Spennusagan Megong - 3. kafli Pakistaninn

5. febrúar 2008 - Dubai.  Hygginn maður reisir hús sitt á kletti en ekki á sandi.  Sé það rétt, virðist fyrirhyggja og gáfnafar í Dubai, næststærstu borg Sameinuðu arabísku furstadæmanna, vera í lágmarki meðal húsbyggjenda þar.  Hún er reist á sandi, og engu öðru.

Síminn hringdi á herbergi 504 á Eureka-hótelinu.  Múrenan vaknaði af værum blundi og ansaði þreytulega í símann.
„Eruð þið komin til Dubai??"  B. Brjánsson var á hinum endanum, undrandi í röddinni.  „Að gera hvern fjandann??!  Eruð þið í einhverjum skítamálum eða hvað ... ??
„Frú Agentauer sagði diskinn vera „djinser" disk og til að fá aðgang að honum var nauðsynlegt að fara hingað og hitta náunga sem kallar sig Future.  Hann er hátt settur innan þjónustunnar."
„Hefurðu eitthvað heyrt í Stjóra?", spurði B. Brjánsson. 
„Nei, bara í Sauma.  En ég sendi áðan sms til Ungfrúar Austurbæjar og hafnfirska sjúkraþjálfarans."
„Og hefurðu ekkert heyrt ... ?  Heyrðu, ég er annars með eina góða gátu handa þér?"
„Nei ... ég er ekkert að fara svara ... "
„Jú, gerðu það!  Hvað dregur mús jafn auðveldlega og fíll?"
Múrenan skellti á.  „Alltaf sama andskotans ruglið í þessum dreng!!"

Múrenan og spúsan höfðu sofið lungann úr deginum og ákváðu að skreppa í ofurlitla kynnisverð um nágrenni.  Spúsan skellti sér í lopapeysu og þau röltu út úr herberginu.  Í anddyri hótelsins mættu þau vikadrengnum, glaðlegum manni á sextugsaldri.  Hann óskaði þeim góðs gengis.


Spúsan í lopapeysunni við Clock Tower hringtorgið 

Þung og kaotísk umferð var á öllum akreinum hringtorgsins við Clock Tower, og bílstjórarnir flautu hver í kapp við annan.  Þvílíkur hávaði.  Stefnan hjá Múrenunni og spúsunni var sett á Dubai Creek, ána sem skilur að elsta borgarhluta Dubai, Bur Dubai og Deira.  Dubai Creek er sagður fallegsti staðurinn í Dubai.  Múrenan sá nú samt ekki alveg fegurðina þar. 

Á árbakkanum var varla hægt að þverfóta fyrir alls kyns varningi, kössum af öllum stærðum og gerðum, ísskápum, snúrum, hjólalegum, húsgögnum og olíutunnum.  Þennan varning allan voru heimamenn að ferma yfir í báta sína.  Hvert þeir sigldu svo með öll herlegheitin, áttaði Múrenan sig ekki á. 


Mikil athafnasemi er einkennismerki þeirra sem vinna við uppskipun á bakkanum við Dubai Creek 

Það var farið að rökkva.  Búið var að kveikja á ljósastaurunum á vesturbakka Dubai Creek og í fjarska mátti sjá skýjakljúfana við Sheikir Zayed Road.  Í enn meiri fjarlægð trónuðu tveir kranar í toppi Burj Dubai, hæstu byggingu veraldar, sem enn var í byggingu.  National Bank of Dubai teygði sig tignarlega til himins.


Háhýsin við Sheikir Zayed Road og Burj Dubai í ljósaskiptunum


Húsnæði National Bank of Dubai

„Hefurðu tekið eftir Pakistananum í bláa bolnum, sem er fyrir aftan okkur ... ?", spurði spúsan Múrenuna, allt í einu.
„Já, auðvitað!!"
„Bíddu aðeins, ég ætla að reima skóinn minn ... við skulum sjá hvað hann gerir!"  Hún beygði sig niður.

Pakistaninn hélt áfram göngu sinni framhjá Múrenunni og spúsunni.  Hann gaf þeim grunsamlegt auga.  En eftir að hafa gengið spölkorn beygði hann til vinstri og hvarf milli kassa sem staflað hafði verið snyrtilega upp. 
Múrenan tók upp myndavélina.  Hún hafði tekið eftir augnaráðinu og ætlaði ekki að láta þennan Pakistana sleppa svona auðveldlega.  Hún veitti honum eftirför.  En þegar hún beygði inn á milli kassana gekk hún beint í flasið á honum.

„Það var gott að þú eltir mig, það sér okkur enginn hérna.  Ég þarf að koma mikilvægum skilaboðum til þín", sagði Pakistaninn á bjagari ensku.
„Future bað mig um að láta þig vita, að hann getur ekki hitt ykkur á fimmtudaginn, þannig að hann ætlar að koma og ná í ykkur á Eureka-hótelið kl. 10 á miðvikudaginn." 

Múrenan horfði stíft í augun á Pakistananum.  Átti hún að trúa honum eða ekki??  Hún tók mynd af honum, áður en hún gekk í burtu.

Spúsan var orðin verulega svöng þegar þau gengu inn í verslunarmiðstöðina í Twin Tower-byggingunni, sem stóð við Baniyas Road.
„Það hlýtur að vera eitthvað hægt að fá að borða hérna ... ", sagði hún og gekk ákveðið að kaffisölu einni, sem virtist líkleg til stórræðanna. 
Indverskur afgreiðslumaður í appelsínugulu vesti varð fyrir svörum. 
„Því miður, við seljum ekki heitan mat hérna ... en hérna, ... við erum með alveg dýrindis kökur og frábærar samlokur ...??" 
„Nei, takk!" svaraði spúsan.  „En er ekki veitingastaður þarna uppi?"  Spúsan horfði þráðbeint upp.
„Það er búið að loka öllu þarna uppi", fullyrti indverski afgreiðslumaðurinn og horfði hundtryggum augum á spúsuna.
Spúsan hlustaði ekki á hann.  Hún gekk að rúllustiganum. 
„Koma svo ... ég er að drepast úr hungri."

Framhald ...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband