Leitin að Gordonfossum - 5. hluti

Ekkert þýðir fyrir nýja lesendur að hefja leikinn hér ... því þetta er 5. hluti hinnar margrómuðu ferðasögu "Leitin að Gordonfossum" - ekki sá fyrsti.  Fyrsti hlutinn var birtur hér á síðunni fyrir mörgum dögum og síðan þá hafa hlutar 2 og 3, já og 4 litið dagsins ljós.  Því væri skynsamlegast að vippa sér yfir í 1. hluta og hefja lesturinn ... 

En ...

... margar hindranir voru að baki en fjölmargar biðu þó enn.  Ferðalagi Múrenunnar og spúsunnar í Blue Mountains var hvergi á nærri lokið.  Mesta áskorun ferðarinnar, ja hingað til, sjálfur Risastiginn heyrði þó sögunni til en var Múrenan þrotin kröftum?  Var spúsan að missa vitið?  Átti hugrekki hennar sér einhver takmörk?  Öllu þessu verður nú svarað í 5. hluta ferðasögunnar "Leitin að Gordonfossum".  Og líkt og áður hefst kaflinn á niðurlagi 4. hluta.

... sviðinn framan á lærunum og í kálfunum var nánast óbærilegur.  Skyldi þetta verða endapunkturinn í lífi Múrenunnar??  Námið í Sydney að fara út um gluggann?? 
"Úfff ... mér er heitt" sagði spúsan. "Er vatnið búið??"

Þau stóðu á útsýnispalli og við hann var tengd brú sem lá yfir í eina af Systurunum þremur.  Þetta var nú ekki stórkostlegt mannvirki, kannski svona 10 metrar að lengd, enda stutt frá klettabrúninni yfir í Meehni, stærstu systurina, sem teygir sig upp í 922 metra miðað við sjávarmál.  

Spúsan opnaði töskuna og náði í vatnsflöskuna ... einhverjir dropar voru nú eftir.  Hún drakk þá alla með tölu.  "Eigum við ekki að labba yfir brúna?" spurði Múrenan, þegar líkamlegum einkennum tengdum stigagöngunni miklu, tók að linna.  "Gaman að geta sagt í skólanum að maður hafi gengið út í Systurnar þrjár ... það er að segja ef einhver veit hvað það er!!"  "Jú, alveg endilega ... komdu" svaraði spúsan.  

"Ég skil nú ekkert af hverju fólk er að henda svona miklu drasli hérna fram af brúnni", tilkynnti kona ein manni sínum í sömu mund og Múrenan gekk framhjá.  Og það var satt, alveg óheyrilegt magn af rusli mátti sjá þarna niðri.  Múrenan var sammála konunni, þetta náði náttúrulega ekki nokkurri átt ... hvað er fólk eiginlega að pæla???

Í Meehni stillti spúsan sér upp, enn einu sinni, og Múrenan tók mynd ...

 

"Váááá ... rosalega er hátt hérna niður" sagði spúsan þegar hún leit yfir handriðið sem hún hafði stillt sér upp við "... maður verður eiginlega hálf lofthræddur hér!!" 
Þarna kom það!!  Greinileg vísbending um þverrandi hugrekki hennar!!!  Ekki fann Múrenan fyrir lofthræðslu, sama hvað hún horfði stíft, þvert á móti.  Hún hreinlega elskaði að horfa þarna fram af og gat ekki stillt sig um að tilkynna spúsunni það.  Múrenan hallaði sér að handriðinu og lyngdi aftur augunum: "Ég hef nú oft horft fram af miklu hærri stöðum en þessum ... ég man til dæmis einu sinni þegar ég var í Þórðarhöfða, ... þú hefðir átt að vera þar ... þá hérna ... "  Hún opnaði augun aftur.  Hún leit í kringum sig ... Engin spúsa???  Hvar var spúsan eiginlega?? 

Greinilega hafði spúsan ekki nennt að hlusta á þessa reynslusögu og var farin frá Meehni og komin yfir brúna yfir á "fast land". 

Þau yfirgáfu útsýnispallinn ... klettabrík Jamison dalsins og fetuðu hægum skrefum stíginn sem lá aftur að Echo Point, tveggja hæða útsýnisstaðnum sem Beta drottning hafi heimsótt árið 1954, eins og áður hefur verið greint frá.  Þau voru komin í örugga höfn og eitt athyglisvert hafði gerst þegar hér var komið sögu ... spúsan var hætt að segja "þetta er merkilegt"!!!

Út á Echo Point var múgur og margmenni ... allt fljótjandi í ferðamönnum ýmist veifandi myndavélum eða uppstilltum fyrir myndatöku.  Múrenan lét nokkrar vaða ... til dæmis þessa, sem sýnir, ef grannt er skoðað, brúna um rætt hefur verið um hér að ofan ...

"Eigum við ekki að fara að fá okkur eitthvað að borða??" spurði spúsan þegar myndatökunum lauk.  Það var greinilegur pirringur í röddinni ... af fenginni reynslu vissi Múrenan að það tengdist næringarskorti hennar ... en til að sýna mátt sinn og megin brást Múrenan illa við þessari athugasemd og mælti höstuglega: "Guð minn almáttugur ... þú ert alltaf að borða!!  Ég veit ekki betur en stórum upphæðum hefði verið eytt í mat í gær ... og þessi dýrinds morgunverður í morgun ... af hverju borðaðir þú ekki meira þá!??!"  Þessi, kannski öfgafullu, viðbrögð Múrenunnar áttu sér þó skýringu ... spúsan hafði gert grín að Múrenunni þegar hún var í skóginum ... ja, kannski pínu hrædd og þurfti ekki annað en að einhver sagði við hana að allt væri í lagi!!!  En nei ... spúsan hafði gert það að leik sínum að niðurlægja Múrenuna og notið sín afar vel í hlutverki þess sterka ... hefndin var því sæt í þetta skiptið, því Múrenan var með bæði sitt veski og veski spúsunnar í vasa sínum!!!

En viti menn ... Múrenan var nánast snúin niður á staðnum ... svona með óbeinum hætti ... "Hvað er þetta eiginlega maður!??  Ég veit ekki betur en það séu að minnsta kosti 6 klukkutímar síðan við borðuðum síðast!!!  Ef þú tímir ekki að fá þér að borða þá er það þitt mál ... ég ætla allavegana að fá mér eitthvað!!"  Já, það var sum sé "hárþurrkumeðferðin" sem hin öfluga Múrena fékk á Echo Point þennan mánudaginn.  "Jæja, þá ... en þetta má ekki vera dýr matur!!"  "Hver er eiginlega að tala um það???  Ég þarf bara að fá eitthvað að borða!!!"  Múrenan fylgdi spúsunni, næstum eins og hundur í bandi ... en það skal vera á hreinu ... Múrenan hélt sinni reisn þrátt fyrir allt!!!  Bara þessi andskotans eyðsla alltaf ... Múrenan ákvað samt að segja ekki neitt!!!

"Immm ... þetta er allt annað" lýsti spúsan hátíðlega yfir, þegar hún hafði rennt niður síðasta bitanum af "lasagnianu" og frönskunum, sem hún hafði pantað sér á Blue Mountains Cafe.  Já og ekki má gleyma gosinu sem rann ljúflega niður kverkar hennar!!  "Rosalega var ég orðin svöng."  Já, það fór ekki á milli mála að spúsan hafði verið svöng ... en hvert fór eiginlega allur þessi matur??  Hún bara tróð og tróð í sig!!  Múrenunni fannst þetta ósanngjarnt!!  Henni fannst það bara skrambi skítt að þurfa að glíma við fituvandamál, á sama tíma og spúsan, sem borðaði miklu meira og hreyfði sig miklu minna, þurfti ekki að pæla neitt í því!!!  Þess hafði Múrenan bara pantað sér ofurlítinn pastadisk og vatn að drekka!

"Rosalega voru litlu kínversku strákarnir sætir þegar þeir voru að eltast við fuglana þarna úti á svölunum" sagði spúsan við Múrenuna, þegar þau komu út af veitingastaðnum, en bætti svo við " ... en maður bjóst nú alveg við því að þjóninn myndi fríka út ... hann var eitthvað ferlega skrýtinn ... fannst þér það ekki??"  Múrenan var sammála ... hún hafði veitt þessum undarlega þjóni, gaumgæfilega athygli allan tímann, við öllu viðbúin ef til átaka kæmi ... kýla undir bringuspalirnar og pota með vísifingri í holuna á hálsinum rétt ofan við bringubeinið ... milli viðbeinanna!! 

"Jæja, hvað gerum við nú??" spurði spúsan Múrenuna.  Þau litu á kortið ... "Förum hingað ... skoðum Gordonfossa!!"

Hér endar 5. hluti ferðasögunnar "Leitin að Gordonfossum".  Þetta var lognið á undan storminum!!!  Finna þau Gordonfossa???  Hvernig díla þau við stórmerkileg fyrirbæri sem verða á vegi þeirra?? Af hverju hætti spúsan allt í einu að segja "þetta er merkilegt"? Þessu verður svarað í 6. hluta ... fylgist áfram með!!
 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er bara ansi spennandi ferðasaga, fyrirbæri? hmm kannski einhverjar stórar padda sem verða á vegi ykkar? Bíð spennt eftir næsta kafla!

Benný (IP-tala skráð) 22.7.2007 kl. 21:07

2 identicon

ég meina stórar pöddur..... :)

Benný (IP-tala skráð) 22.7.2007 kl. 21:08

3 identicon

Lognið á undan storminum segir þú... ég ætla þá að giska á að á vegi ykkar hafi orðið tveir tamdir hvirfilvindar sem ástralskir frumbyggjar voru með í bandi. Það var eðlilega mjög hvasst í kringum þá - hálfgerður stormur reyndar - en hver kippir sér upp við það þegar jafn tilkomumikil fyrirbæri eru annars vegar. Ég meina, það er ekki á hverjum degi sem maður sér menn með tamdar hvirfilvinda í bandi, leikandi listir sínar fyrir smáaura. Þar með hafði spúsan séð allt og steinhætti því að segja "þetta er merkilegt". Eftir að hafa gónt nægju ykkar á þetta stórmerkilega fyrirbæri börðust þið í gegnum storminn og að Gordonfossum, sem reyndar voru harla ómerkilegir samanborið við tamda hvirfilvinda, að ógleymdum Goðafossi sem þið höfðuð séð stuttu áður.

Helga Guðrún (IP-tala skráð) 22.7.2007 kl. 22:46

4 Smámynd: Páll Jakob Líndal

Immmm ... neibbsss ... hvorki Benný né Helga hafa rétt fyrir sér varðandi framhaldið!!!  Góðar tilraunir samt!!

Páll Jakob Líndal, 23.7.2007 kl. 07:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband