Spennusagan Megong - 5. kafli Í Jumeirah

6. febrúar 2008. 
Múrenan gekk út að glugganum í herbergi 504 á Eureka hótelinu.  Bakvið þykkar gardínurnar voru litaðar rúður.  Múrenan leit út.  Niðri á 42. stræti var engann bíl að sjá. 
„Hvenær sagði Pakistaninn að Future ætlaði að koma?" spurði hún spúsuna.  Í sömu mund hringdi síminn, sem stóð á náttborðinu.  Múrenan þaut til og ansaði.
„Herra minn, það er beðið eftir þér niðri í anddyri" tilkynnti starfsmaður hótelsins.  Múrenan gaf spúsunni merki um að yfirgefa herbergið. 
„Takk fyrir" sagði Múrenan og lagði á.  Hún greip bláu flíspeysuna, sem merkt var San Francisco og fylgdi spúsunni eftir.

Niðri í anddyrinu opnaði léttadrengurinn dyrnar fyrir Múrenunni og spúsunni, og benti á drapplitaða Toyotu Camry.  „Hann bíður þarna, herra."  Léttadrengurinn kinkaði kolli.
Út úr bílnum steig Future, maður á fertugsaldri, ættaður frá Indlandi.  „Future", sagði hann um leið og hann tók í höndina á Múrenunni.  Þau settust inn í bílinn og óku af stað.
Bifreiðin þeystist gegnum Bur Dubai og niður Port Rashid, þar sem Future nam staðar.  „Fimm mínútur" sagði hann og stökk út úr bílnum. 


Horft yfir Port Rashid

Á Port Rashid var mikið um að vera, enda um að ræða eina af umskipunarhöfnum Dubai.  Lyftarar þeystust um hafnarsvæðið.  Stórkarlalegir gámakranar gíndu fyrir öllu og 80 feta gámar voru eins og legokubbar í greipum þeirra. 
Þau biðu lengi, en loks kom Future aftur.
„Við verðum að fara niður á Burj Al Arab ... " sagði hann móður og másandi.  Hann rykti bílnum af stað.


Í bílnum með Future á leiðinni niður að Burj Al Arab

„Þið bíðið hérna!!"  Future var skipandi í röddinni.
„Hérna??" spurði spúsan.
„Já ... ég hringi eftir hálftíma til klukkutíma."
Múrenan og spúsan stigu út út bílnum.  Þau voru stödd á Jumeirah ströndinni, það er að segja þeim hluta hennar sem var opinn almenningi.
„Ja ... þetta er dálaglegt ástand!!" stundi Múrenan, þegar þau gengu niður að flæðarmálinu. 

 
Múrenan á Jumeirah ströndinni, Burj Al Arab í baksýn

Síminn hringdi hjá spúsunni.
„Þetta var Messíana ... og þetta er alvarlegt ..."
„Hvað??!"
„Hún segir að Future hafi engann aðgang að „djinser"-disknum ... þetta eru mistök!  Sko ... Dodgerinn varð alveg æfur þegar hann heyrði að við hefðum farið til Dubai að hitta Future ... Future er vafasamur pappír og hefur verið í samkrulli við frú Agentauer um nokkurt skeið.  Dodgerinn segir það liggja í augum uppi að það eigi að ráða okkur af dögum hér í Dubai!!!"
„Komum okkur héðan!!"  Þau hlupu af stað.

Það var ekki fyrr en inn í Madiat Jumeirah verslunarmiðstöðinni, að þau námu staðar.  „Við ættum að vera hult hérna" sagði spúsan. „Við verðum að ná í blómasalann á Akureyri ... hann hlýtur að hafa einhver svör við því hvað við getum gert í stöðunni", bætti hún svo við.


Spúsan reyndi að sýnast ekki áhyggjufull í Jumeirah verslunarmiðstöðinni, skömmu áður en hún hringdi í blómasalann á Akureyri til að leita eftir aðstoð

„Al Fayed og Mohammed ætla að hitta ykkur eftir fimm mínútur ... farið þið á kaffihúsið sem er í álmu C í Jumeirah verslunarmiðstöðinni og pantið ykkur kók, samloku og franskar ... skilið??" 
Blómasalinn hafði sambönd víða og var öllum hnútum kunnugur í Dubai eftir að hann landaði gríðarlegum viðskiptasamningi þar fyrir nokkrum árum. 
„Eitthvað fleira, blómi?" Múrenan reyndi að slá á létta strengi ... en blómasölumanninum var ekki skemmt.
„Nei, er þetta ekki alveg nóg??!"  Hann lagði á.

Múrenan var með fullan munninn af frönskum kartöflum, þegar Al Fayed og Mohammed bar að.  Þeir settust niður og pöntuðu sér kaffi.  Þeir ræddu saman á arabísku áður áður en Mohammed hringdi eitt símtal.  Að því loknu sneri hann sér að Múrenunni og spúsunni.
„Þið farið út þennan gang og út baka til" sagði hann.  „Þar er manngert síki ... hálfgert hallarsíki, og ef þið gangið meðfram bakka þess, þá komið þið að viðlegubakka, þar sem abra-bátar leggjast að.  Takið einn slíkan yfir á Al Qasr hótelið, þar spyrjið þið eftir Winston og hann mun keyra ykkur út í Jumeirah pálmaeyjuna.  Hann þekkir mann sem veit allt um „djinser"-diska."


Múrenan ásamt Mohammed og Al Fayed á kaffihúsinu í C álmu Jumeirah verslunarmiðstöðvarinnar

Múrenan stóð upp og tók í höndina á þeim kumpánum.  Spúsan gerði hið sama.
Þau gengu hratt eftir álmu C og út um bakdyrnar. 


Spúsan í bakgarði Jumeirah verslunarmiðstöðvarinnar

Síkið var grænblátt og abra-bátar sigldu fram og aftur með gesti Al Qasr hótelsins og Mina a´ Salam hótelsins.  Á hægri hönd trónaði hið 321 metra háa Burj Al Arab, næsthæsta hótel veraldar og hið eina í flokki sjö stjörnu hótela.
Þau gengu eftir bakka síkisins uns þau komu að viðlegubakka bátanna.  Þau biðu eftir næsta abra.


Beðið eftir næsta abra

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

gaman gaman, fullt af bloggi jibbi jeiii

Fjola (IP-tala skráð) 11.3.2008 kl. 01:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband