17.8.2007 | 13:12
Niðurstaða og myndavélar
Endanleg niðurstaða úr City2Surf hlaupinu er komin ... Múrenan á topp 10.000, nánar í 9.087. sæti af 64.173 keppendum!!! Meiningin var náttúrulega að vera á topp 500 ... en jæja ... 81:10 mínútur dugðu skammt að þessu sinni!!
En fyrir áhugasama, og Múrenan veit að þeir eru einhverjir, þá er hægt að sjá glæsilega mynd sem tekin var af Múrenunni þegar hún nálgast markið. Því miður er ekki hægt að "copy-paste" myndina hingað inn á síðuna, því hún er til sölu ... já, herrar mínir og frúr ... Múrenan getur keypt mynd af sér, hrikalega mynd, fyrir morðfjár!! Já, og svo er líka hægt á heimasíðu The Sun Herald, að sjá video-klippu, þegar Múrenan rennur tignarlega í mark ...
Sjón er sögu ríkari - hér er linkurinn.
Ekki láta þér samt bregða í brún þó Múrenan sé ávörpuð með nafninu Malcolm á áðurnefndri heimasíðu. Múrenan gekk nefnilega undir dulnefni í hlaupinu ... Malcolm Perkins fullu nafni. Það skýrist af því að Jon sem leigir með Fjólu og félögum á Davies-street, skráði sig til leiks á tímanum hans Malcolms, það er að segja tímanum sem Malcolm fékk í fyrra. Það gerði hann til að komast í ráshóp 2, en samtals eru ráshóparnir 4 ... en Jon tók bara tímann hans Malcolms frá því í fyrra, þannig að ef hinn raunverulegi Malcolm Perkins hefði líka viljað hlaupa í ár þá var það ekkert mál ... þá væru bara tveir Malcolm Perkins ... en svo gat Jon ekki hlaupið þannig að Múrenan fékk þátttökumiðann hans og hljóp því sem Malcolm Perkins ... !!! Einfaldara getur þetta nú bara ekki verið ...
En þrátt fyrir kannski ekkert sérstakan árangur um síðustu helgi þá er Múrenan ekki hætt að reyna fyrir sér í hlaupum!! Núna um helgina tekur Múrenan þátt í Banks Town hálf-maraþoninu. Að enda á topp 500 ætti að vera nokkuð öruggt í þessu hlaupi því þátttakendur eru sjaldnast, eftir því sem síðustu fréttir Múrenunnar herma, fleiri en 200. Flestir þátttakendur í þessu hlaupi eru að taka þennan 21 kílómetra á 1,5 - 2 klukkustundum, þannig að Múrenan býst við að vera frekar aftarlega á merinni ... en markmiðið er að skila sér í mark helst á innan við 2 klukkutímum og 15 mínútum. Hvort það tekst kemur svo bara í ljós!!
Að minnsta kosti er Múrenan búin að undirbúa sig vel ... borða mikið af kolvetnum í dag og var um það bil að verða reddí fyrir hlaupið kl. 7:30 í fyrramálið, þegar James, hlaupafélagi Múrenunnar, benti henni á að hlaupið væri á sunnudagsmorguninn!! Sú vitneskja riðlaði óneitanlega dálítið undirbúningnum ...
En að allt öðru ... Múrenunni fannst óneitanlega dálítið undarlegt um daginn að ræða myndavélar og skerpu í myndum við Terry aðstoðarleiðbeinandann sinn.
Ókei, ... til útskýringar ... Terry er prófessor hér í háskólanum í Sydney, mjög virtur fræðimaður og hefur skrifað alveg fullt af vísindagreinum og gert alveg helling af rannsóknum, sem eru innan áhugasviðs Múrenunnar. Þess vegna er Terry það sem kallað er hér "associate supervisor" Múrenunnar og í ljósi þess hittast Múrenan og Terry í hverri viku til skrafs og ráðagerða ... Terry matar þá Múrenuna af alls kyns upplýsingum, sem gott er fyrir hana að hafa bak við eyrað ... og hún spyr viturmannlegra spurninga á móti!!
Á síðasta fundi Múrenunnar og Terrys bar myndavélar á góma ... þá spurði Terry Múrenuna hvers konar myndavél Múrenan ætti ... "Canon 350" svaraði hún "hún er mjög góð!!" Já, Terry sagðist vel trúa því en hann ætti í vandræðum með að treysta "digital"-myndavélum ... "þær brengla það sem maður er að taka mynd af ... jafna út "kontrasta" og blablablabla ... " Löng ræða um "fítusa" á myndavélum og skerpu í myndum. Múrenan reyndi af alefli vera gáfuleg meðan Terry talaði. Terry lokaði svo langri ræðu með eftirfarandi: "Þess vegna notast ég bara við filmumyndavélar, ennþá ... en ég þarf náttúrulega eitthvað að fara að kynna mér hvað er á borðstólnum ... og fá mér góða vél. Kannski kíki ég bara á vél eins og þú ert að nota!!"
Múrenan vissi ekki alveg hvað hún átti að segja ... þetta voru óneitanlega dálítið skrýtnar aðstæður, því ...
Terry er með langt gengna hrörnun í augnbotnum og sér ekki baun!!!
Athugasemdir
Kannski spurning um að lána Terry myndavélina fyrir næsta hlaup og biðja hann um að smella einni af við endalínuna þegar "Malcolm Perkins" kemur valhoppandi sem tignarleg antilópa!
Halldór (IP-tala skráð) 22.8.2007 kl. 15:11
Múrenan man ekki hvort hún hefur nefnt það en spúsan var mætt að endalínunni í City2Surf hlaupinu, einmitt til að taka mynd af Múrenunni, undir dulnefninu Malcolm Perkins, þegar hún rynni í mark ...
Það reyndist nú ekkert sérstaklega árangursríkt ... Lítum á þetta. Hlaupið hófst klukkan 9.00 og kl. 11.00 gafst spúsan upp á því að bíða eftir að Múrenan (Malcolm Perkins) rynni í mark. Staðreyndin var hins vegar sú að Múrenan kom í mark klukkan 10:20 og hljóp því greinilega framhjá spúsunni án þess að hún tæki nokkurn skapaðan hlut eftir því ...
Múrenan fagnar því hugmynd Halldórs um að lána Terry myndavélina fyrir næsta hlaup ... árangurinn gæti allavegana ekki orðið verri en hjá hinni alsjáandi spúsu!!
Páll Jakob Líndal, 23.8.2007 kl. 22:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.