Pakkinn mikli frá Sauðárkróki

 Á mánudagskvöldið síðasta spurði spúsan Múrenuna: "Hvenær heldur þú að pakkinn komi?"  Múrenan var ekki viss en spáði því að hann kæmi örugglega á fimmtudaginn.  En svo bætti hún við: "Samt býst ég meira við því að hann komi á miðvikudaginn ... ég byggi þessa röksemdarfærslu á þeirri staðreynd að ég er ákaflega lítið spámannlega vaxinn." 

Og þetta reyndist allt saman alveg kórrétt hjá Múrenunni ... því þegar Múrenan og spúsan komu heim á miðvikudagskvöldið beið þeirra afskaplega fallegur, gulur pakki með rauðu ívafi.  Nafn spúsunnar var á kirfilega merkt í línurnar þar sem ætlaðar voru fyrir upplýsingar um viðtakanda pakkans ...

Sendandi var hin eina sanna spúsu-móðir frú Steinunn Hallsdóttir ... á Sauðárkróki!!

Það er óhætt að segja gleði hafi gripið um sig, þegar pakkinn var opnaður, því innihald hans uppfyllti allar óskir og gott betur ... Appolo-lakkrís, Nói-Síríus súkklaði, súkklaðirúsínur og harðfiskur frá Vestmannaeyjum ...

Múrenan tók til óspillra málanna ... reif upp lakkríspokann, súkkulaðirúsínurnar og einn súkkulaðipakkann á augabragði og næstu mínútur mátti heyra lítið annað frá Múrenunni en "tyggjjj ... kjams ... tyggjjjj ... kjams ... "  Það skal tekið fram að spúsan fékk svolítið af góðgætinu en líkt og venjulega passaði Múrenan það vel að hún fengi ekki of mikið ... því of mikið sælgætisát skemmir nefnilega tennur ... þannig að það verður að fara varlega í það. 

Hins vegar hefur Múrenan ákaflega sterkar tennur þannig að óþarfi er að hafa miklar áhyggjur af henni ... hún kann líka að stoppa þegar komið er gott ... ólíkt spúsunni sem étur uppúr heilum lakkríspoka á örfáum mínútum og segir í hvert skipti sem hún stingur mola upp í sig "ég má ekki borða lakkrís!" 

En Steina á heiður skilinn fyrir þetta ... Múrenan þakkar ástsamlega fyrir sig og spúsan gerir það örugglega líka ...

Reyndar stóð nú til að birta myndir með færslunni, myndir af því þegar góðgætið var tekið upp úr kassanum ... en nú eru góð ráð dýr því tölvan sýnir slíkar kúnstir að Múrenan fær ekki við neitt ráðið, ekki einu sinni munnsöfnuðinn sem hún viðhefur um blessaða tölvuna ... " ... en þetta er meira helvítis tölvudraslið!!!"

En aftur takk, takk ...

(30 mínútum síðar)

Múrenan hefur beygt tölvuna til hlýðni þannig að hérna eru myndirnar frá kassamóttökunni!!!  Gjörðu svo vel!!!

IMG_8427

IMG_8428


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Smá fróðleikur....  Múrena: lat. Muraena helena, e. Moray eel. Hefur gríðarsterkar tennur , er mjög árásargjörn  og ræðst helst til atlögu að nóttu til . Múrenan étur flest sem að kjafti kemur en hún felur sig iðulega í glufum og sprungum og sprettur fram sem elding þegar hún hremmir bráðina .  Hún beitir öllum ráðum til að vernda tennur maka síns.

"Yfirleitt nálgast Spúsan fæðuna af yfirvegun en hið sama verður ekki sagt um Múrenuna. Hún ræðst á bráðina með offorsi og rífur hana í sig með gríðarsterkum tönnunum en af þessum sökum getur Múrenan orðið meira en tvöfalt þyngri en Spúsan. Umhyggja fyrir tannheilsu makans er talin helsta skýringin á þessari hegðun Múrenunnar en í gjörvöllu dýraríkinu er slík umhyggja talin afar sjaldgæf." Lifandi Vísindi 2007, vol.6: 20-21.

Ég get rétt ímyndað mér gleðina en það er fátt betra en "heimalagað" sælgæti og harðfiskur!! Frábært hjá Steinu og Gunna að senda ykkur þennan pakka yfir hálfan hnöttinn.  

Halldór (IP-tala skráð) 3.8.2007 kl. 19:53

2 Smámynd: Páll Jakob Líndal

Það skal tekið fram að Halldór er um það bil að ljúka doktorsnámi í sjávarlíffræði, þannig að öllum sem lesa þetta er óhætt að taka mark á því sem hann ritar ... 

Múrenan hefði ekki getað gefið betri lýsingu á sjáfri sér ... þó hún fengi borgað fyrir það!!!

Takk fyrir það!!! 

Páll Jakob Líndal, 4.8.2007 kl. 08:22

3 identicon

Það þarf ekki að spyrja að græðginni í skepnunni...

Helga Guðrún (IP-tala skráð) 5.8.2007 kl. 17:12

4 identicon

Svipurinn er rosalegur! Hefðir ekkert þurft textann hehe...

Dagrún (IP-tala skráð) 7.8.2007 kl. 20:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband