Er Múrenan héri??

Jæja, nú ryðst Múrenan aftur fram á ritvöllinn, eftir nokkurt hlé, sem skýrist af þeirri einföldu ástæðu að Múrenan er alltaf að fara að sofa og hefur því ekki haft tíma til að rita eitt einasta snitti inn á vefsíðuna!!

Já, dagarnir hér í Sydney líða svo hratt að Múrenunni finnst hún eiginlega ekki gera neitt annað en vera að fara að sofa ... svo einfalt er það nú bara!!

En að öðru ... eins og áður hefur verið sagt á síðunni er Múrenan orðin hlaupagikkur hinn mesti ... tugir kílómetra er lagðir að baki í hverri viku.  Og það besta er að henni finnst þetta bara helvíti fínt ... hinn óendanlega mikli leiði sem fylgdi útihlaupum í eina tíð hefur vikið fyrir mun jákvæðari hugsunargangi!!  Enda hefur Múrenan tekið sjálfa sig í sálfræðimeðferð að þessu leytinu og breytt viðhorfunum ... ja sko!!

Og í dag var ofurlítið tékk á líkamsástandinu ... því í dag var hið margfræga Sun Herald City2Surf hlaup haldið í 37. skipti.  Múrenan var mætt á ráspól klukkan 9.00 í morgun ásamt 64,712 öðrum þátttakendum en sem fyrr beindist kastljósið að Múrenunni ... þyrlur sveimuðu yfir höfði hennar, myndatökumenn voru alls staðar, lögregla, sjúkralið ... og fleira. 

Í dag ætlaði Múrenan að kenna Sydney-búum hvernig á að ná árangri í 14 kílómetra hlaupi!!  Enda þaut hún eins og eldibrandur af stað, um leið og skotið reið af.  Vandamál Múrenunnar fyrstu 2 - 3 kílómetranna var fyrst og fremst aðrir þátttakendur sem voru að þvælast fyrir.  En af því hafði Múrenan þó ekki áhyggjur.  Þeir myndu smám saman hrynja niður.  Múrenan var einbeitt og örugg.  Þetta yrðu léttustu 14 kílómetrar í sögunni, gott ef hún myndi ekki fara þetta á innan við 70 mínútum.  Það væri svo sem ásættanlegt!!

IMG_9185

Eftir að hafa þrætt krókóttan stíg í gegnum lúsablesana sem ekkert gátu hlaupið, var Múrenan komin á mjög gott tempó eftir um 4 - 5 kílómetra.  Við henni blasti sjálf "Heartbreak Hill" en samkvæmt upplýsingum Múrenunnar er það víst sá staður þar sem flestir "hlaupararnir" gefast.  Þar byrjar liðið að labba ... hahahahahaaa ... Heartbreak Hill!!  Þvílíkt grín!!  Pínulítill brekkuskratti!!

Í öryggisskyni hægði Múrenan þó aðeins á sér í Heartbreak Hill ... hlaupataktíkin var nefnilega sú að reyna að spara sig aðeins í brekkunni og taka svo á sprett þegar hringtorgi á toppi hennar væri náð.  Hlaupa svo eins og með andskotann á hælunum niður Military Road, allt niður í móti og verða fyrstur í mark af þeim sem voru í ráshóp 2 ...

Ósvífinn maður, örugglega blindfullur, var úti í garði við hús eitt sem stóð við Heartbreak Hill og öskraði að "við ættum að drulla okkur áfram ... þeir fyrstu væru komnir í mark!!"  Þá var Múrenan búin að hlaupa í 45 mínútur og átti að minnsta kosti eftir um 6 km.  Múrenan hugsaði honum þegjandi þörfina ... "Fáviti ... "

Jæja, Múrenan þaut fram úr hverjum á fætur öðrum, gamlar kerlingar, feitir karlar, litlir krakkar, allt var þetta skilið eftir í "rykmekki".  Loksins var hæsta punkti Heartbreak Hill náð, Múrenan andaði léttar ... ekki samt að skilja svo að hún hafi verið eitthvað þreytt ... alls ekki ... hún var meira að hugsa um hvað öllum hinum þátttakendunum væri létt að vera komnir upp mesta hallann.

En svo fóru málin að flækjast því þegar þarna var komið sögu blasti við önnur brekka.  "Hvur andskotinn!!" hugsaði Múrenan.  Og eftir að hún var sigruð, birtist önnur.  "Hvur andskotinn!!!"  Og enn önnur!!!  Múrenan var farin að finna til óþæginda ... sólin var eitthvað svo sterk ... já, greinilega var hún ekki alveg vön því að hlaupa í svona hita.  Hún æfir nefnilega á kvöldin en ekki á morgnana ...

Brátt fór Múrenan að veita því athygli hún var hætt að taka fram úr öðrum keppendum ... hún var meira komin í það hlutverk að aðrir tóku fram úr henni!!!  Það var svo sem allt í lagi ... þótt nokkrir karakterar tæku framúr.  Nei, heyrðu mig nú ... sextug kerling tók fram úr og ein fyllibytta líka!!!

Loks voru brekkurnar yfirstaðnar.  Hjúkk!!  Nú var kominn tími til að gefa verulega í.  Það er víst kallað endasprettur!!  En það gerðist ekkert!!!  Sama hvað Múrenan reyndi að gefa í, hún jók ekkert hraðann, þó leiðin lægi niður í móti.  10 kílómetrar að baki ... og nú byrjaði holskeflan ... á næstu 2 kílómetrum tóku fram úr Múrenunni, fleiri gamlar konur, drykkjuboltar, börn, foreldrar með barnakerrur, feitir miðaldra karlar, aldraðir karlar, ungar stelpur, menn á besta aldri, konur á besta aldri og áfram mætti telja ... Múrenan réð ekki neitt við neitt ...

Taktík Múrenunnar hafði alls ekki gengið upp ... hún hafði ofmetið líkamlegt ástand sitt ... tekið of mikið út af "reikningnum" í fyrra hluta hlaupsins, upp hina illvígu Heartbreak Hill.  Þetta er náttúrulega alveg svakaleg brekka, það bara tæmist út af batteríunum hjá manni ... Ástandið nú var niðurlægjandi ... í staðinn fyrir endasprettinn ógurlega, var markmiðið það eitt að komast í mark!!!

"Ég ætla aldrei að hlaupa aftur!!!  Ég ætla aldrei að taka þátt í almenningshlaupi aftur!!  Aldrei, aldrei!!"  

13 kílómetra markinu var náð þegar komið var niður á Bondi Beach - frægustu strönd Ástalíu.  Þar var mannhaf að taka á móti hlaupurunum ... Múrenan virtist nú ekki fá neina sérstaka athygli, ólíkt því sem hún hafði búist við ... en mikið lifandis skelfing var hún fengin því.  Nær dauða en lífi reyndi hún að keyra upp hraðann síðustu 200 metrana ... niðurstaðan vægast sagt slök, að minnsta kosti ef miðað er við fyrri áætlanir ... 14 kílómetrar á 84:10 mínútur.  Þetta skánaði þó aðeins við það að heyra að 5 mínútur dregnar teknar af tímanum ... þannig að líklega er tíminn 79:10 ... það kemur þó í ljós á þriðjudaginn þegar úrslitin, allir 64,713 tímarnir verða kunngjörðir í blaðinu ... í sérhefti!!

Múrenan bíður spennt ... og mun tilkynna formlega frá úrslitum!!

IMG_9180


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kostuleg lýsing og alveg hreint magnað hlaup hjá Múrenunni!  Frábær þessi í garðinum sem hvatti ykkur til að drullast áfram þar sem þeir fyrstu væru komnir í mark!!

Ef við skoðum tímann aðeins nánar þá skiptir töluverðu máli að draga þessar 5 mín frá: 14 km á 84:10 mín = 9,99 km/klst (2,77 m á hverri sekúndu) en 14 km á 79:10 mín = 10,61 km/klst (2,95 m á hverri sekúndu). Það er eiginlega lágmarkið að halda meðalhraða yfir 10 km/klst....en það er jú ca. tvöfaldur gönguhraði

Var þetta ekki annars fín upphitun fyrir maraþonið í september? Múrenan passar sig væntanlega á að byrja hægar og vanmeta ekki brekkur, sólina, hitann, gamlar konur, feita miðaldra karla, foreldra með barnavagna.......!

Halldór (IP-tala skráð) 13.8.2007 kl. 20:37

2 Smámynd: Páll Jakob Líndal

Múrenan þakkar Halldóri fyrir áhugaverða útreikninga og tekur undir það að lágmarkið sé að halda meðalhraða yfir 10 km/klst (2,95 m/sek) ... í Banks Town hálfmaraþoninu næstu helgi mun Múrenan hafa þetta í huga!

Páll Jakob Líndal, 14.8.2007 kl. 12:54

3 identicon

Hálfmaraþon næstu helgi??? Menn og Múrenur verða nú að passa sig á álagsmeiðslum. Einn möguleikinn er að grípa til hraðgöngu (ein tignarlegasta greinin á ólympíuleikum) en sem dæmi þá gekk Ástralinn Nathan Deakes 50 km á hvorki meira né minna en 3 klst 35 mín 47 sek (13,91 km/klst)!! Þetta er reyndar heimsmetið en eftir smá liðleikaæfingar fyrir mjaðmir er aldrei að vita.....

Halldór (IP-tala skráð) 14.8.2007 kl. 16:43

4 identicon

Run Forrest, RUN!!   

Helga Guðrún (IP-tala skráð) 14.8.2007 kl. 21:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband