1.3.2008 | 13:07
Mardi Gras & myndir
Jæja, Múrenan og spúsan voru rétt í þessu að koma heim frá því að horfa á Mardi Gras, en svo kallast Gay Pride-ið hér í Sydney. Þetta var í 30. skiptið sem hátíðin er haldin hér og óhætt er að segja að stuðið hafi verið mikið. Vagnarnir eða atriðin eða hvað á eiginlega að kalla þetta, voru ekki færri en 400, samkvæmt heimildum Fréttastofu Múrenunnar í Sydney (FMS) og áhorfendur skiptu hundruðum þúsunda.
Múrenan átti einn kandidat í göngunni, en það var Crighton sálufélagi Múrenunnar í hlutverki Yfirstrumps eða Papa-Smurf, eins og hann sjálfur kýs að kalla þessa ágætu teiknimyndafígúru. Auk þess veit Múrenan að hin þýska Nadalia, var líka meðal göngumanna, en hana hitti Múrenan í fyrsta skipti í gær á Herman´s barnum. Múrenan, vegna mjög stuttra kynna, ákvað hins vegar að líta ekki á Nadaliu sem kandidat sinn í göngunni.
Þess má geta að Múrenan sá Papa-Smurf hvergi í göngunni ...
Svo er hægt að minnast á það fyrir áhugasama að Múrenan hefur sett nokkrar myndir inn á flickr.com-heimasíðuna sína. Linkur inn á myndasíðuna er hérna vinstra megin á síðunni en það er hægt að smella hér, svona í þetta skiptið.
Þar sem Múrenan þarf að vakna eldsnemma í fyrramálið eða upp úr klukkan 20 að íslenskum tíma, hefur hún ákveðið að láta staðar numið nú. Fyrir liggur leikur við Hakoah á sjálfum Vetrarleikvanginum í Sydney, kl. 10.15 að staðartíma. Allir eiga að vera mættir kl. 9.00. Býður einhver betur en það?
Góðar stundir!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.