Í Sydney er frábært að vera - þakkarbréf og fleira

Það er ekkert smá fínt að vera í Sydney!!!  Lífið gjörsamlega leikur við mann!!  Ef þú hefur aldrei komið til Sydney, ættir þú að setja það á listann hjá þér!!!

Rétt í þessu var ég að koma inn ... hljóp 10 km svona rétt fyrir svefninn, og þetta var mitt fyrsta hlaup síðan á sunnudagsmorguninn þegar ég sigraði hálf-maraþonið í Bankstown.  Án þess að það eigi að hljóma fáránlega þá var það léttara en ég hafði búist við og tíminn mjög ásættanlegur.  1:52:12 eða einklukkustundfimmtíuogtværmínúturogtólfsekúndur.  Eins og áður hefur komið fram á þessari síðu var meiningin að vera undir 2:15:00 en augljóslega var töluvert vanmat í gangi að minni hálfu ... skýrist líklega af ömurlegu gengi í City2Surf-hlaupinu!!
Nú kemur náttúrulega ekkert annað til greina en að taka maraþonið þann 27. september nk., vonandi á undir 4 klukkustundum!!

Þessa dagana er ég á fullu að sækja um skólastyrk, ansi feitan, sem væri alger snilld að fá ... Eins og gjarnan er með svona umsóknir þá tekur þetta alveg ótrúlega langan tíma og afla þarf upplýsinga um alla skapaða hluti.  Og þá er gott að eiga góða að ... Benný reyndist til dæmis alveg ómetanleg í dag og í gær við upplýsingaöflun, sem var ansi erfiður ljár í þúfu fyrir mig vegna hnattrænnar stöðu minnar - opinberlega þakka ég þér fyrir það Benný!!!  Dóri, reyndist líka haukur í horni þegar ég leitaði til hans í fyrr í dag, klukkan 7 í morgun, nákvæmlega ... karl var þá víst á leiðinni í bælið eftir langa nótt við sýnaskoðun suður í Sandgerði.  Hann er sko að reyna að klára doktorsverkefnið sitt ... !!  Ég dúndraði einni spurningu á hann og fékk svar á svipstundu, með aðstoð internetsins.  Kærar þakkir fyrir það, kúturinn!!!
Arnar vinur minn lét heldur ekki sitt eftir liggja um daginn þegar hann sendi mér boð um að koma á Leifgötuna að horfa á enska boltann ... afskaplega þægilegt að vera ekki útilokaður af póstlistanum þrátt fyrir að eiga ekki heimagengt eins og sakir standa.  En um jólin skal ég koma og horfa á boltann ... takk fyrir boðið, hlunkur!!!
Svo má náttúrulega ekki gleyma Öbbu ömmu í Varmahlíð sem sendi okkur prinspóló, brjóstsykur og lýsi ... Kærar þakkir, fyrir það ... Lauga fríkaði út þegar hún opnaði pakkann, því þegar ég kom heim var búið að dreifa súkkulaðinu út um allt rúm ... ég hélt að hún væri orðin brjáluð, konan!!

Svo fá líka allir þeir sem hafa verið að senda okkur tölvupósta eða póstkort bestu kveðjur ... við elskum ykkur líka!!!  Sigrún frænka sendi okkur kveðju á Facebook-vegginn - takk fyrir það.  Hulda systir sendi mér boð um að að bréf væri á leiðinni, handskrifað upp á gamla mátann!!  Ítarlegt og skemmtilegt tölvubréf barst frá Báru mágkonu - frábært að fá það!! 
Sérstaklega má svo þakka Þóru fyrir síðasta tölvupóst ... já, það má þakka opinberlega fyrir hann ... hann var afskaplega fallegur get ég sagt ykkur!!!

Samhliða umsóknarferlinu, þarf náttúrulega að halda áfram með mastersverkefnið ... rannsóknin mín þokast með öðrum orðum áfram, hlutirnir eru alltaf pínulítið að skýrast, þó vissulega eigi maður rosalega langt í land ... enda skiljanlegt ... verkið er rétt nýhafið.
Supervisorinn minn er afskaplega áhugasamur um það og ekki síður aðstoðar-supervisorinn.  Hann er svo ánægður að honum finnst nánast allt sem ég segi vera "brilliant".  "Þetta er alveg rosalega áhugaverð hugmynd", "já, þetta er mjög sniðug nálgun", "frumleg þetta" og svo framvegis ... svo hrúgar hann á mig alls kyns bókum sem gæti verið fyrirhafnarinnar virði að kíkja í, nefnir 100 höfunda sem gætu verið áhugaverðir í þessu sambandi og talar svo í klukkutíma við mig um allt og ekkert.

Samnemendur mínir eru líka snillingar ... ég deili skrifstofu með einhverjum mestu snillingum sem ég hef hitt.  Leilei Xu frá Kína og Chumporn Moorapun frá Taílandi ... rosalega fínir krakkar, alveg meiriháttar.  Svo eru líka nemendur frá Bangladesh, Íran, Indlandi, Malasíu og fleira og fleira ... afskaplega fjölþjóðlegt.  Til dæmis í hádegismatnum í dag, sátum við sex við borð, Ísland, Kanada, Kína, Bangladesh, Íran og Taíland ... þrjár heimsálfur og þrjú trúarbrögð (buddha, kristni og islam). Og við ræddum um mat, matarvenjur, húsakynni, verðlag, peninga og trúmál.  Ótrúlega skemmtilegt.  Fimm bænastundir á dag hjá múslimunum.  Hótelgisting í sveitahéruðum í Kína 100 kr. nóttin.  Íran er eitt öruggasta land í heimi til að ferðast!!!  Út að borða í Bangladesh, rífleg máltíð, 25 kr.  Ísland - hamborgaratilboð 800 kr. eða eitthvað álíka!!  Ástralía ... 700 g af nautahakki, 300 kr.  Ótrúlegt?? Ólíkt??  Já!!!  Skemmtilegt???  Frábært!!

Já og svo er náttúrulega eitt verkefni sem ég er með í gangi núna ... alveg rosalega skemmtilegt.  Ég er að undirbúa fyrirlestur sem verður á ráðstefnu á Íslandi þann 27. september nk ... sama dag og maraþonið.  Reyndar ætla ég nú ekki að flytja hann í eigin persónu og þó aldrei að vita hvað tölvutæknin getur gert í því sambandi.  Fyrirlesturinn er um sálfræðileg áhrif trjáa og hvað þau geta gert fyrir mannskepnuna ... æðislegt viðfangsefni.  Hvet alla til að fara inn á www.rit.is og tékka á ráðstefnunni.  Jafnvel gæti verið sterkt að kaupa sér áskrift af Sumarhúsinu og garðinum og Gróandanum í leiðinni ... frábær blöð, full af áhugaverðu efni og ekki spillir að undirritaður er meðal greinarhöfunda í þessum blöðum!!!

Veðrið ... æði!!  Þrátt fyrir að Ástralir kvarti fyrir kulda og vætu, síðustu vikur, þá verð ég að segja að þetta hefur verið eitt besta sumar sem ég hef upplifað ... þrátt fyrir að það sé vetur hér!!!  Með öðrum orðum, skítavetur í Ástralíu er betri eða að minnsta kosti jafngóður og fínasta sumar á Íslandi!!

Nóg í bili ... kíktu endilega líka á síðuna hennar Laugu, einhvers mesta snillings í heiminum í dag!!!  Slóðin er www.123.is/lauga


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Svona eiga þakkarbréf að vera! Ég er ekki frá því að Múrenan hafi meyrnað örlítið við öll hlaupin   Frábært að sjá og heyra hvað ykkur líður vel þarna úti....

Halldór (IP-tala skráð) 22.8.2007 kl. 15:01

2 identicon

Alveg velkomið :) vonandi rúllar styrkurinn inn á borð hjá þér eins og ekkert sé!!

Benný (IP-tala skráð) 22.8.2007 kl. 22:17

3 identicon

gætilega hvern þú kallar hlunk...  hlunkur.  hljóp maraþonið um síðustu helgi.... :)

frex (IP-tala skráð) 23.8.2007 kl. 15:09

4 Smámynd: Páll Jakob Líndal

Það gat verið að Frexið væri á undan Múrenunni að rúlla upp maraþoni!!!  Til hamingju með það, Oddur S. ... þú hefur greinilega litlu tapað síðan þú hljópst með John Dick upp og niður, Haukagilsbrekkurnar, um miðjan 9. áratug síðustu aldar ... þegar þið voruð að "passa rollur"!!  Frábært!!  Gefurðu upp tímann ... svo John Dick hafi eitthvað til að keppa að???

Varðandi athugasemdina frá Halldóri, þá er það rétt að Múrenan hefur meyrnað ... en höfum það í huga að "fjarlægðin gerir fjöllin blá og mennina mikla".  Það gæti því orðið hörð lending þegar Múrenan kemur aftur til Íslands og fjarlægð milli manna breytist úr tugþúsundum kílómetra yfir í fáeina metra ... Þá sennilega harðnar Múrenan á nýjan leik!!

Benný - sendi þér meira kók og prins þegar styrkurinn kemur!!!

Páll Jakob Líndal, 23.8.2007 kl. 21:59

5 identicon

Elsku Bobbi en gaman að heyra hvað allt gengur vel og lífið leikur við ykkur.

Knús og kossar

Sigrún and the lads 

sigrún frænka (IP-tala skráð) 25.8.2007 kl. 09:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband