Stórar tilkynningar!

Múrenan hefur ákveðið að skora sjálfa sig á hólm.  Setja sér markmið, sem er ógurlegt ... og er eftirfarandi: Þann 23. september nk. verður hlaupið maraþon-hlaup, já góðir hálsar ... til að hafa eitthvað alvöru verkefni fyrir höndum er meiningin að taka þátt í Blackmores Sydney Running Festival sem Múrenunni skilst að beri undirtitilinn "Run the Brigde".  42,195 km!!  Nikulás frændi Múrenunnar sagði skömmu fyrir Ástralíuferð þess síðarnefnda að sá síðarnefndi væri ekki bara "vinnualki" heldur líka "skapa-sér-verkefni-alki".  Þessi ákvörðun ætti að vera ein staðfesting þess að Lási litli hefur alveg rétt fyrir sér ... verkefnin þurfa að vera fyrir hendi og helst ærin!!

Svo er náttúrulega alveg ógurlega gaman að segja frá því að Múrenan mun í hlaupinu etja kappi við rjómann af langhlaupurum Ástralíu og fyrstu 50 metranna ætlar hún að láta kanónurnar virkilega finna fyrir sér, með öðrum orðum mun Múrenan spretta úr spori og gefa hvergi eftir.  Hvað gerist eftir að þeirri vegalengd sleppir skal ósagt látið, enda undirbúningsferli Múrenunnar rétt að byrja og þrír og hálfur mánuður til stefnu.
Í því ljósi er víst rétt að gefa upp núverandi status: Í dag hljóp Múrenan 10 km á rúmum 60 mínútum og reikna má með að hún myndi skila sér eftir 4 klukkustundir og 30 mínútur í fyrsta lagi á þeim hraða ... sem dugar sjálfsagt ekki til að standa þeim bestu á sporði þannig að ...

... Múrenan ákveður hér með ljúka hlaupinu á innan við 4 klukkutímum!!  Slíkt ætti að geta gefið henni tækifæri til að hanga aftan í þeim fljótustu að minnsta kosti fyrstu 65 eða 70 metrana.  En hafa ber í huga að markmiðið er að komast í mark innan 4 klukkustunda ... sem gæti þýtt að ein klukkustund dygði Múrenunni til að ljúka hlaupinu, ef æfingaferlið yrði einstaklega heilladrjúgt.  Ólíklegt er þó að slíkur árangur náist, sérlega í ljósi þess að heimsmetið er 2:04:55 ... en ef svo ósennilega vildi til að þessar vangaveltur gengju upp þá væri Múrenan sennilega kominn á stall með frjálsíþróttaköppum eins og Carl Lewis og Michael Johnson, hinum nánast ósigrandi sundkappa Michael Phelps, Tiger Woods, og síðast en ekki síst sjálfum Diego Maradona!!! 

Seinni hluti þessarar tilkynningar er nú ekki af verri endanum.  Hann er eftirfarandi: Eftir maraþonið verður stefnan sett á enn lengri vegalengdir, til dæmis 100 km hlaup eða eitthvað því um líkt!!!  Slíkt hlaup hefur verið draumur Múrenunnar í nokkurn tíma ... hlaupa 100 km ... það er langleiðina upp að Bifröst frá Reykjavík.  Já, það er satt sem Nilli segir, Múrenan er "skapa-sér-verkefni-alki"!!

En fyrir maraþon-hlaupið er óleyst eitt vandamál og er það ?%&*#$% núningurinn sem skapast milli læranna, meðan Múrenan hleypur.  Hérna er átt við það vandamál þegar saumarnir á stuttbuxunum fara að nudda innanverð lærin meira og oftar en þægilegt getur talist.  Sennilega krefst lausn þessa vandamáls töluverðrar hugmyndaauðgi af hálfu Múrenunnar, sem og tilraunastarfsemi.  Ef brilliant lausn finnst mun það verða tilkynnt með hátíðlegum hætti á þessari bloggsíðu.  Þetta vandamál er nefnilega ekkert grín!!!

Múrenan lætur þetta duga í bili ... enda búin að lofa allsvakalega upp í ermina á sér ... næst á dagskrá er að standa við þetta bull sem stendur hér að ofan ...

Að lokum ... talsvert hefur verið um að fólk sé að kvarta undan myndaleysi af hálfu Múrenunnar og spúsu hennar.  Hér kemur skýringin: Hraðinn á netinu hjá þeim er 5 Kb/sek!!!  Spúsan ætlaði að hlaða myndum niður á heimasíðu sína www.123.is/lauga, alveg heilum 8 stykkjum, tæplega 30 megabætum.  Áætlaður tími í það 1 klukkustund og 12 mínútur ... ok ... eftir þann tíma kom villumelding og þar af leiðandi engar myndir inn á síðuna.  Pirrandi ... já!!!

En til að sefa þá allra óþolinmóðustu, læt ég eina mynd flakka ofan af Hafnarbrúnni, þessari sem "Run the Brigde" vísar til.  Myndin var tekin síðasta sunnudag en þá fóru Múrenan og spúsan í bæjarferð, samtals 18 km göngu ... en njótið myndarinnar ... hún er flott!!!

IMG_6989

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þegar ég var að skokka í denn átti ég við sama vandamál að stríða, en fann þá út að ef maður er í gamaldags hjólabuxum (þú manst, ógó þröngar úr teygju-glansefni) innanundir (svo enginn sjái þær;) þá hverfur þetta núningsvandamál. Eflaust hægt að fá svona í hard-core íþróttaverslunum eða hjólabúðum.... Gangi þér vel!

Dagrún (IP-tala skráð) 5.6.2007 kl. 20:26

2 identicon

En gaman ad finna ykkur her!!! Eg verd fastagestur hedan af. Mer hefur mikid verid hugsad til thin, eg fekk nefnilega svipad skemmtilegt svar fra Guildhall og thu fordum daga nylega. Vid thurfum nu alveg ad taka tha finu herra i sma kapphlaup...

Knus fra Rottuborg, thar sem folk keyrir lika vitlausu megin a gotunni og er algjorlega oskiljanlegt tho malid eigi ad heita enska

Anna Klara

Anna Klara (IP-tala skráð) 7.6.2007 kl. 17:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband