6.9.2007 | 08:30
Mesti söngvari sögunnar hefur yfirgefið sviðið ...
Við að sjá fréttina af láti Pavarottis á mbl.is, fékk Múrenan sting í hjartað ... ekki það að það hafi komið henni á óvart, ... þegar nýrun eru hætt að starfa má gera ráð fyrir að endalok þessa jarðlífs séu skammt undan, en nýrnastopp var staðreyndin hjá Pavarotti á síðustu metrunum.
Mesti söngvari sögunnar látinn ... og um það leyti sem hann gaf upp öndina, gerði hellidembu hér í Sydney en um leið skein sólin, og það var einu líkara en það væri stórhríð væri skollin á ... mjög tilkomumikil sýn ... eitthvað sem Múrenan hefur ekki séð fyrr hér í Sydney!
En það eru ekki mjög mörg ár síðan Múrenan uppgötvaði snilli Pavarottis, og var söngnám Múrenunnar sem hófst árið 1999, þess valdandi. Og eftir að uppgötvunin átti sér stað var ekki aftur snúið ... Múrenan tók upp opinbert sviðsnafn - Pálarotti - sem hún notaði þó ekki nema innan mjög þröngs hóps, las bækur um snillinginn, spáði í söngtækni hans, nú og svo auðvitað hlustaði hún á þessa ótrúlegu rödd af geisladiskum!! Já, þessa ótrúlegu rödd!!!
Nú er kappinn allur og eftir stendur minningin um manninn sem lyfti óperutónlist upp á annan og nýjan stall ... eitthvað sem sumir aðdáendur hennar kunna ekki að meta ... en Múrenan dáist af!! Að opna óperuheiminn fyrir fjöldann, er eitthvað sem fólk þarf á að halda ... því eftir að dyrnar lukust upp yfir Múrenunni á þessu sviði hefur tilveran ekki verið söm og Múrenuna svíður undan því að heyra fólk segja að þetta sé gaul og væl, leiðinlegt, óaðgengilegt og svo framvegis!!
Óperur er meistaraverk og þegar frábærir tónlistarmenn, eins og Pavarotti, glæða þær lífi, er fátt sem stenst þeim snúning ... engin músík snertir hinn innri mann jafnvel og óperutónlist, það getur Múrenan skrifað upp á hvenær sem er. Vot augu, bara af einskærri hrifningu eru algeng ...
Þetta verða minningarorð Múrenunnar um vin sinn Pavarotti, mesta söngvara sögunnar og söngtæknilegt undur!! Vissulega væri sjálfsagt hægt að gagnrýna hann fyrir margt, en það eru nú ekki margir óperusöngvarar, sem geta státað sig af því að hafa verið klappaðir upp 17 sinnum í Metropolitan-óperunni í New York sama kvöldið ... svo dæmi sé tekið ... þá er ógreint frá öllum hinum afrekum Pava ...
Þú lesandi góður, ef þú hefur ekki gefið óperutónlist tækifæri, ættir að endurskoða hug þinn og slaka aðeins á "attitjútinu", svo þú farir ekki á mis við þennan stórkostlega heim ...
Hér fyrir neðan er linkur, þar þú getur byrjað að kíkja inn fyrir þröskuldinn ... láttu 6. september 2007, dánardag meistara Pavarottis, vera daginn sem þú byrjar að njóta töfra óperuheimsins.
Fyrir hina sem vel þekkja til þessarar tónlistar ... segir Múrenan bara "gjörið þið svo vel" ...
Þetta er Luciano Pavarotti, í hlutverki Rudolfo í óperunni La Boheme eftir Puccini ... Scala óperan og árið er 1979 ... arían "Che gelida manina" ... eitt yndislegasta "tónverk" sem samið hefur verið ...
Múrenan þakkar almættinu fyrir Pavarotti ...
Luciano Pavarotti látinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ég verð að vera hjartanlega sammála þér, stórmenni hefur kvatt þetta jarðlíf og við skulum þakka almættinu fyrir tæknina sem gerir okkur kleift að njóta söngs þessa meistara eftir hans dag.
Gestur (IP-tala skráð) 6.9.2007 kl. 18:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.