6.3.2008 | 08:41
Spennusagan Megong - 4. kafli Á Al Mussallah Street
Þessi andskotans indverski afgreiðslumaður gengur bara um ljúgandi hérna!!" Spúsunni var mikið niðri fyrir, meðan hún hreinlega mokaði matnum yfir á diskinn hjá sér.
En þetta var kórrétt hjá henni. Indverski afgreiðslumaðurinn á kaffisölunni á neðstu hæðinni hafði logið, þegar hann sagði engann mat að fá uppi, því hér á 5. hæð var boðið upp á hlaðborð. Yfir 20 heitir réttir, alls kyns salöt, ávextir, baunir og flest það sem hugurinn girndist.
Það er ekki fráleitt að ímynda sér að þessi maður sé eitthvað innviklaður í málið", sagði Múrenan þegar þau voru sest.
Nei, nei ... þessi maður hefur ekkert að gera með málið ... hann er bara fégráðugur!! Á góðri íslensku mætti kalla hann drullusokk!! En ég sá við honum!" Spúsan hló.
Múrenan pakksödd eftir hlaðborðið á 5. hæðinni.
Á heimleiðinni komu þau við á aðalverslunargötu Dubai, Al Mussallah Street. Mikill mannfjöldi þeystist fram og aftur á gangstéttunum, bílaumferðin var þétt og tilviljanakennd, en inn á milli skutust bifhjól og reiðhjól, jafnvel menn með kerrur í eftirdragi. Bílflaut hljómuðu eins og morgundagurinn væri enginn. Allir þurftu umsvifalaust að komast leiðar sinnar, þrátt fyrir að augljóst væri að slíkar væntingar ættu ekki við rök að styðjast.
Kaótísk umferð og mannfjöldi á Al Mussallah Street
Spúsan rýnir í kort af Dubai
Múrenan veitti því einnig athygli að ljósaperubúðir voru óvenju margar, greinilega engin venjuleg eftirspurn eftir ljósaperum í þessari borg. Osram hér og Osram þar. Augljóslega var samkeppnin svo hörð að margir ljósaperusalar höfðu gripið til róttækra aðgerða til að vekja á sér athygli. Til dæmis hafði einn þeirra brugðið á það ráð að slökkva öll ljós í búðinni hjá sér. Því sat hann einn í rökkrinu og beið eftir væntanlegum ljósaperukaupendum.
Múrenan velti því fyrir sér hvort eitthvert ólag gæti verið á rafmagninu, þannig að ljósaperur væru að springa í tíma og ótíma. Kannski stæði Osram á bakvið þetta allt saman? Gæti það verið?
C'mon sir, have a look ... special price for you my friend" hljómaði hvarvetna í eyrum Múrenunnar. Múrenan bandaði frá sér. Kaupmennirnir hlóu og skemmtu sér.
Skyndilega vék Arabi einn, klæddur hvítum kufli og með rauðan klút á höfði, sér að spúsunni. Kæra fröken", mælti hann lágri röddu. Ég var beðinn um að koma þessu til þín." Hann laumaði upprúlluðum miða í lófa spúsunnar. Hann hvarf óðara aftur í mannþröngina.
Spúsan reyndi að fylgja honum eftir, en það var tilgangslaust. Það var engu líkara en jörðin hefði gleypt hann.
Spúsan las á miðann.
Hassan verður tilbúinn á föstudaginn, hann verður á hvítum Nissan Patrol. Hann vill hitta ykkur fyrir utan Eureka. Hef verið í sambandi við G.J. vegna málsins. Allt unnið samkvæmt áætlun. Læt vita um framhaldið. Kveðja, Króksgellan. Ps. Eyðileggðu miðann."
Miðinn frá Króksgellunni, sem Múrenan át í öryggisskyni eftir að þessi mynd hafði verið tekin
Ok, gott mál", sagði hún svo við Múrenuna. Sérðu að upphafsstafur hverrar setningar er feitleitraður hjá henni. H-H-H-A-L-K-P-E ... ??" Spúsan horfði út í loftið. Hún var greinilega að hugsa.
H-H-H-A-L-K-P-E?? ... Já, auðvitað ... Króksgellan er að spyrja okkur: Hefur Hassan Heimild Að Leigja Klassíkan Patrol Eða?" Hún er greinilega hrædd um að hann sé að aka um réttindalaus!!"
Spúsan tók um símann sinn og rétti Múrenunni.
Sendu henni sms fyrir mig ... skrifaðu bara Já, heimild er til staðar!" Hún er alveg ótrúlega sniðug!!"
Augun í spúsunni leiftruðu.
Það verður alveg nóg að gera á næstu dögum!! Förum upp á hótel!"
Hún beygði inn Al Maktoum Hospital Road, áleiðis til að hótelinu. Múrenan fylgdi í humátt á eftir.
Framhald ...
Athugasemdir
Króksgellan og G.J. láta ekki að sér hæða og greinilega með sambönd um allan heim....og snilldarlega útfærð spurning Króksgellunnar um ökuréttindi Hassans. En ekki gleyma reglu nr.1: Aldrei skal birta mynd af leynimiða á alnetinu! Tengslanet í arabaheiminum er í húfi.
Stjóri (IP-tala skráð) 7.3.2008 kl. 01:35
Já, góð athugasemd hjá Stjóra ... internetið er kannski ekki besti staðurinn til að birta mynd af leynimiða, sem á þessu stigi málsins hefur verið etinn, vegna þess að hann var leynimiði!!! Múrenan mun varast svona mistök í framtíðinni ...
Páll Jakob Líndal, 7.3.2008 kl. 04:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.