28.7.2007 | 01:51
Leitin að Gordonfossum - 8. hluti
Hér hefst 8. hluti ferðasögunnar "Leitin að Gordonfossum" ... já, 8. hluti ... Sjö hlutar eru að baki, meirihluti sögunnar sumsé ... Múrenan sagði það í 7. hluta að hún myndi ekki ráðleggja neinum að gera neitt og vitnaði í orð mjög góðs manns í því sambandi ...
Þannig að við þig lesandi góður, segir hún bara: "Gjörðu svo vel, hérna er 8. hluti."
Mjög skringilegir atburðir voru að gerast, þar sem Múrenan í upphafi ferðarinnar inn að Gordonfossum söng digrum rómi strófur úr Ástardrykknum eftir Donizetti ... engin hræðsla, engar áhyggjur, ekki neitt ... harla ólíkt Múrenunni eða hvað??? ... Ekki svo að skilja að Múrenan sé neinn aumingi ... þvert á móti ... hún er raunsæ, ábyrg, þokkafull og síðast en ekki síst ... áreiðanleg!!! En hefjum nú leikinn þar skynsamlegast er að hefja hann ... það er þar sem 7. hluti endaði ...
... ef spúsan hefði ekki alltaf verið að grípa fram í söngnum, þá hefði þetta bara verið skrambi gott hjá Múrenunni, eins og hljóðupptakan upplýsir þig, elsku besti lesandi ...
En það var ekki bara góður svefn um nóttina sem létti Múrenunni lífið ... það voru aðrir hlutir einnig ...
"Laaaalalalalaaalalalalalalalala ... " söng Múrenan, með öllum þeim hraða- og styrklegabreytingum sem Donizetti hafði gert ráð fyrir þegar hann samdi þessa miklu óperu. Eftir að söngnum lauk hrópaði hún svo "bravó, bravó, bravó!!!" til að fagna eigin frammistöðu og því fylgdu svo húrrahróp, fjórföld eða fimmföld ... Óneitanlega mjög undarlegt!!! Svo upphófst söngurinn aftur ... sömu línurnar, bravóin og húrraköllin og aftur og aftur ... Ef Múrenan hefði verið spúsan, þá hefði hún hringt strax á sjúkrabíl og látið skulta Múrenunni á eitthvert hæli ... en Múrenan var ekki spúsan þannig að það var ekki gert. Spúsan hafði líka um allt aðra hluti að hugsa ...
"Æi, værir þú ekki til að syngja eitthvað annað ... þetta er eins og að hlusta á bilaða plötu ... " sagði hún svo allt í einu, algjörlega fyrirvaralaust!! Eins og stundum áður átti Múrenan ekki til orð ... þarna hafði spúsan sannarlega tækifæri á að hlusta á söng Múrenunnar ... gleymum því ekki ... Múrenan er enginn viðvaningur í söng, búin að læra helling í klassískum söng ... í mörg ár!! Hún sagði samt ekkert en hugsaði "isss ... þessi spúsa er nú bara menningarsnauður Grindvíkingur ... "
Þessar dylgjur og óþarfa leiðindaskot spilltu þó ekki gleði Múrenunnar, þó svo þau hefðu auðveldlega getað gert það því hefðu flestir orðið ákaflega sárir að fá svona tusku, rennandi blauta, framan í spegilfagurt fésið. Mjög sennilega hefðu þeir hætt við leitina að Gordonfossum og bara farið heim ... í fýlu. Múrenan er undantekningin ... sem sannar regluna!!!
"Jæja, nú skulum við leggja af stað ... þetta eru 45 mínútur ... Gordonfossar og málið er dautt!!"
Múrenan valhoppaði af stað, hún var velmett eftir morgunmatinn, sem hafði verið yndislegur, pylsurnar svo ljúffengar!!! ... og til að toppa allt þá hafði fúla kerlingin, sem var deginum áður, verið á frívakt og í hennar stað ákaflega gjörvilegur kvenkostur sem brosti, hló og fór með gamanmál, meðan hann þeyttist um morgunverðarsal TCM ... þvílík lífsgleði, þvílík orka ... útgleislunin var ómótstæðileg ... en það var ekki bara þetta sem kætti Múrenuna ...
Allt í einu var Múrenan komin á útsýnisstað, Tarpelan Rock ... langt á undan spúsunni ... "Hó, hó ... ertu ekki að koma?!?!" kallaði Múrenan ... svo hoppaði hún og skoppaði um útsýnisstaði, skríkjandi af gleði ... "jæja, þarna ertu þá??" "Taktu mynd af mér!!! Núna!! Strax!!!" Spúsan hreyfði ekki við mótmælum tók upp myndavélina og skaut á Múrenuna þar sem hún stóð á hæsta "tindi", ekki ósvipað Jesús þar sem hann trónir yfir Rio de Janiero í Braslíu ... Múrenan átti heiminn ...
