18.6.2007 | 07:22
17. júní 2007
Hún var ekki mikil 17. júní stemmningin hér í Sydney í gær ... allt gekk sinn vanagang, líkt og á öðrum sunnudögum. Apótekarinn á horninu opnaði klukkan 8.30, matvörurisinn Coles hafði sína búð opna frá því árla morguns, eigandi pizzu- og kebabstaðarins úti á horni stóð sína vakt, sem og búðareigandinn í þarnæsta húsi og svona má áfram telja.
Sjálfur sat ég megnið úr deginum og barði saman ritgerð um Kyoto-bókunina, hvort hún væri að gera eitthvert gagn eða ekki ... því verki er enn ólokið, þegar þetta er ritað. En svo mikið er víst, að 17. júní var víðs fjarri meðan á þeirri vinnu stóð. Og til að auka enn á óhátíðleikann, tók íbúinn á neðri hæðinni sig til og bauð stúlku í heimsókn til sín í gær ... ekki í frásögu færandi, nema fyrir það að lungann úr deginum mátti ég sem og aðrir íbúar hússins, búa við sóðalegt orðbragð, gól og stunur sem nokkuð víst má telja að hafi komið úr munni gestsins. Persónulega fannst mér að þau hefðu vel getað nýtt einhvern annan dag til þess arna ... en augljóslega ekki mitt að taka ákvörðun um það.
Og til að setja punktinn yfir i-ið var Laugu afskaplega illt í hægra auganu á þjóðhátíðardaginn ...
Já, það er klárt að nýju landi fylgja nýir siðir og 17. júní 2007 verður, í mínum huga, minnst fyrir allt annað en hátíðleikann ...
Athugasemdir
Hæ, hó jibbí jei :)
Dagrún (IP-tala skráð) 23.6.2007 kl. 11:22
Já, Dagrún ... það var nákvæmlega þessi óborganlegi frasi sem bjargaði mér í gegnum þennan þjóðhátíðardag. Ég sönglaði hann fyrir munni mér, þegar atgangurinn var sem mestur á neðri hæðinni.
Páll Jakob Líndal, 25.6.2007 kl. 23:44
Ertu viss um að það séu ekki Íslendingar á neðri hæðinni? Mér virðist a.m.k. nokkur hátíðarhöld hafa verið þar í gangi að gömlum íslenskum sið (sem reyndar er meira ástundaður um aðra hátíðarhelgi ársins; verslunarmannahelgina). Það er þó í það minnsta nokkuð þjóðlegt að reisa stöng og flagga í tilefni dagsins :O)
Helga Guðrún (IP-tala skráð) 26.6.2007 kl. 16:10
Til að prófa Helgu-tilgátuna, þá fór ég niður til Kevins, félagans á neðri hæðinni, í dag og læddi að honum nokkrum velvöldum íslenskum frösum og fékk strax á tilfinninguna að hann skildi ekki hvað ég væri að segja. Niðurstaðan er því sú að Kevin sé sennilega ekki Íslendingur. Það skal þó ekki útilokað að hér sé um afar þjóðrækinn Íslending að ræða, sem kann ekki íslensku.
Stúlkuna hef ég ekki hitt, þannig að þjóðerni hennar og tungmálagáfa er ennþá óskrifað blað.
Páll Jakob Líndal, 28.6.2007 kl. 14:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.