17.11.2007 | 02:54
Tónlistartíminn
Múrenan var á röltinu, ásamt spúsu sinni, um miðbæ Sydney-borgar, nánar tiltekið í Pitt-stræti, þegar á vegi þeirra varð maður nokkur, sem sennilegast átti ættir sínar að rekja til Japans. Þessi ágæti maður var með gráan skeggtopp líkt og geithafur, plástruð gleraugu og hvítan hatt á höfðinu, íklæddur ljósbleikum jakka og gráum buxum.
Hann sat á stólgarmi og fyrir framan hann voru útbreidd blöð, sem á voru letruð tákn, sem Múrenan hafði ekki þekkingu til að ráða í ...
Fyrir utan þetta allt saman lék maðurinn af miklu listfengi á hljóðfæri, sem Múrenan hefur hvorki fyrr né síðar séð ... þetta var einhvers konar strengjahljóðfæri ...
Myndin hér að neðan ætti kannski að upplýsa lesendur betur ...
Þetta er japanski hljóðfæraleikarinn á Pitt-stræti
Múrenan staldraði aðeins við og horfði á manninn, og hlustaði á tónana sem hann kreisti útúr hljóðfærinu ... þetta var bara nokkuð snjallt hjá honum og þess vegna stakk Múrenan höndinni í vasann og seildist eftir 50 centum til að setja í hvíta kassann sem sést fremst á myndinni. Karlinn var greinilega að gera það gott þennan daginn, því það klingdi í þegar peningurinn lenti í kassanum. Múrenan gekk svo í burtu ...
... en sá japanski var nú ekki aldeilis á því ... "Hei, halló ... komm ... komm"!! kallaði hann á eftir Múrenunni.
"Hvað?? Er karlinn að heimta meiri pening?!!? Hvaða andskotans frekja er þetta eiginlega??!!" Múrenan sneri sér við ...
"Jú vanna plei ... komm ... jú plei" Múrenan leit á spúsuna ...
"Drífðu þig, farðu og spilaðu ... hann er að bjóða þér það!!" Múrenan hafði engan sérstakan áhuga á því ...
"Svona drífðu þig!!" Múrenan lét tilleiðast, gekk að hljóðfæraleikaranum og ætlaði að taka kumpánlega í höndina á honum, en hann hafði nú ekki hugsað sér það ...
"Sitt dán!" sagði hann bara og þrýsti Múrenunni niður á stólinn. Múrenan hlunkaðist niður og var áður en hún gat rönd við reist, komin með þetta undratól í hendurnar. Karlinn stóð aftan við stólinn, umvafði Múrenuna örmum sínum og gaf skipanir um hvernig bera ætti sig að við hljóðfæraleikinn ... Vinstri höndin átti að fara á hálsinn á hljóðfærinu og sú hægri átti að halda um bogann, sem notaður var til að strjúka strengina ...
Múrenan lærir réttu tökin
Eftir stystu kennslu í heimi, taldi kennarinn að Múrenan væri orðin fullnuma og vék hann því frá henni. Tími Múrenunnar var með öðrum orðum, runninn upp!!
"ÓOOOO ... bí kerfúl, dónt breik it!!!" hrópaði Japaninn allt í einu, þar sem hann stóð álengdar og fylgdist með því þegar Múrenan lék á "instrumentið". Múrenan snarstoppaði ...
"Kíp góing ... jess ... kíp going!!" Hann bandaði út öllum öngum. Múrenan byrjaði aftur að leika ...
Ekki tókst Múrenunni nú að fá fram mjög fallega tóna, alltént hljómaði leikur hennar býsna ólíkt því tónaflóði sem karlinn hafði framkallað, þegar hann lék við hvern sinn fingur ... "sándið" var meira eins og "sarg-hljóð", sem hvorki Múrenan né vegfarendur höfðu gaman af að hlusta á ...
Múrenan brosti samt á víxl framan í eiganda hljóðfærisins og í myndavél spúsunnar, eins og hún væri að upplifa hápunkt ævi sinnar þennan eftirmiðdaginn á Pitt-stræti ...
Múrenan þykist hafa gaman af því að spila á hljóðfærið
Eftir ekki svo langa stund, fannst karlinum greinilega nóg komið ... "Ókei ... þeink jú ... " sagði hann og rétti fram höndina í því skyni að fá hljóðfærið aftur í hendurnar. Múrenan rétti honum hljóðfærið ...
"ÓOOO ... bí kerfúl!!"
Múrenan var orðin sveitt á bakinu, af þessu öllu saman ... og var frelsinu fegin, þegar að hún hafði komið skrapatólinu í lúkurnar á karlinum aftur, óbrotnu ...
Hún hneigði sig brosandi, þakkaði fyrir sig og gekk til spúsunnar ...
"Af hverju spilaðir þú ekkert lag ... þetta voru alltaf sömu tónarnir aftur og aftur!!"
"Nú af því ég kann ekkert á þetta!"
"Jú, jú, þú áttir auðvitað að ýta á strengina, bara eins og á gítar ... !!! Spila Gamla Nóa eða eitthvað!!"
Múrenan hristi bara hausinn ...
Athugasemdir
HAhahahahahaha!!!!!
Dagrún (IP-tala skráð) 17.11.2007 kl. 12:00
Magnað hjá gamla geithafrinum að lána Múrenunni lífsviðurværi sitt sísvona - og vera svo með hjartað í buxunum! Annars er ég sammála Laugu, það er nú lágmarkið að spila lagstúf á svona græju en ekki alltaf sömu tónana. Nótnablöðin klár fyrir framan þig, strengir á hljóðfærinu eins og á gítar...þú hefur engar afsakanir!!:)
Halldór (IP-tala skráð) 17.11.2007 kl. 17:06
Já, það má svo sem vel vera að Múrenan hafi ekki staðið sig í stykkinu ... en það var nánast ógjörningur, því í hvert skipti sem til stóð að fara að sýna takta, birtist slíkur angistarsvipur á gamla, að Múrenunni brást kjarkur.
Svo má náttúrulega velta fyrir sér hvort, hljóðfæraleikarinn ætti ekki bara að annast "performancinn" sjálfur, úr því hljóðfærið er svona hrikalega viðkvæmt!!
Páll Jakob Líndal, 18.11.2007 kl. 22:11
Við vitum alltént hvað þú getur tekið þér fyrir hendur ef þér verður sparkað öfugum út úr skólanum...
Helga Guðrún (IP-tala skráð) 21.11.2007 kl. 11:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.