21.7.2007 | 01:50
Leitin að Gordonfossum - 4. hluti
Ef þú ætlar að fara að lesa ferðasöguna "Leitin að Gordonfossum" núna og hefur ekki lesið fyrstu þrjá hlutana þá þýðir ekkert að byrja hérna!!! Sumt lútir reglum ... og þessi ferðasaga fyllir í þann flokk ... þetta er 4. hlutinn - "fattaru"??
En ...
... við lok 3. hluta var dramatíkin orðin ... tjaaaa ... allavegana einhver. Hér kemur framhaldið:
"Assgoti hafa þeir verið heppnir þessir að komast heilir á höldnu í gegnum þetta ævintýri" hugsaði Múrenan. Nagandi óvissan hélt áfram ... en skyndilega blasti við tilkomumikil sjón ... þetta voru ... Systurnar þrjár?!? "Miðlungsstórt" gat í laufþakinu var orsökin ... Múrenan þreif kortið upp úr vasanum og leit á það ... tók stöðuna. Jú, þetta voru Systurnar þrjár!!! Múrenan og spúsan urðu frá sér numin ... þarna stóðu þau í botni Jamison dalsins og horfðu upp á systurnar baðaðar í sólskini. Þrátt fyrir að finna greinilega fyrir smæð sinni innan um tröllvaxin tré og þverhnípta klettaveggi sem risu upp snarbrattir í meira en 300 metra hæð, þótti Múrenunni þessi sýn ómótstæðileg ... já hún var bara svo dæmalaust falleg. Spúsan stillti sér upp og Múrenan smellti af ...
Eftir þessa gleðistund var ekki annað að gera en að halda áfram ... Múrenan var rólegri nú en áður ... nálægðin við systurnar veitti henni öryggi. Af hverju vissi Múrenan þó ekki. "Finnur þú fyrir meira öryggi núna en áður?" spurði Múrenan spúsuna. "Öryggi?!? Hvað meinarðu? Hefurðu verið eitthvað óöruggur hérna??!" svaraði hún háðslega. "Ha ... ég ... nei, alls ekki, ég bara spurði ... " Spúsan hló. "Ég trúi því ekki að þú sért hræddur hérna!!!" "Nei, nei ... ég er það heldur ekkert ..." Múrenan reyndi að vera sannfærandi en ... þetta var vandræðalegt ... "Höldum áfram!!" Múrenan tók á rás ... og spúsan á eftir.
Nýtt skilti ... "Nú þarftu að velja hvort þú heldur áfram eftir Federal Pass eða ferð upp The Giant Stairway. Giant Stairway eru 900 þrep og getur verið mjög "intensive" á köflum. Einungis fyrir velþjálfaða göngumenn." Það var ekkert annað. Spúsan tók ákvörðun "Giant Stairway"!!! Múrenunni varð nánast óglatt við tilhugsunina ... en eftir "öryggis"-samræðurnar fyrr um daginn ... lét hún á engu bera. "Ekki málið!!"
Nú tóku við torfærur ... því ganga þurfti töluverðan spotta áður en sjálft "helvíti" blasti við. Sumstaðar höfðu tré fallið yfir slóðann og hann var ekki lengur breiður og steinsteyptur ... nú var hann mjór, hlykkjóttur og stórgrýttur. Gróðurþykknið var meira en nokkru sinni fyrr!! Spúsan tók forystuna ... en þó nemandi staðar, segjandi "þetta er merkilegt" í tíma og ótíma.
Skyndilega heyrðust hljóð ... Múrenan hrökk við, þetta voru engin venjuleg hljóð ... ekki hérna í Ástralíu að minnsta kosti!! Aldrei nokkurn tímann hafði Múrenan heyrt neitt viðlíka í þessu landi. "Ertu ekki að koma??" Spúsan var að kalla á Múrenuna. "Heyrirðu þetta??" "Já ... er þetta ekki danska?" "Ooooohhhhhh ... " Múrenan súrnaði ... auðvitað, þetta var bara dönsk fjölskylda í skógarferð!! Það var bara ekki hægt að sjá hana fyrir öllum trjánum!! Hvernig í veröldinni var hægt að gera ráð fyrir að hitta Dani hérna!! En í kjölfar þeirra kom holskefla af öðrum ferðalöngum ... Kínverjar, Spánverjar og eitthvað fleira ...
