Leitin að Gordonfossum - 9. hluti

Jæja, allt tekur enda ... líka ferðasagan "Leitin að Gordonfossum" ... hér er 9. og jafnframt síðasti hluti hennar. 

En áður en öllu lýkur er best að fara yfir hvernig sagan endar ... því í lok 8. hluta var útlitið ekki beisið ... Múrenan búin að missa lífsviljann eða hvað??  Þráðurinn er tekinn upp hér ...

... komu þau að brú og svo tröppumannvirki miklu ... heldur óskiljanlegu, sem lá í allar áttir, eins og köngullóarvefur (sjá mynd í 8. hluta) ... Skyndilega var eins og Múrenan hreinlega vaknaði ... öll gleði, kæti, galsi og glettni var á bak og burt ...

Spúsan kjagaði niður tröppurnar ... Hún leit upp skælbrosandi ...

"Eftir hverju ertu að bíða??" spurði hún svo ...  Múrenan stóð eins og stytta og hreyfði hvorki legg né lið ... hún var að hugsa.  Og um hvað hugsaði hún??  Hún hugsaði um það hvort spúsan myndi nokkurn tímann komast aftur upp tröppurnar ... það er svo miklu auðveldara að fara niður tröppur  en upp þær ef harðsperrur eru að angra mann ...

Gæti verið að Múrenan þyrfti hreinlega að skilja spúsuna bara eftir?? ... Múrenan starði bara út í loftið ... Svo rankaði hún við sér ... það var víst best að brjóta upp stemmninguna núna með því að taka bara mynd ...

"Heyrðu, viltu ekki taka mynd af mér þegar ég labba hérna niður tröppurnar??"  spurði Múrenan ... "Jú, en nennir þú þá ekki að koma niður með vélina til mín?  Það er nefnilega svo vont að fara upp ..."  Sko ... þarna sérðu lesandi góður ... þekking Múrenunnar á harðsperrum virtist stemma nákvæmlega en hún minntist ekkert á þetta.  "Jú, jú ... ég get svo sem alveg gert það" og svo stokkaði Múrenan léttilega niður tröppurnar, afhenti vélina og tölti svo mjög lipurlega upp aftur ... sneri við og labbaði niður þær aftur ...

IMG_8254

Þar með voru þau bæði staðsett í miðju köngullóarvefs-stigans ógurlega ... "Hvert skal halda?" spurði Múrenan svo ... "Hingað!"  Spúsa gaf merki um stefnu.  Upp fjórar tröppur ...  Múrenan tætti upp tröppurnar ... hún var svo ofsalega létt á sér og kraftmikil að hún varla réð við það ... dálítið svona eins og 500 hestafla, upptjúnnaður Ford Mustang með flækjum og á breiðu dekkjum að aftan ... hvað svo sem það þýðir!!??!  Allavegana í gríðarlega góðu formi!!!   

Spúsan ætlaði varla að hafa sig upp tröppurnar ... "Guð minn góður", hugsaði Múrenan ... "þetta lítur illa út ... hún fór upp fjórar tröppur núna en á bakaleiðinni eru 361 trappa í það minnsta!!"

En þegar upp tröppurnar fjórar var komið blasti við fögur sjón ... foss  ... jafn lítill og ræfilslegur og allir hinir fossarnir sem Múrenan og spúsan höfðu séð á leiðinni, rifjum þá upp ... Katoombafossar og Leurafossar ...

Nú tók Múrenan upp kortið sigri hrósandi ... þau höfðu fundið Gordonfossa ... loksins!!!  Múrenan hló. Loksins!!! ... En spúsan var eitthvað efins ...

"Leyfðu mér aðeins að sjá kortið!" skipaði hún höstugum rómi ... Múrenan rétti henni kortið.  Hún horfði lengi á það.

"Þetta geta ekki verið Gordonfossar ... " sagði hún svo.  "Jú, jú, þetta eru Gordonfossar!!"  Múrenan var handviss ...  "Nei, sjáðu hérna ... sko ... hérna eru Leurafossar, svo fórum við hérna, þar sem frostnu greinarnar voru ... við löbbuðum framhjá Olympic Rock og svo yfir brúna og tröppurnar og svo hingað og ... við erum hérna núna!!"  Hún benti með vísifingri á kortið. 

IMG_8407 

"Nei, það getur ekki verið ... hér eru Gordonfossar merktir inn og við höfum ekki farið framhjá neinum fossum ... þannig að með einfaldri rökhendu þá má finna það út að þetta eru Gordonfossar!!!"  Múrenan var eins viss og hægt er að vera ... sum sé 100% viss!!

Það er alveg hiklaust hægt að sleppa stórum kafla úr sögunni núna ... því þarna stóðu þau við einhverja sprænu sem lak niður klettavegg og deildu um hvort þetta væri Gordon eða ekki ...

En kortið virtist engan veginn fært um að veita þær upplýsingar, sem óskað var eftir ... það var óumdeildanlegt ...

Eftir kítið vildi spúsan setjast í sandinn, sem þarna var ... já, við hylinn hafði safnast mulinn sandsteinn ... tjaaaa, líklega er auðveldast og skýrast að tala bara um sand í þessu tilfelli ... ókei ... spúsan vildi setjast í sandinn en ...

... það var hægara sagt en gert því harðsperrurnar voru samar við sig!!!

Það voru því kostuleg tilfæringar sem Múrenan hafði fyrir augunum þegar spúsan, eftir töluverða umhugsun, lét sig bara falla hátíðlega á óæðri endann ... minnti helst á gamlan fullan karl ... nei, þetta minnti á kú sem var leggjast.  Fyrir þá sem ekki vita hvernig kýr leggjast þá skal það útskýrt hér ... þær fara fyrst niður á framfótarhnéin og eftir ofurlítinn andlegan undirbúning láta þær sig falla á aðra hvora hliðina með töluverðum tilþrifum.  Þessum aðgerðum fylgja oft miklar stunur og þegar allt er komið í rétt horf, láta þær sig ekki muna um að andvarpa svo innilega að fá dæmi eru um annað eins ...

... það var því með þessum hætti sem spúsan fékk sér sæti í sandinum fyrir framan fossinn ... 

IMG_8257

En tilveran virtist að öðru leyti vera í mjög alvarlegum hnút ... voru þetta Gordonfossar eða ekki???  Mikið lifandis skelfingar ósköp óskaði Múrenan nú að velinnrætta og prýðilega málfarna stúlkan í upplýsingunum nærri lestarstöðinni myndi birtast og höggva á þennan hnút ... en því miður, það gerðist ekki.  En hvað átti hún eiginlega með það að láta Múrenuna fá svona ömurlega lélegt kort??  Múrenan ætlaði að klaga ... einhvern tímann ...

"Voru Gordonfossar ekki bara þar sem við fórum fyrir brúna??" spurði spúsan svo eftir drykklanga stund, þar sem hún sat í sandinum.  "Nei, það getur ekki verið ... það voru nú bara tré undir þessari brú, það rann ekki deigur dropi undir hana ... "  "Hafa þeir þá ekki bara þornað upp??  Það er nú ekki eins og þetta séu einhver stórfljót sem renna fram af þessum klettasillum!!"  "Já, en kommon ... á kortinu virðist þetta vera hið virðulegasta vatnsfall ... en hvaða foss er þetta þá?"  "Ég veit það ekki!!  Þetta bara stemmir ekki ... "

Tíminn leið ... og loks kom að því að spúsan reyndi að standa upp ... ekki voru tilþrifin minni nú en þegar hún settist ...

... hún velti sér yfir á hnéin, reisti afturendann tignarlega upp til himins og hafði sig þannig upp ... með óhljóðum.  Múrenan aðstoðaði spúsuna og fékk sting í hjartað að hlusta á formælingar hennar meðan á upprisunni stóð ...

"Jæja, hvort þetta eru Gordonfossar eða ekki ... það veit ég ekkert um ... en ég legg til að við köllum ferðasöguna bara "Leitin að Gordonfossum"!!!"

Þau fetuðu sig upp á Gordonfossa-tjaldsvæðið, upp að minnsta kosti 361 tröppu ... spúsan æmti og skræmti í hverju skrefi ...

... sólin var farin að síga á himinum, það var að koma kvöld ...

ENDIR

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Isss.... mér þykir þið sneipuför hafa farið í leit að þessum fossi. Vissulega voða krúttleg lækjarspræna sem lekur þarna fram af klettunum og afskaplega hugguleg "sand"fjara, en þetta stenst nú engan vegin samanburð við Goðafoss, það verðið þið nú að viðurkenna :) En ágætis ferðasaga og ég vona að spúsan jafni sig fljótt á harðsperrunum hrikalegu.

Helga Guðrún (IP-tala skráð) 30.7.2007 kl. 12:52

2 identicon

Hva....galopinn endir??? Mér finnst reyndar eftirfarandi setning alveg stórskostleg:

"Jæja, hvort þetta eru Gordonfossar eða ekki ... það veit ég ekkert um ... en ég legg til að við köllum ferðasöguna bara "Leitin að Gordonfossum"!!!"

Þið fenguð allaveganna glæsilegar myndir og fína æfingu út úr þessu ævintýri, og þá sérstaklega spúsan! Ég sé hana alveg fyrir mér setjast í sandinn sem tignarleg kýr með Múrenuna valhoppandi í kringum sig. Í hennar sporum hefði ég örugglega bölvað Múrenunni í hljóði! Hún var náttúrulega búin að ryðja leiðina í gegnum frumskóginn þannig að það er ekkert skrýtið að harðsperrurnar lentu allar hennar megin. Gaman að fylgjast með ykkur þarna úti og aldrei að vita nema maður kíki í heimsókn, þó ekki væri nema til að finna þessa Gordonfossa! 

Halldór (IP-tala skráð) 31.7.2007 kl. 03:03

3 Smámynd: Páll Jakob Líndal

Galopinn endir, ójá ... var það ekki það sem allir voru að vonast eftir að J. K. Rowling myndi gera ... ekki drepa herra Potter!!  Þá getur hún bara haldið áfram með söguna um galdrastrákinn sinn, þegar hún er búin að eyða öllum peningunum sínum ...

Þannig að ef Múrenan hyggist halda áfram með "Leitina að Gordonfossum" ... þá getur hún það mjög auðveldlega ...

Að öðru leyti gerir Múrenan athugasemd við þar sem sagt er að "Leitin að Gordonfossum" hafi verið "ágætis" ferðasaga ... meira viðeigandi væri að segja að þetta hefði verið "stórkostleg" ferðasaga.  Í það minnsta vill Múrenan spyrja Helgu Guðrúnu hvar á mælistikunni "ágætt" er ... er það hæsta einkunn eða er það einhvers staðar rétt ofan við "sæmilegt" og rétt fyrir neðan "gott"?

Páll Jakob Líndal, 31.7.2007 kl. 09:02

4 identicon

Í Digranesskóla hér í denn gaf Arnþrúður kennari einungis fádæma vel skrifuðum og rétt rituðum stílum einkunnina ágætt sem hún ritaði með rauðu bleki á síðuhorn stílsins. Þetta vitum við Benný allt um enda fengum við oft og iðulega ágætt fyrir okkar vel unnu heimavinnu. Eftir lestur síðasta kafla ferðasögunnar fannst mér hún verðskulda einkunnina ágætt á þeim mælikvarða sem mér var innrættur í æsku. En í kjölfar dólgsláta rithöfundar, sem í stað þess að þakka hundtryggum lesendum lesturinn af viðeigandi lítillæti, efast þess í stað um réttmæti gefinna einkunna af einskærum hroka og mikilmennskubrjálæði fer ég nú að hallast að því að nútíma túlkun á einkuninni ágætt eigi hér betur við...

Helga Guðrún (IP-tala skráð) 31.7.2007 kl. 12:06

5 Smámynd: Páll Jakob Líndal

Murenan bidur forlats a thvi ad hafa efast um einkunnina "agaett" og thakkar Helgu Gudrunu kaerlega fyrir. 

Murenan mun her eftir taka mark a thvi thegar hun faer einkunnina "agaett"!!

Páll Jakob Líndal, 1.8.2007 kl. 04:33

6 identicon

:D

Helga Guðrún (IP-tala skráð) 1.8.2007 kl. 11:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband