23.7.2007 | 09:35
Leitin að Gordonfossum - 6. hluti
Ef þér dettur í hug að hefja lestur ferðasögunnar "Leitin af Gordonfossum" hér, það er í 6. hluta ... þá er dómgreind þín að bregðast þér illilega. Það er farið að síga á seinni hluta sögunnar!!! Múrenan leggur til að þú byrjir á byrjuninni, það er iðulega reynst heillavænlegast!!! Taka hlutina í réttri röð ... 1. hluti er hérna einhvers staðar neðar á síðunni ... koma svo ... ekkert múður!!!
En ...
... 5. hluta lauk með sögulegri máltíð á veitingastaðnum Blue Mountains Cafe þar sem undarlegur þjónn réði ríkjum. Leikurinn í 6. hluta hefst, nákvæmlega þar þeim fimmta lauk ...
"Jæja, hvað gerum við nú??" spurði spúsan Múrenuna. Þau litu á kortið ... "Förum hingað ... skoðum Gordonfossa!!" "Hví ekki það??" hugsaði Múrenan og þau lögðu af stað ...
... og örkuðu upp Echo Point Road og tóku hægri beygju inn Raymond Road ... ferðin var torsótt í meira lagi, því ekki var nóg með leiðin lægi um snarbrattar brekkur Katoomba ... ískaldur vindur ofan af hásléttum Ástralíu stóð í fangið á þeim við hvert fótmál. Það var eins gott að Múrenan hafði tekið fingravettlingana sína með sér frá Íslandi ... já, og aukavettlinga handa spúsunni ...
Þau voru bara nokkuð álitleg húsin sem stóðu við Raymond Road og þrátt fyrir veðurhaminn, skörtuðu garðarnir sínu fegursta í síðdegissólinni ... allt í einu kom spúsan auga á tvö undarleg fyrirbæri ... verur sem Múrenan hafði aldrei fyrr séð með eigin augum, en hugsanlega þó í einhverri myndabók ... Tjaaa, líklega ekki ... Jú, hana rámaði í það ... en þetta var ótrúlega merkileg sýn!!! Þarna stóðu verunar, tvær að tölu, í einum garðinum við Raymond Road ... af öllum stöðum í heiminum ... og tróðu í sig. Ekki ósvipað og spúsan hafði gert á Blue Mountains Cafe ...
Múrenan tók upp myndavélina ... þetta var einstakt tækifæri. Varlega fetaði hún sig nær ... og nær ... hún skipti um linsu, það varð að nota stóru súmmlinsuna til að grípa augnablikið, annað var ekki í stöðunni. Múrenan fór ennþá nær og mundaði vélina ... klikk, klikk, klikk, klikk ... Múrenan skaut fjórum myndum í röð ... það hafði engin áhrif á verurnar ... klikk, klikk, klikk, klikk ... aðrar fjórar. Múrenan vék af vettvangi ... hér fyrir neðan má sjá eina af myndunum sem tekin var ... seinna fékk Múrenan að vita að þetta voru Galah Cockatoo eða bleikir kakadúar, fjarskyldir ættingar Kíkí, sem sagt var frá í 3. hluta ...
Staða sólar var farin að lækka ískyggilega, þegar Múrenan og spúsan beygðu af Raymond Road yfir á Cliff Drive en þau létu það ekki á sig fá ... Gangan Cliff Drive var til að æra óstöðugan ... gatan svo hlykkjótt að rangalar egypsku píramídanna í Giza voru hjómið eitt í samanburði og það sem verra var gatan ætlaði engan endi að taka ... Múrenan var algjörlega sannfærð um það að hvaða "göngufífl" sem er, hefði verið tapað vitinu í þessum aðstæðum. En Múrenan lét engan bilbug á sér finna ... þau skyldu finna Gordonfossa!!!
Loks komu þau að skilti, sem á var letrað "Leurafossar, Bridal Veil View Lookout, Gordonfossar". "Olræt" sagði Múrenan og hljóp af stað niður stíginn sem skiltið vísaði til ... "Hei, halló, bíddu aðeins maður ... !!!" Spúsan átti ekki roð í Múrenuna sem þaut eins og eldibrandur yfir stokka og steina ... það stoppaði hana ekkert. "Hei, hvar ertu maður??!" Múrenan var svo einbeitt að hún heyrði vart þessi köll í fjarska ... en svo nam hún staðar ...
... slóðin kvíslaðist ... og skiltið sem hafði einu sinni vísað veginn var löngu horfið, aðeins uppistöður þess stóðu eftir og í þeim fjórir rygðaðir naglar ... Nú voru góð ráð dýr. "Jæja, þarna ertu þá!!" Jú, það var rétt, þarna stóð Múrenan ... "hægri, vinstri, beint?" "Vinstri" sagði spúsan annars hugar, hugfangin af útsýninu, því, já ... það er rétt að það komi fram ... þau voru stödd á stað þar sem útsýnið var ekki dónalegt!!
Stígurinn lá greinilega inn í gil ... og gróðurinn ... Jamison dalurinn var eins og eyðimörk í samanburði við þessi ósköp ... Múrenan ákvað að fara hér að öllu með gát, hætti hlaupunum og bað spúsuna að fara á undan. Það ber þó ekki að skilja það svo að Múrenan hafi verið eitthvað hrædd ... miklu frekar fannst henni það bara betra að spúsuna á undan. "Nú, á ég að fara á undan ... jæja" sagði spúsan kæruleysislega þegar Múrenan gaf henni merki með handahreyfingum ... svo lagði hún bara af stað í gegnum skógarþykknið.
Og það var sama hversu lengi þau gengu ... aldrei sagði spúsan aftur "þetta er merkilegt" ... Múrenunni þótti það hinsvegar "merkilegt", og spurði því: "Af hverju ertu alveg hætt að segja "þetta er merkilegt""? Spúsunni vafðist ekki tunga um tönn í það skiptið: "Nú af því að mér finnst þetta bara ekkert svo merkilegt hérna, allt það sem við sjáum núna ... sáum við í dag ... þannig að þetta er bara endurtekning á sama efni!!" Múrenan átti ekki til orð ... endurtekning á sama efni ... gróðurinn var um það bil að kæfa þau ... svo slæmt hafði það nú aldrei verið í Jamison dalnum ... aldrei!!! Vafalítið var hér um hættuspil að ræða ... Meira að segja, glíman við risastiginn virtist ærið léttvæg í þessum samanburði ...
Hér endar 6. hluti ... og brátt dregur til tíðinda!!! Finna þau Gordonfossa?? Eru skekkjur í kortinu sem velinnrætta og lipurlega málifarna stúlkan í upplýsingunum nærri lestarstöðinni (sjá 1. hluta) lét þau fá?? Ef svo er ... hver mun greiða fyrir það?? Og með hverju?? Mun gróðurinn í gilinu verða yfirþyrmandi?
Vertu fyrst(ur) til að upplifa!! Láttu ekki aðra eyðileggja stemmninguna!!! Misstu ekki af hörkuspennandi sögu ... ferðasögunni "Leitin að Gordonfossum" 7. hluta!!!
Athugasemdir
Hmmmm... ég er nú farin að hallast að því að þið hafið ekki fundið Gordonfossa eftir allt saman. Þegar á áfangastað var komið kom í ljós að fossarnir höfðu orðið einhverjum ansv... virkjunarsinnum að bráð og því ekkert vatn eftir í árfarveginun til að falla í fögrum straumi fram af klettabrúnum. Ykkur hefði verið nær að staldra örlítið lengur við hjá Goðafossi, ég segi nú ekki annað... Og ekki er gróðurinn að kæfa mann þar...
Helga Guðrún (IP-tala skráð) 23.7.2007 kl. 16:28
Ég held að Helga hafi rétt fyrir sér - þið funduð aldrei þessa fossa! Þið villtust (með lélegt kort af miðborg Sidney í höndunum) og spúsan þurfti að ganga á undan í margar klukkustundir, sveiflandi sveðju á gróðurþykknið. Loksins, eftir mikla baráttu, komuð þið að uppistöðulóni og glæsilegri vatnsaflsvirkjun. Bleiku kakadúarnir vísuðu ykkur síðan stystu leið til baka í lok dags...til Blue Mountains Cafe. Heitur eða kaldur?
Halldór (IP-tala skráð) 23.7.2007 kl. 21:35
Isss ... ísköld bæði tvö!!!
Páll Jakob Líndal, 23.7.2007 kl. 22:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.