14.7.2007 | 06:27
Hringur utan um 13. júlí
Það var dreginn hringur utan um gærdaginn, föstudaginn 13. júlí 2007, í almanaki Múrenunnar og ekki af ástæðulausu ... Múrenan fór í klippingu í gær!! En slík athöfn hefur frá unga aldri verið Múrenunni afskaplega á móti skapi ... henni leiðist að fara til rakara ... svo einfalt er það nú bara!!!
Múrenan man vel eftir rakarastofuferðunum í eina tíð, þegar faðir Múrenunar og alnafni fór með hana nauðuga viljuga, niður á stofuna sem var á neðstu hæð gamla Eimskipafélagshússins, á horni Tryggvagötu og Pósthússtrætis. Þegar þangað var komið klappaði gamli rakarinn Múrenunni á kollinn, sagði hvað hún hefði stækkað mikið, dró fram fjöl sem hann svo setti upp á arma klippingarstólsins. Að því loknu bað hann Múrenuna hæversklega um að klifra upp í stólinn og setjast á þessa fjöl. Tilgangurinn með þessum tilfæringum var náttúrulega sá að rakarinn þyrfti ekki að bogra við verk sitt, því á þessum árum stóð Múrenan vart út úr hnefa. Svo var byrjað að klippa og ekki hætt fyrr en nánast ekkert var eftir ... þetta var meira andskotans ruglið. Þegar heim kom gat Múrenan loks hleypt tilfinningum sínum út ... oftast með því að umturnast.
Sem betur fer tóku rakarastofuferðirnar með pápa enda þegar Múrenan komst svo til meira vits. Og urðu hlutirnir að sumu leyti betri en afleitir að öðru leyti. Í stað þess að pápi gripi bara um handlegginn á Múrenunni og teymdi hana niður á stofu, byrjaði fólk að jagast ... "ætlar þú nú ekki að fara að fara í klippingu?", "hvenær ætlar þú eiginlega að fara til rakara?", "þú getur nú ekki verið svona um höfuðið" og blablabla ... Þetta var óþolandi ... þannig að á endanum lét Múrenan tilleiðast, hringdi í Kristján vin sinn og spurði hvort hann nennti að koma með í klippingu, það er að segja sem andlegur stuðningur. "Ok" sagði Kristján. Innan veggja rakarastofunnar sagði Múrenan svo nákvæmlega til hvernig klippingunni skyldi háttað, og hvenær væri komið nóg. Sigri hrósandi gekk Múrenan heim á leið, ekki meira raus í bili um hár og hárgreiðslu.
En það var nú öðru nær ... því þá fyrst byrjaði vesenið. Múrenan gekk inn í eldhús til ömmu. "Jæja, hvað segirðu þá núna?" "Varstu í klippingu?" "Já! Sérðu það ekki?" "Það hefur ekkert verið tekið af 'ðí!!" "Haaa ... það var tekið alveg fullt!!" "Ég sé bara engan mun!!"
Það var alveg merkilegt með hana ömmu, eins og hún var nú öllu jafna öflugur liðsmaður í liði Múrenunnar, alltaf þurfti hún að fetta fingur út í þetta blessaða hár ... það var ekki málið að punga út fyrir öllu því playmoi sem hugur Múrenunnar girntist eða rífa sig upp úr rúminu klukkan 22.30 til að fara niður eldhús og ná í mjólk og jólaköku handa elskulegu barnabarni sínu, meðan það lét fara vel um sig í sínu rúmi ... klipping Múrenunnar og amma náðu bara ekki saman. "Þú ættir nú að greiða frá enninu ... mikið lifandis skelfingar ósköp myndi ég vilja óska mér þess að þú greiddir alltaf frá enninu", sagði amma nánast daglega við Múrenuna. Það var alveg klárt að amma skildi ekkert!!!
Hún skildi ekkert, ekki frekar en heimilismenn og gestir í Steinnesi ... Múrenan var mörg sumur þar í sveit, undi hag sínum þar afskaplega vel undir góðri leiðsögn Magnúsar bónda og föður hans Jósefs. En Múrenan gat ekki fengið að hafa eigið hár í friði ... ekki með nokkru móti. Reglulega var stungið upp á því að ná í sauðaklippur og taka dálítið af lubbanum, nú eða hringja í rúningameistara sveitarinnar, Magnús á Hnjúki og biðja hann um að taka dálítið ofan af kollinum. Gestir komu og allir buðust til að klippa Múrenuna, nú eða skulta henni út á Blönduós til að hitta þartilbæra aðila. Múrenan afþakkaði staðfastlega öllum uppbornum tillögum ... enda fullkomlega tilgangslaust skerða hár hennar.
Enn þann dag í dag, fær Múrenan ekki að hafa hárið á sér í friði ... "Jæja, ég held að þú þurfir nú að fara að fara í klippingu" eru fyrstu merki sem spúsan gefur frá sér til merkis um hárvöxtur sé að ná hámarksstigi. Múrenan hlustar ekki á það. "Þú verður nú bara að fara að fara í klippingu" er önnur viðvörun frá spúsunni. "Þú bara verður núna að fara í klippingu, þetta er ekki hægt lengur" er svo aðvörun númer þrjú.
Þessar aðvaranir minna Múrenuna á liðna tíma og að lokum fer svo að hún borgar einhverjum labbakúti fyrir að klippa sig, meðan spurningaregnið dynur á hnakkanum á henni: "Hvað gerir þú?", "ok, ertu þá búinn að sálgreina mig??", "hvar býrðu í bænum?", "horfirðu á Idolið?" "hvað á að gera í sumarfríinu?" Og svo framvegis ...
Þegar heim er komið dregur Múrenan hring utan um klippingardaginn og veit þá að 8 - 12 vikur geta liðið þangað til næst þarf að huga að því að borga rakara.
Múrenan birtir hér mynd sem tekin var af ljósmyndaranum Þóri, þegar Múrenan stundaði nám í 4. S.G. í Austurbæjarskóla ... Slíkar atvinnumannamyndatökur fór fram á þriggja ára fresti í Austurbæjarskólanum á 9. áratug síðustu aldar og þegar þessi myndataka fór fram var Múrenan nýklippt ... en gleymdi að vísu að greiða sér þennan daginn.
Athugasemdir
æj sæta mynd :D
ErnaGuðrún St, (IP-tala skráð) 17.7.2007 kl. 11:51
Þetta er nú ekki góð klipping, ég verð bara að segja það. En þú ert svoldið eins og sonur minn. Hann er ekkert sérlega hrifinn af því að láta klippa sig og er alltaf óánægður þegar hann kemur úr klippingu. En honum finnst nú samt gaman að spjalla við hárgreiðslufólkið (konur í langflestum tilvikum) og segir þeim ófeiminn frá öllu sem er að gerast í hans lífi. Hefur þú nokkuð hitt hann???
Þóra (IP-tala skráð) 27.7.2007 kl. 19:25
Jú, Múrenan hef svo sannarlega hitt hinn unga Jón Breka ... og er glöð yfir því að eiga að minnsta kosti einn bandamann.
En að segja að klipping Múrenunnar á myndinni sé ekki góð, Múrenan skilur nú bara ekkert í því, ... rakaranum var sagt nákvæmlega til þegar hann klippti og þetta var útkoman!! Stórglæsileg!!
Páll Jakob Líndal, 27.7.2007 kl. 23:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.