28.9.2007 | 14:37
$440 beint í vasann ...
Það var rosalegur dagur í gær ... því í gær græddu Múrenan og spúsan hvorki meira né minna en um 440 ástralska dollara eða meira en 23.000 krónur íslenskar. Og munar nú um minna!!
Ekki þó að skilja að dollararnir hefðu verið sendir í pósti til Múrenunnar og spúsunnar ... nei, miklu frekar var það vegna þess að Múrenan og spúsan sluppu við að greiða $440!!
Kíkjum á málið ...
Múrenan sagði um daginn söguna af því þegar hún og spúsan fengu himinháan símareikning frá símafyrirtækinu Three ... sem er fyrirtæki sem Múrenan fyrirlítur þessa dagana ...
Fyrirtækið sakaði hjónaleysin um "roaming" í ágústmánuði ... og vildi fá greitt fyrir það ...
Fyrir þá sem ekki skilja þetta þá skal það skýrt hérna:
Í bækling frá Three er búið að setja inn á kort, þjónustusvæði fyrirtækisins í Sydney ... svæði sem þekur mörg hundruð hektara og haldi viðskiptavinir fyrirtækisins sig innan þjónustusvæðisins, þá borga þeir samkvæmt fyrirframgerðum samningi, í tilfelli Múrenunnar og spúsunnar var umsamin upphæð $100/mánuð.
Noti viðskiptavinir hinsvegar símann frá Three utan þessa þjónustusvæðis kallast það "roaming" eða "flakk" og fyrir það er rukkað aukalega, og skýrist aukagjaldið af því að síminn tengist þá inn á kerfi hjá öðru símafyrirtæki og fyrir það ber að greiða. Það er svo sem alveg skiljanlegt ...
Það sem hins vegar er illskiljanlegt er þegar viðskiptavinur er rukkaður fyrir "roaming" þegar hann hefur haldið sig hverja einustu sekúndu ágústmánaðar innan þjónustusvæðis Three .... en það var einmitt það sem Three rukkaði Múrenuna og spúsuna fyrir ...
Three rukkaði Múrenuna og spúsuna um 265 dollara eða um tæplega 15.000 krónur fyrir "roaming" ... fyrir það að vera utan þjónustusvæðis. Þegar Múrenan óskaði eftir því að fá að vita hvar þau hefði eiginlega verið, harðneitaði Three að gefa staðsetningar upp, og hélt þess áfram að klifa á réttmæti áðurgreindrar upphæðar og blablabla ... og þess vegna varð Múrenan alveg snar!! Spúsan varð líka snar!!
Í kjölfarið mölbraut Múrenan allar þær gullnu samskiptareglur sem hún hefur lært í gegnum tíðina og sagði svona í stórum dráttum að Three gæti bara hoppað upp í #%%""*""? á sér. Því næst sagðist Múrenan ætla að halda áfram með þetta mál, við þetta yrði ekki unað ...
Þegar hér var komið sögu var þjóska komin upp hjá Múrenunni, en Múrenan getur orðið þrjóskari en andskotinn, ef svo ber undir, enda ekki afkvæmi móður sinnar, bróðir Huldu systur sinnar og Stebba bróður síns, frændi Nikka og frændi Snorra Stefánssonar fyrir ekki neitt!! Í 2 vikur var barist linnulaust með öllum tiltækum ráðum og eftir að hafa hótað að kæra Three fyrir "Australian Government´s Telecommunications Industry Ombudsman", sem er ríkisrekinn talsmaður neytenda í málum tengdum síma- og fjarskiptum, fóru hjólin loksins að snúast og Three felldi niður $265 ...
... og þetta fyrirtæki á bara að skammast sín!!! Rukka Múrenuna og spúsuna fyrir þjónustu sem þeim var aldrei veitt!!! Þetta er bara hreinn og klár þjófnaður!!
En svona til að farið sé rétt með, þá er Múrenunni sönn ánægja að tilkynna að hún og spúsan unnu málið ekki upp á eigin spýtur ...
Sigurinn ber fyrst og fremst að þakka skólabróður Múrenunnar Crighton Nichols, sem sá um flest öll þau samskipti við Three sem máli skiptu ... Drengurinn var algjörlega eins og hakkavél og malaði hvern þjónustufulltrúann á fætur öðrum mélinu smærra.
En eins og Múrenan hefur sagt við Crighton, þá vill hún frekar láta hann fá $265, heldur en láta siðblint stórfyrirtæki tæta aurana upp úr vasanum ...
En djöfull stóð hann sig vel drengurinn ... !!!
Þarna fengust því 265 dollarar ... þá á enn eftir að skýra hvernig Múrenan og spúsan græddu hina 170 - 180 dollarana ...
Og það er auðvelt ... sko ... um daginn þá hætti minniskortið í myndavél spúsunnar og Múrenunnar að virka. Það hætti að virka þannig að í stað þess að geta geymt eitthvað á 6. hundrað ljósmyndir, gat það geymt 35 myndir. Nýtt kort kostar 70 - 80 dollara ... þegar Múrenan var næstum búin að borga fyrir nýtt kort, álpaðist hún til að spyrja afgreiðslumanninn, af hverju "kapasítetið" á minniskortinu hefði minnkað svona dramatískt. "Prófaðu að "formatta" kortið", svaraði afgreiðslumaðurinn. Múrenan og spúsan fóru heim og "formöttuðu" kortið og viti menn ... kortið var eins og nýtt ... Það þurfti ekki að kaupa nýtt kort!!!
Að auki við þetta spöruðust $100 þegar Múrenan skilaði inn umsókn um að "uppgreita" námið úr master í doktor. Eftir að hafa samviskusamlega fyllt út umsóknina, sett inn kreditkortanúmer og fleira, tók starfsmaður Alþjóðaskrifstofunnar í háskólanum við henni og byrjaði á því að tilkynna að Múrenan þyrfti ekki að greiða $100 í vinnslugjald því hún væri nú þegar nemandi við háskólann í Sydney ... Múrenan var náttúrulega rosalega ánægð með það!!
Þetta er nú sagan af því þegar Múrenan og spúsan græddu 430 dollara á einum degi í Sydney!!
Til að halda upp á þennan árangur keyptu þau sér stórt heimskort og límdu það upp á vegginn í svefnherberginu ... þetta er dálítið óvenjulegt heimskort því Ástralía er á því miðju, í stað þess að vera neðst niðri í hægra horninu eins og flest öll heimskort sýna. Annað skemmtilegt er að á þessu korti eru tvö Íslönd og tvö Grænlönd, efst í hægra horninu og efst í vinstra horninu. Ekki dónalegt það!!
Spúsan og nýja heimskortið!! Af hverju hún bendir á þennan stað á kortinu er Múrenunni ekki alveg ljóst!!
Gaman væri að fá að vita hvernig lesendum Múrenunnar í Sydney líkar við kortið!!
Athugasemdir
Það er ekki að spyrja að þessum símafyrirtækjum, sama hvar í heiminum þau eru! Frábært hjá ykkur að gefast ekki upp og fá þetta í gegn. Lauga er greinilega að hugsa um fiskimiðin í utanverðum Biscay-flóa og dreymir líklega um að komast á skötusels- eða ansjósuveiðar. Um að gera að vera opinn fyrir sóknartækifærum!
Halldór (IP-tala skráð) 29.9.2007 kl. 03:50
ég er sammála síðasta ræðumanni - lauga vill greinilega fara að fiska - ég skal koma þegar ég hef lokið pungaprófinu og gera út með laugu! :)
en gott hjá ykkur að láta vaða í þetta helv. símafyrirtæki - verður spennandi þegar þið komið heim og valtið yfir símafyrirtækin hér og við öll hin njótum góðs af því með mun viðráðanlegri símreikningum! sem sagt nýtt átak -
bobba og laugu heim!
náum niður símreikningunum!
við íslendingar getum ekki beðið eftir ykkur!:)
smalinn sjálfur (IP-tala skráð) 30.9.2007 kl. 03:54
Murenan thakkar vel valin ord og reidubuin til barattu hvar og hvenaer sem er vid hvern sem er!!!
Páll Jakob Líndal, 8.10.2007 kl. 04:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.