ég að gera mig kláran til að sjá kappaksturinn.  Skammt frá voru ofurlítil áhorfendastæði, en ég hafði engann áhuga á þeim.  Ég ætlaði að komast í almenninlegt stúkusæti.  Það leið nú samt ekki á löngu að mér var gert það ljóst að ég hefði engann aðgang að stúkusæti.  Til þess var miðinn minn alltof ódýr ... þó hann hafi verið bara skrambi dýr!! 

Ég mátti því sætta mig við standa efst á áðurgreindu áhorfendastæði, og horfa í gegnum massífa vírgirðingu á væntanlega kappakstursbíla þjóta framhjá á mörg hundruð kílómetra hraða.


Herflugvélar sýna listir sínar

Um klukkan 15.00 hófust leikar, með því að Vanessa Amorosi söng ástralska þjóðsönginn.  Orrustuflugvélar frá ástralska hernum flugu yfir ... alveg merkilegt hvað þessi viðbjóðslegu morðvopn leika stóran þátt í þessari kappaksturshátíð ... og þegar þær höfðu lokið sér af, flaug Boeing 747 Jumbo þota frá Qantas yfir vettvanginn.  Mjög tilkomumikið ... eða þannig ...


Allir á ráspólunum

Svo var bara blásið til leiks.  Og þarna stóð maður í 39,1°C og brennandi sólskini uppi í vesælu áhorfendastæði og reyndi að taka myndir af bílunum sem þutu framhjá með drunum og dynkjum.

En við þetta var náttúrulega ekki unað.  Við ákváðum að fara á röltið.  Reyna að finna betri stað fyrir mig til að ná myndum af þessum mikla atburði sem þarna var að eiga sér stað.

IMG_4944IMG_5055

Ekki höfðum við gengið langt þegar þorstinn fór að sverfa að á nýjan leik ... aftur hófst leit að vatni og þegar hún stóð sem hæst, gerðist eitthvað á brautinni.  Fólk þusti að girðingunni.  Ég stökk til og fylgdi straumnum.  Og viti menn, þarna var annar bíll Ferrari-liðsins stopp og ökumaður hans, Kimi Räikkönen stökk fimlega upp úr bílnum og skaust eins og eldibrandur í skjól.  Hinir bílarnir þutu framhjá.  Þegar um hægðist, kom "dráttarbíll", sem hreinlega lyfti hinum rándýra, ofurþróaða Ferrari-bíl, eins og kartöflupoka og færði hann út af brautinni og baksviðs.  Hann var úr leik í Melbourne-kappakstrinum 2008.

IMG_5005IMG_5018

Við Lauga héldum áfram ferð okkar og aftur gerðist eitthvað á brautinni.  Mannfjöldinn rann allur í eina átt.  En út úr þvögunni, gagnstætt straumnum kom mótórhjól á fleygiferð.  Tveir menn voru á því.  Ég áttaði mig seinna á því að þarna hafði verið á ferð ökumaður Toyota-liðsins, Jarno Trulli, sem lent hafði í heljarmiklum árekstri skömmu áður.  Þegar okkur bar að var verið að drösla hálfköruðum bílnum út af brautinni.  Ég hnoðaðist áfram í mannþrönginni, uns ég hin laskaði bíll blasti við mér.

IMG_5063IMG_5073

Eftir á að hyggja hafði Melbourne-kappaksturinn verði geysilega fréttnæmur, þar sem meira en 60% ökumanna lauk ekki keppni.  Því miður fór það meira og minna framhjá mér, þó ég væri á staðnum. Það er náttúrulega ekkert grín að fylgjast með öllu þegar 22 bílar aka, eða reyna að aka, rúma 307 km á um það bil 90 mínútum.  Maður ræður nú kannski ekki við að hafa gætur á öllu, einungis vopnaður myndavél og tveimur fótleggjum, og meðreiðarsveinninn óléttur í þokkabót!!

Jæja, svo lauk þessu nú öllu saman.  Lewis Hamilton vann kappaksturinn.  Sól var tekin að síga á lofti og hitinn orðinn bærilegri.  


Bretar léku við hvern sinn fingur eftir sigur Hamiltons og kyrja hér "God save the Queen"

Nú var bara að bíða eftir KISS.  Um kl. 19.30 birtust þeir í fullum herklæðum og 50.000 manns fögnuðu ógurlega.  Ég skildi Laugu eftir einhvers staðar tiltölulega aftarlega og tróðst fram í áttina að sviðinu ... og komst á góðan stað.

Tónleikarnir voru frábærir ... þarf nú ekki að spyrja að því ...

Upp úr 21.30 var botninn sleginn í dagskránna í Albert Park ... og þreyttir en ánægðir Íslendingar héldu heim í koju.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta hefur greinilega verið rosalegur dagur hjá ykkur. Gaman gaman. Snilldartæki þessi vifta :) Ég hef þó mestan áhuga á að vita hver Bev frænka er?

 Hafið það gott ég fór í gegnum allar myndirnar á flickr síðunni ykkar þið eruð ótrúlegir snillingar að taka myndir :)

oooog bumbumyndirnar af Laugu við sjóinn eru geggjaðar...hlakka til að að sjá meira...

knús

Sigrún 

Sigrún frænka (IP-tala skráð) 26.3.2008 kl. 09:48

2 identicon

Varð bara að kommenta aðeins á þetta unaðslíf hjá ykkur.. Það lítur út fyrir að það sé heilmikið fjör þarna Down-under.. Hefði alveg verið til í að kíkja aðeins á þessa formúlu með ykkur þrátt fyrir að Kimi skyldi detta út..
Flottar bumbumyndir af Laugu..
Njótið ykkar, yndislegur tími og alltof fljótur að líða

Bestu kveðjur af landinu kalda

Gunnsa

Gunnhildur (IP-tala skráð) 26.3.2008 kl. 22:44

3 identicon

Hurðu nú er ég búin að fara margar fýluferðir inn á bloggið ... hmmmm hvenær kemur næsta færsla?

Sigrún Steingríms (IP-tala skráð) 2.4.2008 kl. 22:45

4 identicon

Ég spyr eins og síðasti ræðumaður - hvenær kemur næsta færsla??? Maður getur svo sem dundað sér við að skoða myndirnar en þær eru jú margar hverjar déskoti góðar!

Stjóri (IP-tala skráð) 4.4.2008 kl. 04:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband