13.9.2007 | 14:29
Trú, tungumál og skautar
Það er margt sem gengur á lífi Múrenunnar þessa dagana.
Förum aðeins yfir þetta.
Fyrir það fyrsta er nú verið að sækja um að uppfæra meistaranámið yfir í doktorsnám. Og telur Gary Moore prófessor og leiðbeinandi Múrenunnar að hún ætti að geta klárað doktorsnámið í desember 2009 sem er um það bil 2 árum fyrr en Múrenan hafði búist við upphaflega þegar haldið var í 'ann til Sydney í maí sl.
Í annan stað leggur Múrenan þunga áherslu á að öðlast ofurlitla innsýn í trúarbrögð. Samnemendur Múrenunnar eru, eins og áður hefur verið greint frá á þessari síðu, frá öllum heimshornum og þar af leiðandi eru mörg trúarbrögð stunduð innan veggja arkitektadeildarinnar ... búddismi og islam er það sem Múrenan hefur verið að fræðast um síðastliðna daga. Alveg stórmerkilegt ... og það er líka alveg stórmerkilegt að fylgjast með múslimunum núna þegar Ramadan hefur gengið í garð. Þeir mega ekki borða eitt einasta snifsi og ekki drekka dropa svo lengi sem sól er á lofti. Hér í Ástralíu þýðir það um 14 klukkutíma fasta á hverjum degi í 30 daga. Sem er nú bara slatti!!! Það er líka alveg frábært að sjá hvað þetta fólk tekur trúna alvarlega ... það er ekkert grín í gangi þar!! Enginn Múhammeð að auglýsa símafyrirtæki!!
Þá stundar Múrenan einnig nám í austrænum tungumálum, taílensku, kínversku og malísku (?!? - hér er átt við tungumálið sem talað er í Malasíu) ... lærdómurinn í dag var að læra að segja "já" ...
Tailenska: krap (með smá skrollandi r-i) ... NB! krap er þó aðeins sagt ef verið er að tala við karlmann ... Múrenan man ekki hvernig "já" er sagt við konu!
Kínverska: Shi-da eða bara shi ... Hér er shi borið fram eins og spurning, þannig að áherslan endar "uppi" en da-ið er borð fram eins og svar, þannig að áherslan endar "niðri" ... Múrenan hefur komist að því að Íslendingar eiga líklega auðvelt með að bera fram kínversku. Gjörólíkt því sem blasir við Áströlunum, algjörlega vonlausir í kínverskum framburði!!
Maliska: jeg ... býsna líkt íslenska "ég"-inu nema hvað g-ið er óraddað. Múrenunni fannst þessi útgáfa á "já"-i vera frekar fyndin en þó ekkert miðað við hvað Azman, hinum malasíska, fannst um íslenska "já"-ið. Hann sagði það hjóma eins og nafn ... "til dæmis heitir margt fólk í Kína, Já", sagði hann. Svona er það nú skrýtið!!
Í kvöld fór Múrenan á skauta, ásamt spúsunni, Rich, Jon, James, Neil og Fjólu.
Standandi: Spúsan, Rich, James og Neil
Sitjandi: Múrenan og Fjóla
Liggjandi: Jon
Rosafjör, sem endaði með tímatöku ... sko, til að útnefna sigurvegara kvöldsins, en það er mikilvægur þáttur á svokölluðum "fun-nights" hjá Davies Street genginu (R+J+J+N+F), var boðað til kapphlaups. Einfaldar reglur ... sá sem væri fljótastur að fara einn hring á skautasvellinu, hann ynni titilinn "maður kvöldisins".
Múrenan endaði í næstsíðasta sæti á tímanum 22,9 sekúndur, sem er ekki slæmur tími í ljósi þess að hún keyrði út úr brautinni!! Þetta er eiginlega bara brilliant tími miðað við það!! ;)
Neil vann á 17,4 sekúndum, spúsan og Rich voru í 2.-3. sæti á 18,6, Fjóla á 20,6, James á 22,6, svo Múrenan og loks Jon á 25,eitthvað (NB! Tímarnir eru ef til vill ekki hárnákvæmir hjá Múrenunni, en svona var þetta í stórum dráttum).
Hér má sjá sigurvegarann í síðustu beygjunni ...
Þegar þetta er skrifað (u.þ.b. 4 tímum eftir að svellið var yfirgefið) liggur spúsan fyrir, alsett marblettum eftir skautahlaupið ... hún datt mjög snyrtilega í eitt skiptið ... Múrenan hélt að dagar hennar væru taldir þegar hún horfði upp á ósköpin, sem voru þó ekkert miðað við það þegar Rich kom á fleygiferð yfir marklínuna, keyrði út af svellinu, á staur, flaug á hausinn og fékk 5 - 10 cm langan skurð á sköflunginn!! Þar að auki var hann hér um bil búinn að slátra Múrenunni með þessum aðförum sínum, en Múrenan var í hlutverki ljósmyndara á þeim tíma!!
Hér kemur Rich í mark ... svipurinn gefur til kynna að eitthvað sé ekki alveg eins og það á að vera og það var svo sannarlega rétt. Sekúndu síðar lá hann "utan vallar", slasaður ... Múrenan þakkar almættinu fyrir að hafa ekki orðið í vegi fyrir Rich í þetta skiptið!!!
Þess má geta að skautaferðin endaði eftir þetta atvik ... Rich fór á slysadeildina og voru þar saumuð 5 spor og var við hestaheilsu síðast þegar Múrenan vissi!!
Eins og sagt var í upphafi ... það er nóg að gera þessa dagana!!!
Athugasemdir
Það væri náttúrulega frábært að klára námið í des 2009. Nú er bara að halda rétt á spilunum, svona eins og Lauga gerir í póker! Er Múrenan komin á kaf í trúarbrögð, framandi tungumál og listdans á skautum?? Gaman að sjá að þið sitjið ekki auðum höndum þarna fleiriþúsundkílómetraíburtu
Halldór (IP-tala skráð) 18.9.2007 kl. 16:11
Vá hvað ég lifir eitthvað óspennandi lífi við hliðina á ykkur.En samt góðar fréttir er búin að kaupa mér far til LONDON. London baby yeh.
Þóra (IP-tala skráð) 20.9.2007 kl. 12:34
Ú Dr. Múrena hljómar vel!
Dagrún (IP-tala skráð) 23.9.2007 kl. 17:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.