Loks náðum þau rótum stigans mikla og viti menn ... kemur ekki niður stigann, í loftköstum, hlaupari nokkur í grængulum bol og með derhúfu, já og náttúrulega í stuttbuxum og skóm. Þegar hann lauk niðurhlaupinu hefði mátt búast við að hann hefði þotið eins og eldibrandur eftir stígnum og inn í skóginn ... en það var nú öðru nær. Þegar hann kom niður, hoppaði hann þrisvar sinnum og þaut svo aftur upp stigann!! Indverji sem mætti honum í stiganum átti ekki til orð og hristi bara hausinn. Múrenan gat ekki varist brosi ... "Það er ekkert annað" sagði spúsan.
Svo lögðu þau af stað upp stigann ... 1, 2, 3, 4, ... 56, 57, 58, ... 245, 246, 247, ... 798, 799, 800 og svo framvegis. Óheyrilegt svitaútstreymi plagaði Múrenuna í uppgöngunni, strax eftir aðeins 81 þrep ... sveitt bak og enni ... óþolandi. Spúsan fór úr vindstakknum, lopapeysunni og rauðu ullarpeysunni ... "Mér er heitt!" Múrenunni kom það nú lítið á óvart ...
"Stairway-ið" tók gríðarlega mikið á ... og aftur kom "hlaupahelvítið" niður eins og með fjandann á hælunum ... "Djöfullinn" hugsaði Múrenan. Þetta særði egó hennar. Múrenan að æfa fyrir maraþon-hlaup og rétt hefur sig upp þessa stiga alla saman með einhvern "gorm" hlaupandi upp og niður, eins og ekkert sé ... það var nokkuð ljóst að þetta fyrirbæri myndi rústa kapphlaupi við Múrenuna.
Svo gerðust undarlegir hlutir, þegar hressilegur maður sem varð á vegi hennar (líklega í þrepi 578 talið neðan frá), spurði hvort það væri langt eftir "þarna niður" ... Hvað átti maðurinn eiginlega við?? Spyrja Múrenuna sem var að streða við að komast upp ... nær dauða en lífi ... hvort hann ætti langt eftir ... niður!!! Átti Múrenan að falla á kné af lotningu fyrir afreki hans að tipla niður þessa stiga?? Nei!! Þess í stað öskraði hún "Go to hell" framan í manninn. "Thanks mate." Hann hélt áfram ...
Eftir að hafa fetað þrepin 900, blasti ný áskorun við Múrenunni og spúsunni ... Múrenan reyndi að bíta á jaxlinn ... sviðinn framan á lærunum og í kálfunum var nánast óbærilegur. Skyldi þetta verða endapunkturinn í lífi Múrenunnar?? Námið í Sydney að fara út um gluggann??
"Úfff ... mér er heitt" sagði spúsan. "Er vatnið búið??"
Þau stóðu á útsýnispalli og við hann var tengd brú sem lá ...
Já, hvert lá brúin??? Hvert voru þau eiginlega komin?? Lá brúin að Gordonfossum? Brást loks hugrekki spúsunnar? Var hún að missa vitið? Var Múrenan þrotin kröftum eftir stigagönguna?? Nú fer svo sannarlega að draga til tíðinda ... misstu því ekki af 5. hlutanum!!!
Athugasemdir
Já brúin lá vissulega að fossi en ekki að Gordonfossum eins og þið tölduð þegar þið lögðuð af stað heldur að Goðafossi! "Þetta er merkilegt" sagði spúsan þegar þið komuð yfir brúna og áttuðu ykkur á að á einhvern undraverðan hátt hafði Áströlum tekist að brúa bilið milli heimsálfanna svo ekki tók nema röskar 3 mínútur að tölta yfir. Svo þarna stóðuð þið, frekar fúl yfir því að þurfa að stara enn einu sinni á Goðafoss en um leið glöð yfir því að fá að ylja ykkur í hinu frábæra sumarveðri sem verið hefur hér heima á klaka. Svo töltuð þið aftur yfir, yptuð öxlum yfir þessum furðum og hélduð áfram leit ykkar að Gordonfossum. En mér finnst að þið hefðuð nú alveg getað kíkt í kaffi...
Helga Guðrún (IP-tala skráð) 22.7.2007 kl. 09:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.