"Ert' ekki hress??!!" spurði Múrenan spúsuna í sömu mund og hún stökk léttilega ofan af "tindinum". "Nei!! Ég er það ekki!"
Hvað var að gerast??? Af hverju var spúsan ekki hress ... hví þessar skyndilegu breytingar??
Já ... kæri lesandi ... taktu nú eftir ... Múrenan valhoppar, hoppar léttilega, skríkir og syngur ... þú er með ...
... hins vegar og taktu nú enn betur eftir ... Vandi og "óhressleiki" spúsunnar lá í því að hún gat varla hreyft sig ... fyrir HARÐSPERRUM!!!
Já, herrar mínir og frúr ... spúsan var með bullandi harðsperrur eftir litla stigaræflinn sem þau höfðu farið upp daginn áður ... fullkomlega andstætt Múrenunni sem bara fann ekki fyrir neinu ... ekki það að hún hefði nokkurn tímann búist við því!!!
"Hahahahahahahahhahhaa!!!" Múrenan teygði sig, sveigði og beygði ... "ég er nú bara í mjög góðu formi í dag ... en þú?? ... ó fyrirgefðu ... " Þessi augljósu yfirburðir Múrenunnar ... hvað líkamlegt atgervi snertir, voru henni svo mikið gleðiefni ... að helst minnti á kálf að vori.
Þau héldu áfram ... Múrenan alltaf langt á undan, syngjandi, blístrandi og kveðandi rímur ... Fram að þessu hafði trjáþykknið verið skaplegt en nú var að verða breyting á því, tréin risu upp hærra og hærra, skógurinn þykknaði og þykknaði, allt varð einhvern veginn svo yfirþyrmandi ...
En allt í einu sá Múrenan svolítið merkilegt ... alveg stórmerkileg ...
Múrenan nam staðar og leit upp ... "jaaa ... þetta er undurfallegt ... "
Múrenan var hérumbil sofnuð þegar spúsan kom loks ... en reisti sig upp og sagði: "Sérðu þetta??" Og hvað heldur þú að spúsan hafi sagt núna?? Hún sagði: "Þetta er merkilegt!!" en bætti svo við: "Skemmtilegt að sjá hvernig klakinn formast ... " "Myndavélina!!!" skipaði Múrenan höstuglega og fékk myndavélina í hendur umsvifalaust ... alveg eins og lög gera ráð fyrir.
Hér fyrir neðan má sjá hvað fyrir augu þeirra bar ... klaki á greinum!!
Svo héldu þau áfram leið sinni ... en af því að skógurinn var svona mikið að þykkna, ákvað Múrenan að leyfa spúsunni að vera á undan ... einungis vegna þess að spúsan gæti annars týnst og orðið villidýrum að bráð, hefði Múrenan ekki vökult auga með henni. Að minnsta kosti taldi Múrenan sér trú um það ...
Þau gengu og gengu ... hægt að vísu ... því spúsan komst náttúrulega ekkert úr sporunum ... alltaf emjandi og vælandi yfir stífleika í kálfum. "Já, já ... ókei, ég veit að kálfarnir eru stífir en getum við ekki haldið aðeins áfram!!!" Múrenan var samt ekkert pirruð ... vildi bara halda spúsunni við efnið!!!
En nú tók málið að vandast og það allverulega ... því samkvæmt kortinu margumtalaða áttu Múrenan og spúsan brátt að nálgast Gordonfossa ... en ekkert virtist benda til þess að þeir væru nærri ... þau gengu áfram ...
... eins og nánast upp úr þurru, komu þau að brú og svo tröppumannvirki miklu ... heldur óskiljanlegu, sem lá í allar áttir, eins og köngullóarvefur ... Skyndilega var eins og Múrenan hreinlega vaknaði ... öll gleði, kæti, galsi og glettni var á bak og burt ...
Spúsan kjagaði niður tröppurnar ... Hún leit upp skælbrosandi ...
"Eftir hverju ertu að bíða??" spurði hún svo ...
Jáhá ... eftir hverju var Múrenan að bíða?? Sá hún ef til vill eitthvað sem spúsan sá ekki???
Í 9. og síðasta hluta ferðasögunnar "Leitin að Gordonfossum" verður farið í saumana á því sem hér er að eiga sér stað ... Taktu eftir þar sem sagt er "öll gleði, kæti, galsi og glettni var á bak og burt ... " - hvað er eiginlega að gerast??? Lokauppgjör er í vændum ... finna þau Gordonfossa???
Misstu ekki af 9. og síðasta hluta ferðasögunnar "Leitin að Gordonfossum"!!!!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.