23.11.2007 | 07:02
KISS og Eric
Múrenan ætlar að gera það opinbert að hún er á leiðinni á KISS-tónleika í Melbourne þann 16. mars næstkomandi ... já, lesandi góður ekki verða öfundsjúkur ... það geta bara ekki allir verið í sporum Múrenunnar. Því miður!
Þessi tilkynning birtist á síðunni kissonline.com, sem er eins og nærri má geta "official" síða hljómsveitarinnar.
Ef lesendur hafa nennt að veita þessari auglýsingu athygli, þá hafa þeir séð að tónleikarnir eru hnýttir við hina geysivinsælu "formúlu", eins og flestir Íslendingar hafa kosið að nefna þennan óskiljanlega bílaleik.
Það sem gerðist í fyrra, var að "formúlu"-keppnin í Melbourne með Schumacher og Ferrari, og hvað þetta heitir nú allt saman í fararbroddi, dró ekki að sér nógu marga áhorfendur og þess vegna hefur verið brugðið á það ráð að fá "the hottest band in the world" til að kynda aðeins undir ...
... og ráðabruggið greinilega virkar ...
Múrenan og spúsan verða á áhorfendapöllunum í "formúlunni", sunnudaginn 16. mars nk., þrátt fyrir að hafa allt fram til þessa, sýnt akstursíþróttinni fullkomið skeytingarleysi. Auk þess hefur fjöldi liðsmanna úr hinum fræga KISSArmy, boðað komu sína ef eitthvað er að marka vefinn kissarmyaustralia.com.au. Eftir kappaksturinn verður svo blásið til veislu ... !!
Það er alveg ljóst að sunnudagurinn 16. mars nk. verður dagur, sem vert er að gefa athygli ...
Þess má að lokum geta að í dag, 24. nóvember, eru 16 ár liðin frá því að trommuleikari KISS, Eric "The Fox" Carr lést ... en svona fyrir þá sem það ekki vita, tók Eric við af hinum upprunalega trommuleikara sveitarinnar, Peter Criss, á því herrans ári 1980. Eric "debuteraði" með KISS þann 25. júlí 1980 í Palladium í New York og endaði ferilinn með KISS einnig í New York, 10 árum og 9 KISS-plötum síðar eða þann 9. nóvember 1990 í Madison Square Garden.
Til minningar um Eric Carr er hér fyrir neðan hægt að smella á link, sem flytur þig lesandi góður yfir á síðuna youtube.com, og ekki bara það, heldur opnar fyrir þig dyrnar að hinu geysivinsæla lagi KISS "I love it loud", sem er að finna á plötunni Creatures of the Night, sem kom út árið 1982.
Þess má geta að það sem sérstaklega þykir einkenna þá plötu, er hinn ótrúlega öflugi trommuleikur sem þar er að finna ... búinn til af Eric Carr ...
... og "I love it loud" er gott dæmi um höggþunga og snilli Erics Carr ... smelltu hér til að hlusta.
Þess má geta að á 9. áratug síðustu aldar, var Arnari vini Múrenunnar og KISS-aðdáanda tíðrætt um hversu líkur "faðirinn" í myndbandinu væri föður Múrenunnar. Myndbandið er því tilvalinn staður til að átta sig á hvernig faðir Múrenunnar leit út.
Þetta verður bara að duga núna!!
Athugasemdir
Vá, en gaman! Hefurðu farið áður á tónleika með þeim?
Dagrún (IP-tala skráð) 23.11.2007 kl. 18:11
Múrenan er hjartanlega sammála Jurgen ... Paul og Gene eru eins og hverjir aðrir fjölskyldumeðlimir. Þess vegna fannst Múrenunni það fremur súrt í broti þegar þeir virtust ekki þekkja hana, þegar hún mætti á tónleika hjá þeim í Bercy-höllinni í París árið 1999 og það sama var uppá teningnum í The Meadows í Hartford, Connecticut árið 2003.
Já, og þar með hefur Múrenan óvart svarað spurningu Dagrúnar ... Múrenan hefur sumsé séð KISS tvisvar áður, en hefði með réttu átt að vera búin að sjá þá 100x ...
Páll Jakob Líndal, 25.11.2007 kl. 01:12
Þetta Kiss æði í þér er náttúrulega bara rosalegt. Man ég eftir ungum dreng á Subaru Justy með ekkert nema Kiss í bílnum sem maður þurfti að þola í hvert skipti sem maður steig upp í drossíuna. Meiri djöfulsins graðhestamússíkin. Nei, þá bið ég nú um eitthvað rólegt og fagurt, ég held að það sé glapræði, ég endurtek glapræði að fara á þessa tónleika. Myndi ekki fara ef ég væri þú.
(djöfull væri maður til í að fara maður...)
Höskuldur Sæmundsson, 26.11.2007 kl. 01:26
Múrenan hefur ákveðið að fara að ráðum "Sködds" og hætta við að fara á KISS-tónleikana ... hún hefur sett miðana ásamt flugmiðum til og frá Íslandi í umslag og sent á H. Sæmundsson ... Njóttu vel karlinn :) .
... Sjensinn!!!
Já, Múrenan hefur verið KISS-aðdáandi í mörg ár, í næstum tvo og hálfan áratug ... og fer nú ekki að slaka á úr þessu ... !!
Einu sinni KISS-ari alltaf KISS-ari!!
Páll Jakob Líndal, 26.11.2007 kl. 07:41
Vangefið óréttlæti er þetta! Aldrei hef ég komist á tónleika með drengjakvartettinni góðu.. Merkilegt samt að segja frá því að ég man ennþá nákvæmlega hvar ég var stödd þegar ég frétti að Eric Carr væri látinn. Sumt man maður greinilega. Hvernig skyldi þá standa á því að ég get fyrir mitt litla líf ekki munað að sækja barnið mitt á réttum tíma á föstudögum? Forgangsröðunin alveg á hreinu hérna.
Jara (IP-tala skráð) 26.11.2007 kl. 11:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.